Hafa mörg búið við erfiðar aðstæður

Samfélagsmál | 26. janúar 2020

Hafa mörg búið við erfiðar aðstæður

Forstjóri Barnaverndarstofu, Heiða Björg Pálmadóttir, segir að mörg þeirra barna sem eru skjólstæðingar þeirra hafi búið við erfiðar heimilisaðstæður og eru komin í neyslu, kannski til að deyfa sig því þau hafa lent í alls konar áföllum. Hún tekur undir með forsætisráðherra Danmerkur um að grípa þurfi fyrr inn. 

Hafa mörg búið við erfiðar aðstæður

Samfélagsmál | 26. janúar 2020

Forstjóri Barnaverndarstofu, Heiða Björg Pálmadóttir, segir að mörg þeirra barna sem eru skjólstæðingar þeirra hafi búið við erfiðar heimilisaðstæður og eru komin í neyslu, kannski til að deyfa sig því þau hafa lent í alls konar áföllum. Hún tekur undir með forsætisráðherra Danmerkur um að grípa þurfi fyrr inn. 

Forstjóri Barnaverndarstofu, Heiða Björg Pálmadóttir, segir að mörg þeirra barna sem eru skjólstæðingar þeirra hafi búið við erfiðar heimilisaðstæður og eru komin í neyslu, kannski til að deyfa sig því þau hafa lent í alls konar áföllum. Hún tekur undir með forsætisráðherra Danmerkur um að grípa þurfi fyrr inn. 

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði í fyrra miðað við árin 2018 og 2017. Eins fækkaði vistunum á lokaðri deild Stuðla. Alls komu 65 börn á lokaða deild á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Stuðlar skiptast í tvær deildir; meðferðardeild og lokaða deild (almennt kölluð neyðarvistun). Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12 – 18 ára. Á meðferðardeild fer fram greining á vanda barna og meðferð sem að jafnaði stendur yfir í 6 - 8 vikur. Einungis starfsfólk barnaverndarnefnda getur sótt um vistun fyrir börn á meðferðardeild. Á neyðarvistun getur starfsfólk barnaverndarnefnda eða lögregla í samráði við barnaverndina vistað börn á lokaðri deild. Ástæður vistunar geta verið óupplýst afbrot unglings, ofbeldi, vímuefnaneysla eða önnur stjórnlaus hegðun. Á neyðarvistun fer fram gæsla og mat á stöðu barns. Hámarkstími vistunar eru 14 dagar í senn fyrir mest 6 börn í einu.

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að þrátt fyrir að talað sé um lokaða deild sé aldrei um einangrun að ræða. Slík úrræði séu ekki á Íslandi og hafi ekki verið. Til að mynda hafi meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði ekki verið lokaðra úrræði en önnur meðferðarheimili líkt og stundum sé haldið fram. 

„Við höfum áhyggjur þegar farið er að tala um að loka börn inni. Því við vitum að það skilar engu líkt og rannsóknir alls staðar úr heiminum sýna. Auðvitað má alltaf bæta og breyta meðferðarkerfin okkar en við gerum það ekki með því að læsa börn inni í einangrun,“ segir hún.

Þú verður alltaf að reyna

Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla, segir að meðferðarkerfið sé misjafnlega opið og það geti verið lokað að hluta fyrir barn í ákveðinn tíma en viðkomandi þurfi alltaf að fara á hinn staðinn aftur. „Þú verður alltaf, þegar það er metið svo að það sé við hæfi, að reyna. Því raunveruleikinn er ekki þessi innilokaði heimur eins og væri í lokuðu úrræði. Ég hef fullan skilning á því að foreldrar biðji um að börn þeirra séu lokuð inni og stundum líður mér líka þannig. Að þau séu lokuð inni þangað til þau eru búin að ná sér en um leið veit ég að það er ekki rétt. Fyrir það fyrsta erum við með óyggjandi niðurstöður rannsókna. Það er verri árangur og að fallið verður enn alvarlega og verra ef það er gert og þau koma út að nýju,“ segir Funi. 

Heiða segir að stundum setji foreldrar fram þessa kröfu. Stundum ráða foreldrar illa við vanda barns sem er orðinn mjög alvarlegur en í mörgum tilvikum er jafnframt um að ræða langvarandi vanrækslu eða annan vanda foreldra sem er undirliggjandi.

Flestar tilkynningar til barnaverndarnefnda landsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru vegna barna sem bjuggu við vanrækslu líkt og árin á undan eða 42,4% tilkynninga. Alls fjölgaði tilkynningum til barnaverndarnefnda um tæp 10% á fyrstu níu mánuðum síðasta árs miðað við árið á undan. Alls bárust rúmlega 8.200 tilkynningar. Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 14,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 8,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 30,7%. 

Vilja koma í veg fyrir áhættuhegðun

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, bendir á að það geti verið mjög skiljanleg öryggisþörf þegar foreldrar gera kröfu um lokuð rými fyrir börn sín. Það er að foreldrar vilji koma í veg fyrir áhættuhegðun barna sinna og þá óvissu og vanlíðan sem fylgir því að vita af þeim í neyslu eða bakslögum í meðferð.

