540 kókaínsjúklingar komu á Vog

Samfélagsmál | 16. nóvember 2019

540 kókaínsjúklingar komu á Vog

Veigamesta breytingin til hins verra hjá þeim sem leggjast inn á sjúkrahúsið Vog er mikil fjölgun á kókaínsjúklingum á síðustu þremur árum og aldrei hafa þeir verið eins margir og árið 2018 eða 540. 

540 kókaínsjúklingar komu á Vog

Samfélagsmál | 16. nóvember 2019

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Veigamesta breytingin til hins verra hjá þeim sem leggjast inn á sjúkrahúsið Vog er mikil fjölgun á kókaínsjúklingum á síðustu þremur árum og aldrei hafa þeir verið eins margir og árið 2018 eða 540. 

Á sama tíma helst fjöldi amfetamínsjúklinga og þeirra sem eru fíknir í MDMA óbreyttur. Fjöldi örvandi vímuefnasjúklinga náði nýjum og óþekktum hæðum árið 2018 og 853 örvandi vímuefnasjúklingar komu á Vog og voru 51% einstaklinganna þar. Þetta kemur fram í ársriti SÁÁ.

Sjúkdómsmynd örvandi vímuefnafíknar er mjög alvarleg og batahorfur slíkra sjúklinga verri en kannabis- og áfengissjúklinga.

Ungmenni að fikta við sterka ópíóíða

„Hjá þeim eru geðrænir og líkamlegir fylgikvillar mjög algengir sem kallar á aukinn viðbúnað af hálfu meðferðarinnar. Þessi vandi herjar auk þess mest á ungt fólk á aldrinum 20-39 ára.  Annað sem gerir ástandið verra er aukinn fjöldi sjúklinga sem nota sterkari ópíóíða í æ og mikill fjöldi dauðsfalla meðal þessara sjúklinga.

Á sama tíma hafa unglingar eða ungmenni sem eru að byrja að ánetjast vímuefnum verið að fikta við þessi lyf sem eru mjög hættuleg en það var nær óþekkt áður. Sjúklingum sem nota vímuefni í æð fjölgar mikið síðustu tvö ár og aldur þeirra og heilsufar versnar þrátt fyrir að flestir hafi verið læknaðir af lifrarbólgu C.

Ótímabærum dauðsföllum hjá áfengis- og vímuefnasjúklingum sem eru yngri en 40 ára hefur fjölgað undanfarin 3 ár. Íslendingum hefur fjölgað án þess að viðbúnaður heilbrigðisyfirvalda vegna áfengis- og vímuefnasjúklinga hafi aukist að sama skapi og fleiri og fleiri sjúklingar lenda á biðlistum eftir afeitrun.

Þó að fjölgunar elstu sjúklinganna, sem komnir eru yfir 64 ára, sé að einhverju farið að gæta á sjúkrahúsinu Vogi eru það smámunir miðað við það sem vænta má á komandi árum vegna væntanlegrar umbyltingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar með mikilli fjölgun aldraðra á næstu 20 árum,“ segir í ársriti SÁÁ. 

Mikil fækkun ungmenna á Vogi

Veigamesti þátturinn sem bætt hefur ástandið er að um helmingi færri ungmenni 19 ára og yngri leita sér nú aðstoðar á sjúkrahúsið Vog en árið 2002.

„Þessi fækkun hefur orðið til þess að mun minni almennar líkur eru á því fyrir Íslending að þurfa að leita sér meðferðar vegna alvarlegs áfengis- og vímuefnasjúkdóms þegar á heildina er litið en var árið 2002.

Á móti virðist sjúkdómsmyndin vera orðin alvarlegri, fjölfíkn algengari og þeir sem hafa sjúkdóminn eru orðnir veikari og eldri. Annar veigamikill þáttur er árangurinn sem náðst hefur í að lækna langvinna lifrarbólgu C og útrýma henni að mestu úr íslensku þjóðfélagi, að minnsta kosti í bili. Þetta er sjúkdómur sem hefur verið stærsta orsök heilsubrests og dauða hjá þeim sem nota vímuefni í æð,“ segir í ársritinu.

Þriðji veigamikli þátturinn sem gerir ástandið betra er ný lyfjameðferð við ópíóíðasjúkdómnum sem byrjaði hjá SÁÁ 1999 og er nú orðin að fjölþættri göngudeildarstarfsemi sem þjónustar um 150 sjúklinga og eykur lífsgæði þeirra og batahorfur um mikinn mun. Helmingur sjúklinganna sem fá slíka meðferð er í stöðugum og góðum bata og félagslega virkur.

mbl.is