Styðja fólk í að velja lífið

Samfélagsmál | 4. febrúar 2020

Styðja fólk í að velja lífið

„Fólk getur hafa upplifað slíka óbærilega angist að það sjái ekki annan valkost en að deyja, og hafi jafnvel gert tilraunir til að taka eigið líf, en lifað af. Það er gríðarlega dýrmætt að sögur þeirra heyrist, þar sem mörg þeirra lifa síðar góðu lífi og slík skilaboð miðla von um bjartari framtíð fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra,“ segir í stefnumótandi tillögum ungs fólks með persónulega reynslu af öngstræti varðandi sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvíg. Hópurinn kynnti tillögur sínar á fundi hjá Hugarafli fyrr í dag.

Styðja fólk í að velja lífið

Samfélagsmál | 4. febrúar 2020

Hópur ungs fólks með persónulega reynslu af öngstræti varðandi sjálfsskaða, …
Hópur ungs fólks með persónulega reynslu af öngstræti varðandi sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og tilrauna til sjálfsvígs, kynnti tillögur sínar í málaflokknum í dag. mbl.is/Rax

„Fólk getur hafa upplifað slíka óbærilega angist að það sjái ekki annan valkost en að deyja, og hafi jafnvel gert tilraunir til að taka eigið líf, en lifað af. Það er gríðarlega dýrmætt að sögur þeirra heyrist, þar sem mörg þeirra lifa síðar góðu lífi og slík skilaboð miðla von um bjartari framtíð fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra,“ segir í stefnumótandi tillögum ungs fólks með persónulega reynslu af öngstræti varðandi sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvíg. Hópurinn kynnti tillögur sínar á fundi hjá Hugarafli fyrr í dag.

„Fólk getur hafa upplifað slíka óbærilega angist að það sjái ekki annan valkost en að deyja, og hafi jafnvel gert tilraunir til að taka eigið líf, en lifað af. Það er gríðarlega dýrmætt að sögur þeirra heyrist, þar sem mörg þeirra lifa síðar góðu lífi og slík skilaboð miðla von um bjartari framtíð fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra,“ segir í stefnumótandi tillögum ungs fólks með persónulega reynslu af öngstræti varðandi sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvíg. Hópurinn kynnti tillögur sínar á fundi hjá Hugarafli fyrr í dag.

Í tillögum unga fólksins er meðal annars fjallað um íslensku …
Í tillögum unga fólksins er meðal annars fjallað um íslensku aðgerðaráætlunina til að fækka sjálfsvígum en hópurinn segist hafa ýmar athugasemdir við hana. mbl.is/Rax

Unga fólkið segir mikilvægt að styðja fólk í að finna ástæður til að vilja lifa, frekar en að banna því að deyja. „Forvarnaraðgerðir gegn sjálfsvígum þurfa að stefna í átt að réttlátara samfélagi og betri lífsskilyrðum. Það þarf að bæta aðstæður jaðarsettra hópa s.s. innflytjenda, hinsegin fólks, fátækra o.s.frv. Menntakerfið þarf að bjóða upp á tækifæri fyrir öll, óháð bakgrunni, heimilisaðstæðum eða eiginleikum, þar sem hver og einn fær að blómstra á eigin forsendum og ólíkum hæfileikum er fagnað,“ segir í tillögum hópsins.

Talsvert hefur verið talað um „sjálfsvígsheld rými“ í tengslum við sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir inni á lokuðum geðdeildum Landspítalans. Þá er endurtekið höfðað til fjölmiðla og stjórnvalda um að fá aukið fjármagn til að aðlaga rýmin, fjarlægja enn frekari hættur og auka mönnun til að sinna reglulegu eftirliti.

Tala af reynslu

„Mörg okkar hafa reynslu af því að liggja inni á geðdeildum Landspítalans og jafnvel undir sjálfsvígseftirliti. Okkar reynsla er að strípað herbergi og reglulegt eftirlit ókunnugrar manneskju sem kíkir öðru hvoru inn um dyragættina auki ekki löngun eða tilgang til að lifa lífinu. Vissulega líður aðstandendum eflaust betur að vita af því að ástvinir þeirra séu undir eftirliti en þetta er ekki leiðin til að stuðla að því að fólk finni von, tilgang og velji að lifa áfram. Það er ekki hægt að banna fólki að deyja, það er hægt að styðja það til að velja lífið,“.