„En í rauninni eru lokuð úrræði til langs tíma ekki öruggari. Þau eru í besta falli skammgóður vermir og ekki einu sinni það því börn geta verið í neyslu í lokuðum úrræðum alveg eins og fólk getur verið í neyslu í fangelsum. Það sem við erum alltaf að miða við er að það þarf að halda mjög þétt utan um þjónustu við þessi börn. Ekki endilega lokað úrræði en mjög þétt faðmlag. Þessi tegund af þjónustu sem við höfum reynt að byggja upp, stigskipt þjónusta, felur í sér að þú sért með réttan styrkleika af inngripum hverju sinni. Inngrip í takt við þjónustuþörfina og það gerir mikla kröfu til samvinnu allra sem koma að barninu. Barnaverndar, meðferðarúrræðanna og síðast en ekki síst — til foreldranna. Samvinnan þarf meðal annars að felast í því að fylgjast vel með og hafa eftirlit með barninu,“ segir Halldór og bendir á að þegar barnið er inni á meðferðarheimili er það auðvitað fyrst og fremst meðferðarheimilisins en líka foreldranna og barnaverndar að hafa eftirlit með barninu og koma auga á hvað það er að gera og með hverjum það er.

Meðferð á ekki að hefjast og ljúka með vistun á stofnun

Stuðlar skiptast í tvær deildir; meðferðardeild og lokaða deild (almennt …
Stuðlar skiptast í tvær deildir; meðferðardeild og lokaða deild (almennt kölluð neyðarvistun). Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12 – 18 ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Meðferð barns með vímuefnavanda má ekki hefjast og ljúka með vistun á stofnun. Það er ekki viðurkennd aðferð heldur þarf meðferðin að taka til allra þátta í lífi barnsins. Klínískar leiðbeiningar víðs vegar í heiminum leggja megináherslu á þetta. Ekki einblína bara á vímuefnavandann, sem getur þó verið eitt brýnasta viðfangsefnið hér og nú, heldur taka heildstætt á málinu og horfa til áhættu- og verndandi þátta sem skipta máli í þroska og velferð barna og unglinga. Sérstaklega hjá þeim hópi barna sem glímir við langvarnandi erfiðleika á ýmsum sviðum, oft vanrækslu eða áföll. Hvort sem sá vandi er nýtilkominn í tengslum við vímuefnaneyslu eða á sér lengri sögu.

Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að hanna þjónustukerfi sem veitir þennan möguleika. Þegar barn hefur lokið vistun á meðferðarstað getur meðferðin haldið áfram í tengslum við heimili fjölskyldunnar, sem eftirmeðferð eða MST-meðferð og öðrum viðeigandi stuðningi í nærumhverfi, við heimilið, í skólanum eða á vinnumarkaði o.s.frv.,“ segir Halldór.

MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12 — 18 ára og fer fram á heimili barnsins. Ef barn getur af einhverjum ástæðum ekki búið heima hjá sér eftir að hafa lokið meðferð getur barnaverndarnefnd ráðstafað börnum í fóstur eða á vistheimili ef þörf er fyrir svo umfangsmikinn stuðning. 

Mætti oftar úrskurða börn í meðferð

„Þess vegna mun Barnaverndarstofa á næstunni opna stuðningsheimili (vistheimili) fyrir börn sem hafa lokið mörgum meðferðum vegna alvarlegs vímuefnavanda, jafnvel á mismunandi meðferðarstöðum og oft með ágætum árangri, en geta ekki yfirfært árangur á heimili foreldra sinna og glíma við ítrekuð bakslög. Þarna getur reynt á að foreldrar og barnaverndaryfirvöld taki fram fyrir hendur á börnum og úrskurði þau í meðferð. Getur verið erfitt en er mikilvægt. Ef kallað er á lokuð úrræði er kannski vert að velta fyrir sér hvað er verið að kalla á. Það er verið að kalla á öryggi. Ekki endilega innilokun. Mikilvægur öryggisventill í barnaverndarkerfinu er að geta tekið fram fyrir hendurnar á börnum og jafnvel foreldrum ef þörf krefur með úrskurði barnaverndarnefndar en verkefni meðferðarinnar er síðan að vinna með viljann til breytinga. Þessi vilji getur verið sveiflóttur en það er mjög mikilvægt að vinna með hann. Að úrskurða börn er mjög sjaldan gert og undarlega sjaldan gert,“ segir Halldór en það er í höndum barnaverndarnefnda að óska eftir því að barn sé vistað utan heimilis. Samkvæmt lögum þarf barnaverndarnefnd að fá samþykki forráðamanna fyrir vistun sem og barnsins ef það er orðið 15 ára. 

Í hvaða aðstæðum eru börnin í dag?

Funi tekur undir með Halldóri og Heiðu að barnaverndarnefndir mættu úrskurða barn oftar í meðferð og tekur fram að um stóra ákvörðun sé að ræða sem ekki á að gera nema að vel athuguðu máli. 

Heiða segir að hafa verði í huga þær aðstæður sem sum þessara barna alast upp við. Í hvaða aðstæðum eru þau í dag og af hverju gengur svona illa eftir að meðferð lýkur? Í hvaða aðstæður eru þau að fara?

