Vel tekið á móti Chavez á himnum

Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela, sem lést 5. mars síðastliðinn ætti ekki að leiðast í himnaríki, ef marka má nýja teiknimynd sem fer nú sem eldur um sinu um netheima, ekki síst milli manna í Suður-Ameríku. Af henni að dæma var vel tekið á móti leiðtoganum heitna.

Meðal þeirra sem tóku á móti Chavez við komuna til himnaríkis voru aðrir mikilsmetnir leiðtogar í Suður-Ameríku, s.s. Simón Bolivar og Ché Guevara. 

Chavez sem var 58 ára var lagður inn á sjúkrahús 18. febrúar síðastliðinn til að halda áfram geislameðferð eftir tveggja mánaða krabbameinsmeðferð á Kúbu, þar sem hann gekkst í desember undir fjórðu aðgerðina síðan í júní 2011. Heilsu hans hrakaði mikið í byrjun mánaðar og tilkynnti Nicolas Maduro, varaforseti landsins, um andlát hans 5. marsl. 

Forsetakosningar fara fram í landinu eftir rúmar tvær vikur. Kosningabaráttan hefst formlega 2. apríl næstkomandi og kosningarnar fara fram tólf dögum síðar. Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Maduro mikils fylgis.

mbl.is