Reynsla okkar hefur kennt okkur að mannleg nálgun og nánd geti komið í veg fyrir sjálfsvíg í fjölda tilfella. Sterkasta verkfæri okkar er að sýna samkennd, hlusta á áhyggjur einstaklingsins og gefa viðkomandi tíma til að komast í gegnum þessa tímabundnu krísu. Það er lykilatriði að vera meðvituð um að vanlíðanin er ekki merki um vanda sem einskorðast við einstaklinginn. Vanlíðanin endurspeglar flókið samspil einstaklings, umhverfis og samfélags, segja þær Sigurborg Sveinsdóttir og Svava Arnardóttir, sem eru meðal þeirra sem unnu tillögurnar.

Breyta þurfi starfsháttum gagnvart börnum og ungmennum

Svava segir að mikilvægt sé að veita manneskjulega nálgun til þeirra sem leggjast inn á geðdeild í stað þess að setja einstaklinginn inn í tómt rými þar sem hann eigi að vera öruggur. Það þarf að auka líkur á að viðkomandi vilji lifa áfram. Það þarf ekki síst að breyta starfsháttum gagnvart börnum og ungmennum. Það að beitt sé úrræðum sem brjóta gegn Mannréttindasáttmála og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt. Að beitt sé hótunum, einangrun og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart börnum,“ segir Svava og þessu þurfi að breyta. 

Aðalatriðið er að það skortir manneskjulegt viðmót í geðheilbrigðiskerfinu, nánd og þá tilfinningu að við, sem höfum upplifað áföll og/eða erum að ganga í gegnum krísu, skiptum máli, segir Sigurborg. „Of oft vanmeta starfsmenn mátt sinn sem manneskjur og kraftinn sem felst í því að sýna nánd. Að standa þér við hlið og staðfesta líðan þína án þess að ráðleggja er mjög sterkt verkfæri,“ segir Sigurborg.

Fundur hjá Hugarafli í dag.
Fundur hjá Hugarafli í dag. mbl.is/Rax

Í seinni tíð hefur umræða um sjálfsskaða og sjálfsvíg orðið opnari. Aukin vinna hefur verið lögð í forvarnir og stefnumótun. Við teljum að persónuleg reynsla okkar og innsýn í þessi mál sé bæði dýrmæt og þörf til að auka skilning á af hverju fólk kýs stundum að taka eigið líf og aðdragandanum fram að þessari alvarlegu tilfinningalegu krísu, segja þær. 

Töluverður aðdragandi var að þessu verkefni sem unnið er innan Hugarafls. Hugmyndin spratt upp úr því að fólk innan hópsins var á fjölda viðburða þar sem ungt fólk var umfjöllunarefnið og andleg vanlíðan þess. „Við sáum það þegar við litum í kringum okkur að það var mjög sjaldan ungt fólk að tala og enn færra ungt fólk í salnum. Þetta voru aðallega forsvarsmenn úrræða og sérfræðingar,“ segir Svava. 

Af hverju upplifir fólk slíka vanlíðan?

Félagar Hugarafls tóku sig því saman og ákváðu að halda viðburð 12. september í fyrra þar sem fimm ungmenni á aldrinum 18-30 ára sögðu frá eigin reynslu af sjálfsskaða, sjálfsvígshugsunum og tilraunum til sjálfsvíga. Viðburðurinn var haldinn í tilefni af alþjóðlegum forvarnadegi sjálfsvíga sem haldinn er 10. september ár hvert.

Í umræðu um sjálfsvíg er fjölmiðlum og almenningi tamt að draga fram tölur um tíðni sjálfsvíga, upplýsingar um algengi sjálfsvíga og tengsl þeirra við ákveðna geðsjúkdóma eða vímuefnanotkun. Það skortir hins vegar að veita upplýsingar um af hverju fólk upplifir slíka vanlíðan að það telji sér ekki fært að lifa lengur og neyðist til að taka eigið líf.