„Því auðvitað er það alltaf þannig að það eru foreldrarnir sem verða að grípa börnin þegar þau koma til baka af meðferðarheimilum. Að halda áfram að vinna vinnuna sem hófst á meðferðarheimilinu. Þegar þau eru í heimfararleyfi þurfa foreldrarnir að grípa börnin og hvað gerum við þegar fjölskyldur ráða ekki við verkefnið og hafa kannski aldrei ráðið við uppeldishlutverkið?“ spyr Heiða. 

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur gerði málefni barna að umfjöllunarefni í …
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur gerði málefni barna að umfjöllunarefni í nýársávarpi sínu. AFP

Grípa þarf fyrr inn 

„Grípa þarf fyrr inn þegar eitthvað kemur upp varðandi þjónustu barns,“ segir hún og vísar í orð forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, í því samhengi en Frederiksen gerði málefni barna og velferð þeirra að umræðuefni í nýársávarpi sínu.

Mette Frederiksen hefur ítrekað sagt að hún sé forsætisráðherra barna og svipað var uppi á teningnum í nýársávarpi hennar. Þar sagði hún að börn sem búa við erfiðar aðstæður ættu í auknu mæli að fara í fóstur og vera ættleidd. „Ég hef tekið ákvörðun. Ég mun alltaf standa með börnunum,“ sagði Frederiksen. 

Hún segir danskt samfélag bera sérstaka ábyrgð þegar kemur að börnum sem glíma við mestan vanda. Börn sem hafa upplifað misnotkun, ofbeldi og vanrækslu. Í Danmörku geti fleiri þúsund börn ekki búið hjá foreldum sínum þar sem þeir eru ekki færir um að annast þau almennilega. 

Frederiksen segir að velferðarkerfið bregðist of seint við ef það á annað borð bregðist við. Allt of mikil áhersla sé á hag fullorðinna á kostnað barna. Það valdi því að í Danmörku séu börn sem alast upp við vanrækslu og ofbeldi. „Við getum ekki varið það og eigum ekki að verja það,“ sagði Frederiksen í ávarpinu á nýársdag.

Að hennar sögn þarf að bæta stöðu barna sem eru send í fóstur og gera hana stöðugri og eins að börn séu ættleidd fyrr en nú er gert. Þannig að þau geti byrjað upp á nýtt og eignast gott líf. 

Heiða segist taka undir þetta með Frederiksen sem talaði um að allt of algengt væri að þau færu í fóstur 12 ára eftir að hafa alist upp við ömurlegar aðstæður í 11 ár. „Þegar aðstæður eru þannig enda þau oft hjá okkur,“ segir Heiða.

„Við vitum líka að mörg þeirra sem eru hjá okkur hafa búið við skort á eftirliti og viðbrögðum foreldra, búið við erfiðar heimilisaðstæður og eru komin í neyslu, kannski til að deyfa sig því þau hafa lent í alls konar áföllum. Áföllin eru miklu algengari á heimilum þar sem ofbeldi er, hvort sem það er kynferðislegt, líkamlegt eða andlegt. Eins börn sem búa við vanrækslu,“ segir Heiða.

Fleiri þúsund börn geta ekki búið hjá foreldum sínum í …
Fleiri þúsund börn geta ekki búið hjá foreldum sínum í Danmörku þar sem þeir eru ekki færir um að annast þau almennilega. AFP

Fleiri umsóknir um fósturheimili

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 úr 91 beiðni í 121 miðað við sama tímabil árið á undan. Beiðnir um fósturheimili voru 137 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgaði mest og flestar beiðnir bárust frá Reykjavík eða 38,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019.

Heiða segir líkt og Halldór og Funi að vissulega geti foreldrar, sem ekki hafa vanrækt börnin sín, verið uppgefnir vegna vanda barns sem af einhverjum ástæðum tókst ekki að stemma stigu við á fyrri stigum áður en hann óx fólki yfir höfuð. Barnaverndarnefndir mættu oftar úrskurða börn í vistun utan heimilis, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma. „Við sjáum þetta meðal annars hjá börnum sem eru þau þyngstu í okkar kerfi. Það eru kannski komnar nokkrar umsóknir til okkar sem hafa verið samþykktar af hálfu Barnaverndarstofu um pláss en barnaverndin dregur síðan umsókn til baka þar sem barnið eða foreldrar eru ekki tilbúin til að samþykkja vistun og barnaverndarnefndin er ekki tilbúin í að úrskurða barnið í vistun á meðferðarheimili. Síðan sjáum við kannski sömu foreldra kvarta í fjölmiðlum. Foreldra sem ekki hafa viljað samþykkja vistun utan heimilis, það er á meðferðarheimili,“ segir Heiða. 

Að sögn Funa eru þetta í sumum tilvikum foreldrar sem samþykkja vistun og allt sem henni fylgir en þegar kemur að framhaldinu, það er að barnið á að snúa aftur heim, afþakka þeir frekar aðstoð. Hann tekur þó fram að þetta eigi eingöngu við um fáa einstaklinga. En vistun á meðferðarheimili er bara hluti af meðferðinni, svo tekur við sex mánaða tímabil sem er eftirfylgd og foreldrarnir hafna stundum þeim þætti. Því þá fer að reyna á þá og þeirra aðkomu. „Við erum með nokkur nýleg dæmi um þetta sem gerir það að verkum að þessi börn eru að koma aftur í vistun innan örfárra mánaða. Því foreldrarnir afþakka eftirmeðferðina og stuðninginn sem á að taka við,“ segir Funi. 