„Í ljósi persónulegrar reynslu okkar íhugar fólk ekki sjálfsvíg í tómarúmi. Þessar hugsanir skjóta upp kollinum í kjölfar áfalla, ofbeldis og útskúfunar eða tengjast öðrum félagslegum eða efnahagslegum þáttum s.s. þjóðerni, kyntjáningu, kynvitund, kynhneigð, fátækt, færni og skerðingu, kynþætti, stöðu á atvinnumarkaði, menntun og öðrum tækifærum til samfélagslegrar þátttöku.

Það er lykilatriði að huga að þessum þáttum til að skilja þær ástæður sem liggja að baki því þegar fólk íhugar sjálfsvíg og telur það skásta eða jafnvel eina kostinn sem því stendur til boða. Einnig eru þessir þættir gjarnan undanfari þess að fólk fái greiningarstimpla geðsjúkdóma í kjölfar krísu. Sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaði eru ekki geðsjúkdómur.

Okkar reynsla er sú að að tilfinningaleg vanlíðan sem verður til þess að einstaklingur fær geðsjúkdómsstimpil og vímuefnavandi spretta oft af sömu rót. Það sama má segja um orsakir þess að fólk upplifi sjálfsvígshugsanir og stundi sjálfsskaða.

Við viljum ítreka það að hver sem er getur upplifað erfiðar hugsanir og lent í öngstræti, enda er það sammannlegt að líða einhvern tíma illa. Það er ekki rétt að afmarka og greina vanda einstaklings við sjúkdóm þegar orsakirnar er að finna allt í kringum okkur. Ofbeldi og áföll eru ekki sjúkdómar og það ætti því ekki að flokka afleiðingar ofbeldis og áfalla sem sjúkdóma,“ segja þau.

Að þeirra mati ættu sjálfsvígsforvarnir ekki að snúast um að fjarlægja leiðir til að taka eigið líf, því fólk sem er í tilfinningalegri krísu og er með sjálfsvígshugsanir mun ávallt finna leiðir til að kveðja þennan heim. Til að vinna í alvöru að sjálfsvígsforvörnum þarf að leggja kraft í að bæta samfélagið og styðja fólk til að vinna úr áfallasögum til að færri einstaklingar upplifi svo mikla vanlíðan að þeir sjái sér ekki fært að lifa lengur. Allt forvarnastarf ætti að miðast að því að styðja fólk til að finna ástæður til að vilja lifa. 

Hlustað af athygli á tillögur unga fólksins.
Hlustað af athygli á tillögur unga fólksins. mbl.is/RAX

Í tillögum unga fólksins er meðal annars fjallað um íslensku aðgerðaáætlunina til að fækka sjálfsvígum en hópurinn segist hafa ýmsar athugasemdir við hana.

„Áætluninni var skipt í fimm flokka, og þar á meðal var einn flokkurinn takmörkun aðgengis að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum og annar efling geðheilsu og seiglu í samfélaginu. Hér er lögð of mikil áhersla á að „fjarlægja leiðir“ sem mikilvægan þátt í forvörnum gegn sjálfsvígum. Við teljum að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir slíkt með þeirri aðferð. Einnig þykir okkur varhugavert að skella skuldinni á einstaklinginn og skort hans á seiglu, þegar fólk í þessum aðstæðum hefur reynst þrautseigt og barist lengi við óviðunandi aðstæður áður en tilraun er gerð til að taka eigið líf. Við teljum að þessi áætlun hefði mögulega náð betur utan um vandann og lausnir ef einhverjir einstaklingar með persónulega reynslu af viðfangsefninu hefðu verið þátttakendur í verkefnahópnum, en svo var ekki í þessu tilviki,“ segir í tillögum hópsins.