Ef yngri systkini eru á heimili er það oft þannig að foreldrar treysta sér ekki til að fá barnið inn á heimilið?

„Það er annað mál og eitthvað sem er hægt að vinna með í meðferð og stuðningi við heimilið. Ef það gengur ekki getur verið ákvörðun að vinna barn af meðferðarheimili inn á fósturheimili eða vistheimili á vegum sveitarfélaganna,“ segir Funi og nefnir Hamarskot sem dæmi um úrræði sem geti hentað í slíkum tilvikum. 

Hamarskot er vistheimili á vegum Reykjavíkurborgar, ætlað unglingum frá 16 ára aldri sem hafa lokið grunnskóla, hafa lokið meðferð á vegum Barnaverndarstofu og eiga ekki afturkvæmt á heimili sitt og barnaverndarnefnd þarf að ráðstafa samkvæmt barnaverndarlögum. 

Á vistheimilum læra krakkarnir að vera eðlilegir þátttakendur í lífinu.
Á vistheimilum læra krakkarnir að vera eðlilegir þátttakendur í lífinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilji er fyrir því að Barnaverndarstofa reki vistheimili sem tilraunaverkefni og sveitarfélögin borgi hluta af því. Heiða segist vonast til þess að hægt verði að koma slíku heimili á laggirnar á höfuðborgarsvæðinu sem fyrst en opna átti slíkt heimili í Norðlingaholti á sínum tíma. Hætt var við það vegna mikillar andstöðu nágranna.

Um var að ræða sér­hæft bú­setu­úr­ræði í fram­haldi af vist­un á meðferðar­heim­ili þar sem áhersla yrði lögð á eft­ir­meðferð og stuðning við aðlög­un í sam­fé­lag­inu.

Íbúar í ná­grenni húss sem hýsa átti heim­ili fyr­ir ung­menni í vanda kröfðust þess að sett yrði lög­bann á starf­sem­ina áður en nokk­urt barn náði að flytja inn seint á árinu 2018. Sýslumaður samþykkti kröf­una skömmu áður en til stóð að börn flyttu þangað inn. Heim­ilið átti að vera fyr­ir tvö til þrjú ung­menni sem hafa verið í neyslu og þurfa hæga aðlög­un út í sam­fé­lagið að lok­inni meðferð. Um­rætt heim­ili verður ekki lokað enda meg­in­til­gang­ur­inn að aðlaga börn­in sam­fé­lag­inu eft­ir að dvöl á meðferðar­heim­ili lýk­ur. Börn­in verða þannig í skóla eða vinnu, sinna frí­stund­a­starfi o.s.frv.

„Á vistheimilum læra þau að verða eðlilegir þátttakendur í lífinu og það er ekki þannig að starfsfólkið geri alla hluti fyrir þau heldur læra þau til að mynda að kaupa inn, elda og þrífa bæði sig sjálf og í kringum sig og vakna á morgnana líkt og þau gera á meðferðarheimilunum. Við erum vongóð um að þetta verði að veruleika og erum spennt að sjá árangurinn af slíku heimili,“ segir Heiða.

Funi segir að það sé ekkert skilyrði að einungis foreldrar séu þátttakendur í eftirmeðferð en það verði að vera vitað frá upphafi, það er allt frá því að ákvörðun er tekin um meðferð viðkomandi unglings. „Því þá vinnum við allt frá upphafi með þeim aðilum sem eiga að vinna áfram með barninu. Auðvitað geta foreldrar verið hluti af því samstarfi þrátt fyrir að barnið fari í fóstur eftir að það lýkur vistun hjá okkur á Stuðlum. 

Þurfa foreldrar ekki að skrifa undir samkomulag um eftirmeðferð?

„Jú en þeir geta alltaf dregið samkomulagið til baka. Við þurfum kannski að ganga lengra í að upplýsa fólk um ábyrgð þess þegar meðferð er rædd. Þetta er kynnt fyrir foreldrum og börnum áður en sótt er um. Fólk skrifar undir en þegar á reynir er samstarfsviljinn ekki alltaf fyrir hendi,“ segir Funi.

Mikilvægt að foreldrar fái stuðning

Heiða segir mikilvægt að foreldrar fái stuðning í uppeldishlutverkinu svo barn geti búið heima. Þess vegna hafi til dæmis MST-meðferðin verið innleidd hér á landi fyrir um áratug. Nú standi til að Barnaverndarstofa innleiði til viðbótar sérstaka og lengri útgáfu af MST-meðferðinni fyrir foreldra og yngri börn sem búa við ofbeldi eða vanrækslu sem rekja megi til þátta og aðstæðna sem viðeigandi meðferð getur bætt svo börnin geti búið hjá foreldrum sínum. Engu að síður virðist vera ákveðin feimni við að ræða það beint út við foreldra af hálfu barnaverndarnefnda að barn sem hefur þurft að vista utan heimilis sé kannski ekki að koma heim aftur. Að það sé fullreynt að barnið eigi heimili þar sem foreldrarnir búa.