Rætt um sjálfsvíg og leið að betri líðan.
Rætt um sjálfsvíg og leið að betri líðan. mbl.is/RAX

Hópurinn telur þörf á því að opna umræðuna um geðheilsu, tilfinningar og líðan mun fyrr en var gert í þeirra bernsku og að það sé gert strax í leikskóla. „Fræðslan á ekki að snúast um geðsjúkdómastimpla heldur mannlega líðan og það að okkur getur liðið á alls kyns vegu án þess að það sé sjúklegt. Börnum getur liðið afskaplega illa og verið farin að hafa ýmsar sjálfsvígshugsanir á unga aldri. Þeim geta fylgt mikil skömm og vanlíðan, og sú hugsun að þau séu ein í heiminum. Vönduð fræðsla um svartnætti og öngstræti myndi ekki gefa börnum hugmyndir heldur brjóta niður múra og minnka þessa skömm og einangrun. 

Ástvinir okkar eiga það til að verða afar óttaslegnir þegar við höfum opnað okkur um vanlíðan. En stundum eru viðbrögð þeirra við sjálfsskaða, tali um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ekki til neinnar hjálpar. Sjálfsvígstilraunir eru til að mynda ekki merki um eigingirni, veikleika eða athyglissýki. Markmiðið með slíkum tilraunum er ekki endilega að deyja heldur að losna úr óviðunandi aðstæðum og vanlíðan.

Hjálpleg viðbrögð eru að fá að tala um vanlíðanina án þess að vera dæmdur, án þess að vera stimpluð með sjúkdóm og án þess að aðstandandinn verði svo hræddur að lokað verði á frekari umræðu,“ segja ungmennin.

Mikilvægt að létta á skömminni

Sigurborg segir mikilvægt að létta á þessari skömm og eins að hafa einhvern til að ræða við. Að það sé allt í lagi að tala við fólk um vanlíðan. 

„Við viljum koma þeim skilaboðum á framfæri við fólk að vera óhrætt við að eiga samtalið við náinn vin eða aðstandanda, að vera manneskja og vera til staðar,“ segir Svava. Að fólk sé óhrætt við að leyfa viðkomandi að finna að hann er ekki einn og það sé til staðar ef eitthvað bjátar á. „Í stað þess að ef opnað er á umræðuna að þá sé svarið strax: finnum fagaðila. Það er ekki það eina sem er í boði og getur þýtt að fólk þorir ekki að opna á þetta. Þessar hugsanir geta komið upp mjög snemma og jafnvel þegar maður er mjög ungur. Það er ekki talað um þetta þegar börn eru mjög ung og þau upplifa það þess vegna að þau séu ein í heiminum. Mikil skömm og ef ekkert er talað um það þá eru það skilaboð um að maður eigi ekki að vera svona og að maður sé einn,“ segir Svava. 

Það þarf að taka því alvarlega þegar börn beita önnur börn ofbeldi, líkt og á sér stað í eineltismálum. Þau verkfæri sem við leggjum sérstaklega til í þessum málaflokki er varðar geðheilsu á uppvaxtarárum er starf sambærilegt Regnbogabörnum og Geðfræðslu Hugarafls.

Núverandi fyrirkomulag Geðfræðslu Hugarafls er að fólk með persónulega reynslu af andlegum áskorunum fer í efstu bekki grunnskóla og fyrstu bekki menntaskóla og segir frá sinni batasögu og opnar umræðu um tilfinningar og bjargráð. Eitthvað sambærilegt Regnbogabörnum og svo Geðfræðslu Hugarafls þyrfti að vera í boði um land allt, og fyrir töluvert breiðari aldurshóp en nú er. Svava og Sigurborg segja að með því að vinna í áfallasögu sé oft hægt að koma í veg fyrir margra ára vanlíðan og sjálfsvígshugsanir ungs fólks. 

Nokkur þeirra hafa persónulega reynslu að hafa fengið þjónustu (innlagnir, göngudeild og eftirfylgni) hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Fjöldi ungmenna fær aldrei þjónustu frá BUGL og dagar uppi á löngum biðlistum.