„Auðvitað hætta foreldrarnir ekki að vera foreldrar barnanna enda börnin orðin stálpuð og munu alltaf vera í sambandi við foreldra sína ef þau vilja, en segja: Nú held ég að það sé fullreynt að þú ráðir við þetta verkefni. Ég upplifi það sem feimni og verið sé að setja foreldra í eitthvert hlutverk sem þeir ráða ekki við og munu aldrei ráða við. Engum greiði gerður, hvorki foreldrum né barni og oft sé hægt að sjá þetta strax í upphafi skólagöngu. Að sjá hver leið barnsins verður,“ segir Heiða.

Mikilvægt að úrræðin séu á sömu hendi

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndastofu, segir mikilvægt að foreldrar fái …
Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndastofu, segir mikilvægt að foreldrar fái stuðning í uppeldishlutverkinu svo barn geti búið heima. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt af því sem þau tala um er mikilvægi þess að hafa öll úrræði á sömu hendi en það er ekki þannig í dag heldur skiptast þau á milli ríkis og sveitarfélaga.

„Þetta er ein hindrunin í að þjónustan sé stigskipt og samfelld eins og best verður á kosið. Auðvitað er hægt að gera þetta eins og það er í dag en erfiðara að samhæfa aðgerðir. Til að mynda er það svo að Barnaverndarstofa rekur meðferðarheimilin og barnaverndarnefndir vistheimilin. Eins og barnaverndarlögin eru núna höfum við ekkert um það að segja hvort nægilegt framboð sé af vistheimilum eða hvort börnum er ráðstafað þangað. Þannig verður of einhliða áhersla á sterkasta og um leið dýrasta úrræðið, þ.e. meðferðarheimilin. Ekki ósvipað vandamál og með hjúkrunarrýmin og yfirfullar deildir á Landspítalanum. Sum börn eru að koma endurtekið í meðferð sem getur verið eðlilegur hluti af stigskiptri meðferð. En stundum virðist meðferðarárangri ekki fylgt eftir að lokinni vistun og í öðrum tilvikum eru dæmi um að börn séu að dvelja of stutt í hvert skipti þar sem svo virðist sem reynt sé að semja um skemmri vistunartíma til að komast hjá því að fylgja þörf fyrir lengri vistun eftir með úrskurði þrátt fyrir að meðferðarþörf sé enn til staðar. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hlusta á vilja barna og ná samkomulagi við þau en stundum vita allir að þetta er ekki nægur tími á meðferðarheimili,“ segir Halldór.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, segir mikilvægt að …
Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, segir mikilvægt að hafa í huga að erlendar rannsóknir sýni að unglingar í vímuefnameðferð þurfi flestir fleiri og fjölbreyttari meðferðir en eina, og stigskipta þjónustu. mbl.is/Árni Sæberg

Heiða tekur undir þetta og segir að vistunartíminn verði að vera nægjanlega langur til að hægt sé að vinna í rót vandans. Það sé ekki gert á stuttum tíma.

Að sögn Halldórs var fjöldi úrræða Barnaverndarstofu meiri hér áður en þá voru þau hvort tveggja í senn – vistheimili og meðferðarúrræði. „Fyrir 15 til 20 árum var blöndunin inni á meðferðarheimilum of mikil ef miðað er við þá vitneskju sem við höfum í dag og samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum. Þar voru börn með mjög ólíkan og mismikinn vanda. Síðan þegar vitneskjan varð meiri um hættuna á neikvæðum félagslegum áhrifum breyttist þetta, bæði eftirspurnin og í kjölfarið þjónustuframboðið. Lögð var áhersla á að þjónusta börn heima hjá sér ef þess er nokkur kostur og að einungis þau sem eru í alvarlegasta vandanum séu vistuð utan heimilis“ segir Halldór.

Viðhorfsbreytingin var bæði hjá foreldrum og barnaverndarnefndum og það dró verulega úr vistunum á meðferðarheimilum. Þessar breytingar hafi verið hraðari en lagaumhverfið og í fyrstu hafi ekki allir sætt sig við þessar breytingar þrátt fyrir að þær hafi verið góðar og í takt við eðlilega þróun í heiminum. Að einblína ekki á innskrift inn á stofnanir heldur gera það þegar þess þarf en ljúka því um leið og hægt er og nota vægara og meira viðeigandi úrræði. Unnið er að endurskoðun á barnaverndarkerfinu í heild og stigskipt þjónusta við börn og unglinga er mikilvægur hluti af því, segir Halldór. 

Ýmis þeirra úrræða og verkefna sem eru í höndum Barnaverndarstofu eiga lögum samkvæmt heima hjá sveitarfélögunum svo sem MST-meðferð og Barnahús.

Heiða segir að það sé mjög brýnt og um leið spennandi verkefni að endurskoða þjónustukerfið við börn, þar á meðal barnaverndarkerfið. „Hvernig getum við brugðist hraðar við þegar við sjáum að börn eru ekki í góðum aðstæðum á heimili sínu? Eitt af því er að fækka barnaverndarnefndum en í dag eru þær 27 talsins. Eins hvaða aðilar eiga að úrskurða þvert á vilja barna og foreldra? Hvort sem það er í meðferð eða fóstur. Er eðlilegt að það sé í höndum barnaverndarnefnda sem eru pólitískt skipaðar? Þetta er fólk sem er í fullri vinnu annars staðar. Eða ættu þetta að vera sérfræðingar sem þekkja þessi mál út og inn? Þetta eru þyngstu ákvarðanir sem þú ert að taka um líf fólks og við erum í rauninni að ætla ófaglærðu fólki að gera það. Þrátt fyrir að þetta sé gott fólk þá er þetta ekki þeirra sérsvið,“ segir Heiða.