„Þetta er sorgleg staðreynd um íslenskt geðheilbrigðiskerfi. Þau okkar sem hafa reynslu af BUGL hafa blendnar tilfinningar til starfsins (þar) sem lita afstöðu þeirra gagnvart stofnuninni. Við viljum taka það fram að við höfum öll haft kynni af einstökum starfsmönnum sem hafa hjartað á réttum stað og hafa stutt okkur á jákvæðan hátt. Hins vegar teljum við það ólíðandi að við séu hafðar þvingunaraðferðir gagnvart börnum, t.d. þvinguð lyfjagjöf, hótanir um að vera tekin frá foreldrum, einangrun notuð sem refsing, frelsissvipting og börn fjarlægð af heimili án samþykkis barnsins. Einnig höfum við dæmi um að vanmáttur og viðkvæm staða foreldra sé notuð gegn þeim til að fá samþykki þeirra fyrir innlögn barna og lyfjagjöf gegn betri vitund þeirra.

Við höfum upplifað að vera í „einangrunarherberginu“ á meðan innlögn okkar á BUGL stóð. Slík herbergi eru strípuð af öllu nema rúmi og því sem er veggfast. Gluggi er á hurð og barnið er lokað þar inni ef það sýnir erfiða hegðun og haldið þar þar til það hefur „róað sig“, segja þau í tillögum sínum.

Lokuð inni í fjóra tíma, sleppt út í stutta stund og lokuð inni aftur

Jafnvel hafi verið það verklag að börn hafi mátt vera lokuð inni í að hámarki fjórar klukkustundir í þessu herbergi. „Sum okkar upplifðu það að vera lokuð inni í fjórar klukkustundir, vera sleppt út í stutta stund, og lokuð strax aftur inni í aðrar fjórar klukkustundir. Sérstakur skýrsluhöfundur Sameinuðu þjóðanna um pyntingar tók sérstaklega fram í skýrslu frá 2011 að einangrun barna og ungmenna undir 18 ára aldri, sama hversu stutt, teljist grimmdarleg, ómannúðleg og niðurlægjandi meðferð (Interim report of the Special Rapporteur of the Human Rights Council on torture and other cruelinhuman or degrading treatment or punishment, 2011). Við tökum undir þessi orð, einangrun á aldrei að nota sem refsingu,“ segja þau.


Svava segir að þetta sé mjög miklvægt. „Andleg vanlíðan er ekki bundin við einstaklinginn einan og einstaklingsþætti. Okkar reynsla af BUGL er sú að barnið er tekið úr umhverfi sínu og vandanum skellt á það. Ekki er horft til þátta utan barnsins sjálfs, jafnvel þótt löng saga sé um endurteknar innlagnir og langvarandi vanda. Að innlögn lokinni er barnið sent aftur heim án þess að búið sé að athuga hvort heimilisaðstæður og félagslegur stuðningur séu viðunandi. Nokkur okkar báðu ítrekað um fjölskyldumeðferð á meðan innlögn á geðdeild stóð  en beiðnum var ekki svarað. Það þarf að horfa heildrænt á aðstæður hverju sinni.“

Mikið hefur verið rætt um skort á fjármagni til þess að viðunandi þjónusta geti verið í boði á geðdeildum Landspítalans. Við teljum lausnina ekki felast einfaldlega í auknum fjárveitingum heldur þyrfti líka að aðlaga starfshætti og breyta um áherslur í nálgun í málaflokknum. Það er ekki þörf á að fjölga stöðugildum ef starfshættir verða óbreyttir. Meirihluti okkar hefur legið inni á geðdeildum Landspítalans á einhverjum tíma ævinnar. Af þeirri reynslu að dæma er allt of algengt að starfsfólk hunsi vanlíðan þeirra sem liggja þar inni og horfi jafnvel í hina áttina ef einhver situr grátandi í alrými eða öskrar inni á herbergi. Við teljum fjölda núverandi starfsfólks hálfkulnað í starfi, með takmarkaða trú á að fólk geti náð bata og skertan vilja til að tengjast fólki á manneskjulegan hátt,“ segir í tillögum hópsins.

Innlögn ákveðið áfall

Þær segja ákveðið áfall að leggjast inn á geðdeild og fyrir suma í hópnum hefur það tekið verulega á að vinna úr afleiðingum þess. 