Hún bendir á að á sama tíma sé það í höndum barnaverndaryfirvalda á hverjum stað fyrir sig að ákveða hvers konar vistunarúrræði eigi við á sama tíma og úrræðunum fylgi mismikill kostnaður fyrir sveitarfélögin. 

Að sögn Heiðu þurfa sveitarfélögin ekki að greiða neitt þegar barn er vistað á meðferðarheimili. Mikilvægt sé að breyta því hvernig kostnaður vegna vistunar skiptist milli ríkis og sveitarfélaga og koma á sólarhringsgjöldum líkt og er í Noregi. „Það á ekki að skipta máli í hvers konar úrræði barn er vistað. Öll börn eiga að hafa aðgengi að viðeigandi þjónustu,“ segir hún en þetta og margt annað tengt þjónustu við börn er í endurskoðun á vegum félags- og barnamálaráðuneytisins.

Foreldrar og fleiri sem blaðamaður hefur rætt við um þennan málaflokk nefna Háholt og að ekkert hafi komið í staðinn fyrir það meðferðarheimili sem var rekið um árabil í Skagafirði. Háholti var lokað um mitt ár 2017 en þar var rými fyrir fjóra en seinustu fjögur til fimm árin sem heimilið starfaði hafði eftirspurnin dregist mjög saman og dvöldu þar að meðaltali tveir piltar hverju sinni. Starfsemin kostaði á milli 160 og 170 milljónir á ári og börnin of fá til að hægt væri að halda uppi eiginlegu meðferðarstarfi, að því er fram kom í fréttum þegar Háholti var lokað.

Halldór segir að þegar glímt sé við flókinn vanda sé tilhneigingin oft sú að einblína á eitthvað sem vanti. Fyrstu árin sem Stuðlar störfuðu var stöðugt verið að kvarta undan lokun meðferðarheimilisins Tinda á Kjalarnesi. Heimilinu var lokað árið 1995 eftir fimm ára starfsemi. Ástæðan var of dýr rekstur og léleg nýting. Fram kom í Morgunblaðinu á þeim tíma að í upphafi var gert ráð fyrir að þar dveldust að jafnaði 16— 18 ungmenni á aldrinum 12 — 18 ára. Þörfin á plássi hafi greinilega verið ofmetin því fyrstu árin hafi einungis um 6 — 7 ungmenni leitað meðferðar þar að jafnaði.

Erfitt að halda uppi faglegu starfi ef börnin eru of fá

„Það getur vel verið að eitthvað fari forgörðum þegar úrræði er lokað en við verðum alltaf að horfa á eftirspurnina, nýtinguna og kostnaðinn. Þannig var það með Háholt. Það hefur ekkert bent til þess í okkar meðferðarkerfi að það hafi komið niður á vistun barna að Háholti hafi verið lokað. Því það hafa alltaf á þessu tímabili, með einstaka undantekningum, verið laus pláss á meðferðarheimilunum okkar og í dag eru rými laus á meðferðarheimilunum,“ segir Halldór en auk Stuðla rekur Barnaverndarstofa tvö meðferðarheimili, Laugaland í Eyjafirði og Lækjarbakka á Rangárvöllum. Um er að ræða rými fyrir samtals 12 börn á aldrinum 13 – 18 ára.  

Funi Sigurðsson forstöðumaður Stuðla segir að það sé ekkert skilyrði …
Funi Sigurðsson forstöðumaður Stuðla segir að það sé ekkert skilyrði að einungis foreldrar séu þátttakendur í eftirmeðferð en það verði að vera vitað frá upphafi, það er allt frá því að ákvörðun er tekin um meðferð viðkomandi unglings. mbl.is/Árni Sæberg

Funi segir erfitt að halda uppi faglegu starfi á meðferðarheimili þar sem dvelja mjög fá börn og hann vilji taka ofan hattinn fyrir starfsfólkinu á Laugalandi sem geri það mjög vel, en þar hefur nýting ekki verið mjög mikil undanfarna mánuði. „En meðferðin verður allt öðruvísi. Hluti af meðferðinni er að vera í áreiti. Ekki endilega að það þurfi alltaf að vera fullt hús en það verður að reyna á þig. Þetta er bara eins og að búa með öðrum. Það reynir á alla og þú þarft að laga þig að þörfum annarra. Á meðferðarheimili hittir þú kannski einhvern sem kann enn minna en þú og þú verður að læra á að lífið er þannig. Stór hluti af þessu samspili er að vera með öðrum. Eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af börnum sínum og gallinn við okkar kerfi er að fjölbreytileikinn er ekki mjög mikill. Við erum að tala um pínulítinn hóp barna og við gerum okkar allra besta til að halda þeim í sundur ef nauðsynlegt þykir,“ segir Funi.