„Fjölmiðlar hafa ítrekað fjallað um óviðunandi aðstæður á geðdeildum og við tökum undir þann málflutning. Grófur, grár steypuveggur tekur á móti fólki í stigaganginum hjá geðdeildunum og gefur nasaþef af framhaldinu. Fjöldi fólks sem leggst inn á geðdeild á erfitt með svefn. Einungis voru gular, léttar gardínur fyrir gluggum þegar við lágum þar inni og erfitt að fá nægilegt myrkur til að sofa.

Einstaklingar eru settir í tveggja manna herbergi og gert að sofa þannig með ókunnugri manneskju á einum versta tímapunkti lífs síns, jafnvel þótt herbergisfélaginn gráti hátt, hrjóti eða sé með aðra truflandi hegðun.

Okkur var gert að fara á fætur á morgnana og samlagast rútínu sjúkrahússins en fátt var við að vera yfir daginn. Ekki er hægt að læsa herbergjum fólks sem gerir það að verkum að aðrir inniliggjandi geta farið inn í herbergi annarra, ýmist viljandi eða óviljandi.

Við höfum upplifað það að starfsfólk geðdeildar viti af því að inniliggjandi karlkyns manneskja stundi það að fara inn í herbergi kvenna og jafnvel leggjast upp í rúm hjá þeim og komi ekki í veg fyrir það heldur biðji inniliggjandi konur að vera á varðbergi. Okkar reynsla var sú að ofbeldi og áreitni milli inniliggjandi einstaklinga var ekki tekið alvarlega. Aðstæður bjóða upp á misnotkun og ýmiss konar ofbeldi af hálfu bæði inniliggjandi fólks sem og starfsfólks,“ segir hópurinn.

Frá fundi hjá Hugarafli í dag. Mál­fríður Hrund Ein­ars­dótt­ir, formaður …
Frá fundi hjá Hugarafli í dag. Mál­fríður Hrund Ein­ars­dótt­ir, formaður Hug­arafls,. mbl.is/RAX

Sigurborg segir að það sé ekki bara erfitt að verða fyrir þvingaðri meðferð eða lyfjagjöf inni á geðdeild heldur sé líka erfitt að verða vitni að slíku.

Svava segir að þegar fólk er alvarlega veikt sé hugsunin að vonast til þess að maður sé nægjanlega veikur til að fá að leggjast inn því alltaf sé einhverjum vísað frá. Þegar fólk leggist inn renni skyndilega upp fyrir því ljós um að mega ekki fara út af deildinni þrátt fyrir að hafa lagst inn sjálfviljugt. Að mega ekki annast lyfin sín sjálf þó svo þau séu skaðlaus og jafnvel lyfjagjöf sé breytt af geðlækni sem kannski hefur aldrei hitt þig, segir Svava. 

Unga fólkið segir mikilvægt að styðja fólk í að finna …
Unga fólkið segir mikilvægt að styðja fólk í að finna ástæður til að vilja lifa, frekar en að banna því að deyja. mbl.is/RAX

Hluti af réttindum okkar er að fá að vita hvaða úrræði eru í boði, fá upplýsingar um alla valkosti og að valdið til að velja sé í samræmi við eigið innsæi. Ýmis þjónusta er í boði á geðdeild en skortur er á að inniliggjandi fólki sé sagt frá henni. Okkar upplifun hefur verið sú að þau sem þekkja best til og krefjast góðrar og eðlilegrar þjónustu, fái bestu þjónustuna. Það er lágmarkskrafa að allir sem liggja inni á geðdeild viti t.d. að þar starfi sálfræðingar sem hægt sé að bóka tíma hjá, að það megi fara út og það sé hægt að fá aðstandendafund. Þjónustan á að standa öllum þeim til boða sem leita inn á geðdeild í stað þess að vera tilviljanakennd og þá aðallega veitt þeim sem krefjast réttar síns.

Í Hugarafli eru nú á þriðja hundrað félagsmenn.
Í Hugarafli eru nú á þriðja hundrað félagsmenn. mbl.is/RAX

„Það er krafa okkar að fá yfirlit yfir þá þjónustu sem fólki stendur til boða við innlögn og útskrift af geðdeild. Það á að veita þessar upplýsingar á skýru mannamáli og tryggja að fólki sé vísað áfram í þjónustu að lokinni útskrift.

Einnig er algengt að einstaklingum í mikilli vanlíðan sé ávísað geðlyfjum sem hafa þekkta aukaverkun að auka líkurnar á sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígum. Við teljum það ekki ásættanlegt að halda áfram að ávísa þessum lyfjum án þess að veita umtalsvert meiri upplýsingar um þessa áhættu til þeirra sem fá lyfin og til aðstandenda þeirra. Ein möguleg leið væri að krefjast þess að geðlyf með þessa aukaverkun væru merkt með skýrum hætti, t.d. með svörtum þríhyrningi, sem myndi auka umræðu og vitund almennings um þessa hættu, segja þær. 

Mikilvægt sé að bjóða upp á önnur úrræði en innilokun á geðdeild, ekki síst fyrir þá sem fá höfnun um innlögn. Þær Svava og Sigurborg nefna skjólshús sem mögulega viðbót. Hugarafl hafi lengi haft áhuga á að reka slíkt úrræði en það er ekki ódýrt úrræði þar sem um sólarhringsstarfsemi er að ræða.  

Fólk geti leitað í skjólshús í krísu og dvalið í allt að tvær vikur á meðan það kemur fótunum undir sig. Þar verði fólki frjálst að koma og fara að vild, fólk fengi eigið herbergi og gæti haft þar sína persónulega muni og leitað eftir samskiptum við annað fólk. Skjólshúsið yrði staðsett í einbýlishúsi í rótgrónu íbúðarhverfi og væri rekið að öllu leyti af fólki með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Þangað væri því hægt að leita tímabundið og ræða við annað fólk á jafningjagrunni, ná jafnvægi, deila von og bjargráðum og endurvekja drauma um betri framtíð.

Við teljum þörf á því að aðstandendum sé veittur aukinn stuðningur samhliða innlögn ástvinar á geðdeild en slíkt var ekki í boði. Eftirfylgni er verulega ábótavant, mikil áhersla er á að útskrifa fólk sem fyrst og jafnvel engin framhaldsmeðferð sem ætlað er að taki við í kjölfarið, segir Sigurborg.

Sigurborg segir að fyrir aðstandendur geti innlögn á geðdeild reynt mjög á enda stundum erfitt að fá upplýsingar og að hitta viðkomandi. Til að mynda fyrir börn. Í skjólshúsi væri hægt að bæta aðgengi aðstandenda og auka upplýsingaflæði. Jafnframt að bjóða upp á andlegt hjartahnoð sem er ódýrt verkfæri. 

Eitt af því sem unga fólkið setur stórt spurningarmerki við er þvinguð meðferð. „Ekki liggja allir inni á geðdeild af fúsum og frjálsum vilja. Við teljum mikilvægt að fjalla sérstaklega um þvingaða meðferð á geðdeildum og nefnum þá bæði beina og óbeina þvingun.

Sumu fólki er hótað að ef það fylgi ekki fyrirmælum verði það nauðungarvistað á geðdeild, gefin lyf án samþykkis þess eða komið í veg fyrir umgengni við börn þess. Fólk fylgir því fyrirskipunum gegn eigin vilja og er ekki talið með í tölfræðilegri úttekt á þvingaðri meðferð.

Þvinguð meðferð er einnig enn við lýði í íslensku geðheilbrigðiskerfi þótt við teljum varla hægt að tala um „meðferð“ ef hún er þvinguð og í óþökk einstaklingsins. Einstaklingar í uppnámi og tilfinningalegri krísu geta lent í því að vera nauðungarvistaðir, sviptir sjálfræði og/eða gefin geðlyf án samþykkis.

Þetta er alvarleg valdbeiting sem sögð er vera í þágu einstaklingsins en getur í sjálfu sér falið í sér mikið áfall og endurupplifun á fyrri áfallasögu viðkomandi manneskju. Það þarf að endurskoða þessa starfshætti með afar gagnrýnum hætti.