Ekki farið í ólöglegar kúgunaraðgerðir

Unnið er að breytingum á húsnæði neyðarvistunarinnar á Stuðlum þannig að verið er að fjórskipta deildinni. „Við komum samt ekki í veg fyrir einhver samskipti milli barna enda er þetta ekki einangrunarvist. Við viljum ekki einangra barn og ef við neyðumst til þess er það ekki gert nema í afar skamma stund. Þetta er íþyngjandi úrræði og sama á við um að stöðva barn líkamlega sem ætlar að skaða sig eða aðra. Eitthvað sem enginn vill þurfa að gera og eitt það erfiðasta sem við þurfum að gera. Þetta tekur alltaf á starfsfólk, viðkomandi barn, önnur börn og foreldra. Gerum þetta ekki nema við neyðumst til þess og þá undir eftirliti,“ segir Funi.

Foreldrar hafa talað um fíkniefnapróf á börnum í meðferð

Að sögn Funa eru teknar þvagprufur á Stuðlum og starfsfólk geri þá kröfu að pissa í glas fyrir framan starfsmann ef mjög ríkar ástæður séu til þess. Yfirleitt sé það þannig að ef þeim er tjáð að það þurfi að taka þvagprufu þá upplýsi þau um þau efni sem tekin hafa verið inn. En barn getur neitað og ef það neitar þá er það neitun sem gildir enda ekki farið í ólöglegar kúgunaraðgerðir. 

Þegar barn kemur á meðferðarheimili eða lokaða deild er gerð svokölluð handleit í þeim til­gangi að leggja hald á hættulega hluti eða fíkni­efn­i. Ekki er heimild til að gera svokallaða líkamsleit að fíkni­efn­um eða öðru sem gæti verið falið í líkamsopum eða inn­vort­is, t.d. eft­ir að hafa gleypt það. Líkamsleit yrði mjög íþyngjandi fyrir börn og jafngildir ákveðinni innrás í líkama þeirra. Lík­ams­leit skal ákveðin með úr­sk­urði dóm­ara nema fyr­ir liggi ótví­rætt samþykki þess sem í hlut á. Þó er lík­ams­leit heim­il án dóms­úrsk­urðar ef brýn hætta er á að bið eft­ir úr­sk­urði valdi sak­ar­spjöll­um, seg­ir á vef héraðssak­sókn­ara.

Fjórðungur þróar með sér fíkn

Alls ekki öll börn í neyslu þróa með sér fíkn.
Alls ekki öll börn í neyslu þróa með sér fíkn. mbl.is/Valgarður Gíslason

Funi segir sama eiga við um innilokun en alltaf sé hægt að vera vitur eftir á og við reynum að draga lærdóm af því sem ekki er nógu vel gert, segir hann. „Allt starfsfólk meðferðarheimila leggur sig fram við að gera rétt en við erum að fást við mannlega hegðun og hún er miklu flóknari en allt annað sem við getum ímyndað okkur. Það er ekki til nein forskrift þó svo við vildum óska þess stundum. Það sem er svo sorglegt er að við vitum að það eru einstaklingar meðal okkar skjólstæðinga sem deyja allt of snemma. Við sitjum eftir og veltum fyrir okkur gátum við gert betur? Stundum velti ég því fyrir mér hvort við séum að slást við vindmyllur en á sama tíma eigum við fullt af sögum sem enda vel og ylja manni. Við fáum heimsóknir frá fyrrverandi skjólstæðingum okkar og foreldrum. Þetta heldur okkur gangandi og minnir okkur á hvers vegna við erum að þessu,“ segir Funi.

Mér sárnar hvað umræðan um dauða vegna fíknar er fljót að snúast upp í það hver klikkaði. Að það hljóti alltaf einhver að hafa gert mistök eða klikkað því við sjáum reglulega að fólk deyr úr öðrum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum eða krabbameini, jafnvel börn og það er enginn ásakaður um að hafa klikkað. Mér finnst að við þurfum að þroska umræðuna um fíkn á þann veg að þetta er sjúkdómur sem við höfum ekki endilega svörin við. Við getum bjargað mjög mörgum en ekki öllum. Það er ekki samnefnari milli þess að kerfið hafi brugðist og að einhver deyr,“ segir Heiða. 

„Sem betur fer er það ekki stærri hópur en fjórðungur af þeim börnum sem fer í neyslu sem þróar með sér fíkn. En við vitum að hluti þeirra gerir það fyrir 18 ára aldur. Fíknisjúkdómurinn er með ömurlegri sjúkdómum sem hægt er að þróa með sér og sumir sigrast ekki á þeim sjúkdómi heldur sigrar sjúkdómurinn þá. Það er hrikalega vont að vita til þess og þess vegna þurfum við að bregðast fyrr við því við vitum að ef börnin eru komin á þennan stað þá eru þau í lífshættu. Þetta gerum við með því að horfa á hvað gerðist áður en þau fara í neyslu og leggja áherslu á forvarnir.“

Halldór segir mikilvægt að hafa í huga að erlendar rannsóknir sýni að unglingar í vímuefnameðferð þurfi flestir fleiri og fjölbreyttari meðferðir en eina og stigskipta þjónustu. Bakslög séu því miður regla fremur en undantekning og að alþjóðlegar rannsóknir sýni að stór hluti unglinga sem hafa lokið vímuefnameðferð noti áfram vímuefni. Jafnvel í lokuðum úrræðum verða bakslög. Hlutfallið er 70 — 80% á 2 — 3 árum eftir útskrift úr lokuðum úrræðum í Svíþjóð og Danmörku þar sem slík úrræði eru, ólíkt Íslandi og Noregi.

Að sögn Halldórs geta vistanir unglinga í lokuðum úrræðum til langs tíma haft víðtækari afleiðingar en bakslög. Við slíkar aðstæður getur orðið til stöðugleiki og öryggi og barninu getur með tímanum fundist þægilegra að vera þar og óþægilegt að fara út á meðal fólks og heim. Það treystir sér ekki til þess að takast á við erfiðar tilfinningar, krefjandi aðstæður og áreiti í umhverfinu. Stöðugleikinn í lokuðu úrræði geti því byggst á því að „slökkva“ á erfiðum tilfinningum. Í þessum tilvikum geta bakslögin orðið enn alvarlegri en annars væri og yfirfærsla árangurs eftir að vistun lýkur verður minni. Þetta kemur til dæmis fram í rannsókn sænskrar fræðikonu sem tók viðtöl við bæði börn og starfsfólk í lokuðum langtímaúrræðum í Svíþjóð. Með þessu sé ekki útilokað að einhver árangur geti náðst en líklegt að verið sé að fresta vandanum og í versta falli sé verið að valda skaða með innilokuninni. Hugsanlega ertu að valda meiri skaða því þú ert að búa til falskt öryggi. Býrð til stöðugleika sem byggir á því að þú slekkur á þér sem er ekki hollt fyrir neinn,“ segir Halldór. 

Hann segir líklega best, miðað við núverandi vitneskju, að börn dvelji við verndaðar aðstæður inni á meðferðarheimilinu og að reyna aðlögun smám saman að nærumhverfi í takti við aukinn stöðugleika og að takast þannig á við bakslögin jafnóðum. Að undirbúa öll skref í aðlögun eins vel og kostur er til að reyna að koma í veg fyrir bakslög eða lágmarka þau og læra af síðasta bakslagi. Þessu miði öll vinnan á meðferðarheimilum að – hvernig getum við aukið öryggi, vilja og getu til breytinga og unnið úr bakslögum?

Þeir Funi segja að stöðugt sé tekist á við bakslög í meðferðarstarfinu. Hvaða áreiti í umhverfinu og félagslegu aðstæður verða kveikjan að bakslaginu? Hvaða hugsanir og tilfinningar verða til þess að þú ferð aftur í neyslu? „Þarna liggja okkar helstu áherslur í dag, að auka og viðhalda öryggi en jafnframt að takast á við bakslög. Bakslög þýða ekki endilega að það sé verið að gera mistök. Alltaf er reynt að byggja upp stöðugleika í kjölfar bakslaga,“ segir Halldór og Funi bætir því við að verið sé að ráða tvo starfsmenn í hálfu starfi á Stuðla sem ætlað er að sinna börnum sem eru í heimferðarleyfi. Vera í sambandi við þau og hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra að takast á við aðstæður utan Stuðla og þannig undirbúa þau undir eftirmeðferðina sem hefst þegar vistun lýkur. 

Barnaverndarstofa rekur þrjú meðferðarheimili, Laugaland, Lækjarbakka og Stuðla.
Barnaverndarstofa rekur þrjú meðferðarheimili, Laugaland, Lækjarbakka og Stuðla. mbl/Arnþór Birkisson

„Þegar barnið kemur út af meðferðarheimilinu er ekki allt orðið í lagi og eitt af því sem reynt er að efla inni á meðferðarheimilinu er fjölskylduhlutinn. Að vinna meira og þéttar með foreldrum. Þetta getur verið mjög krefjandi fyrir foreldrana. Ekki síst þar sem meðferðarheimilin eru kannski í öðrum landshluta en heimili foreldra. Unnið er að því að opna meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu og sú vinna er í fullum gangi. Búið er að ganga frá viljayfirlýsingu um lóð í Garðabæ og talað var um að hefja framkvæmdir á árinu 2020 og alls ekki útilokað að það takist,“ segir Heiða en verið er að endurbæta frumathugun og sú niðurstaða fer síðan í félags- og barnamálaráðuneytið og þaðan í fjármálaráðuneytið. Þegar ráðuneytin hafa lagt blessun sína yfir framkvæmdina og fjárhagsáætlunina er útboð næsta skref. 

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil árið á undan úr 129 umsóknum í 103. Umsóknir voru 107 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 og voru flestar þeirra um MST (fjölkerfameðferð). Flestar umsóknir um meðferð bárust frá Reykjavík eða 40,8%. Engu að síður hefur verið biðlisti eftir MST-meðferð, samfellt frá janúar 2018, og nær samfellt eftir meðferð á Stuðlum. Það virðast því vera skýrar vísbendingar um að foreldrar og barnaverndarstarfsmenn gera aukna kröfu um meðferð í nærumhverfi með aðgengi að fjölbreyttri sérfræðiþjónustu og þátttöku foreldra.

mbl.is