Við leyfum okkur að velta upp þeim möguleika að geðheilbrigðiskerfi sem tekur manneskju úr tengslum við samfélagið, lokar hana inni, gefur lyf, setur stimpla á upplifanir viðkomandi sem fela í sér rótgróna fordóma og jaðarsetningu og jafnvel þvingar viðkomandi til að „þiggja“ þjónustuna, geti verið orsök sjálfsvígstilraunar eða jafnvel sjálfsvígs.

Það kæmi okkur ekki á óvart ef hluti vanlíðanar sem fólk reynir að losa sig frá (við) sé tengd þessari erfiðu upplifun af geðdeild. Það sárvantar fleiri valmöguleika í geðheilbrigðiskerfinu fyrir fólk sem treystir sér ekki til að vera heima hjá sér vegna gífurlegrar vanlíðanar og vill líða betur. Það vantar beinlínis griðastað fyrir fólk í öngstræti,“ segir í tillögum unga fólksins en eitt af því sem Svava nefnir eru geðlyf sem fólk í sjálfsvígshættu er gefið, stundum séu þetta lyf sem auki hættu á sjálfsvígum. 

Að miðla von er afar mikilvægt, segir Sigurborg. Það er fullt af fólki sem hefur lent í þessu öngstræti og náð bata og lifir góðu lífi. Hefur ekki oft verið dregið fram í umræðunni, segir hún. 

„Þetta miðlar ekki bara von til þeirra sem eru í svartnættinu núna heldur líka til aðstandenda sem eru oft mjög óttaslegnir varðandi framtíðina. Við fáum þau skilaboð úr fjölmiðlaumfjöllun að það sé stór hluti fólks sem líði illa og hópur fólks sem fellur fyrir eigin hendi en engin batasaga samhliða og síðan er eingöngu bent á geðdeild, hjálparsíma og Píeta. Það vantar að draga fram þá staðreynd að það er stór hópur sem hefur verið á þessum stað en er á betri stað í dag,“ segir Svava. Það þarf ekki að vera heldur þannig að þér líði illa og síðan aldrei aftur. Þessar hugsanir geta komið upp aftur eða verið viðvarandi en þú sért samt fær um að lifa almennt góðu lífi í samfélaginu bætir hún við. Það er mikilvægt að hafa í huga að fólk sem upplifir sjálfsvígshugsanir, sjálfsskaða og tilraunir getur náð fullum bata, fundið tilgang, tilheyrt samfélagi og átt gott líf.

„Bati er líklegri þegar við fáum þau skilaboð að það að lenda í öngstræti séu eðlileg viðbrögð við mótlæti. Þegar komið er fram við okkur með umhyggju og samkennd og þegar okkur er gefinn nægur tími til þess að jafna okkur er líklegra að við náum að koma undir okkur fótunum.

Það er staðreynd að þöggun ríkir um sjálfsvíg í okkar samfélagi, bæði nú og áður. Það er okkar reynsla að það að tala um þessi mál upphátt og opinberlega, minnki skömm og einangrun þeirra sem upplifa sjálfsvígshugsanir. Þessar hugsanir eru algengari en við höldum og það hjálpar að tala um þær á jafningjagrunni. Það er gömul goðsögn að það að ræða um ákveðin tilvik sjálfsvíga í litlum samfélögum leiði til þess að aðrir falli fyrir eigin hendi.

Sannleikurinn er sá að það að tala opinskátt og á mannamáli um sjálfsvíg, hafa fyrirmyndir og heyra batasögur, eykur von og tilgang sem hefur sterkt forvarnagildi. Þegar kemur að því að miðla von tengdri sjálfsskaða og sjálfsvígshugsunum þykir okkur mikilvægt að sögur þeirra sem hafa staðið í þessum sporum fái að heyrast, segir í stefnumótandi tillögum ungs fólks með persónulega reynslu af sjálfskaða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir. „Það er gott að tala um hlutina,“ segir Svava og Sigurborg bætir við: „að virkja þína nánustu þannig að þau geti veitt aðstoð, verið til staðar þegar þörf er á.“

mbl.is