Stofnuð á afmælisdegi Bergs Snæs

Börnin okkar og úrræðin | 17. september 2018

Stofnuð á afmælisdegi Bergs Snæs

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, standa að stofnun samtaka um meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Stofnfundurinn er í kvöld á afmælisdegi Bergs Snæs, sonar Sigurþóru. Hann hefði orðið 22 ára í dag ef hann hefði lifað en hann framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall.

Stofnuð á afmælisdegi Bergs Snæs

Börnin okkar og úrræðin | 17. september 2018

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir.
Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir. mbl.is/Hari

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, standa að stofnun samtaka um meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Stofnfundurinn er í kvöld á afmælisdegi Bergs Snæs, sonar Sigurþóru. Hann hefði orðið 22 ára í dag ef hann hefði lifað en hann framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall.

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, standa að stofnun samtaka um meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Stofnfundurinn er í kvöld á afmælisdegi Bergs Snæs, sonar Sigurþóru. Hann hefði orðið 22 ára í dag ef hann hefði lifað en hann framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall.

Sigurþóra segir að fjölmargir séu í sömu sporum og hennar fjölskylda var í og úrræðaleysið sem blasir við fjölskyldum ungmenna sem eiga í vanda sé hræðilegt. „Við sjáum það á viðtölum við alla þessa foreldra að ráðaleysið er algjört. Við finnum að stjórnvöld vilja gera eitthvað en við erum á sama tíma ekki að upplifa aðgerðir.

Ef maður skoðar samfélagsmiðla þá blasir þetta alls staðar við. Nú er nóg komið, unga fólkið okkar og alls konar hópar í gangi þar sem umræðuefnið er svipað – hvað getum við gert,“ segja þær Sigurþóra og Sigrún.

Viðtalið við þær var birt á mbl.is í gærkvöldi.

Hvernig varð Kvennaathvarfið til kom upp í huga Sigurþóru þegar hún var sem oftar að hugsa um hvað væri til ráða.

„Það sem við erum að reyna að gera er að koma verkefninu af stað og saman geti stærri hópur haldið verkefninu áfram, að stofna meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Við fjölskyldan stofnuðum sjóð í minningu Bergs Snæs eftir að hann lést og mun sjóðurinn leggja samtökunum til stofnfé og vonandi koma fleiri samtök og einstaklingar að verkefninu sem og stjórnvöld.

Stofnfundur Samtaka um kvennaathvarf var haldinn 2. júní 1982. Þar var ákveðið að opna athvarf fyrir konur sem ekki gætu búið heima hjá sér vegna ofbeldis og 6. desember sama ár var Kvennaathvarfið opnað. Samtök um kvennaathvarf voru í upphafi grasrótarsamtök líkt og við erum að tala um varðandi þessi samtök. Það tók Kvennaathvarfið sex mánuði og vonandi verðum við komin með einhverja starfsemi í gang eftir álíka langan tíma, það er í vor.”

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir koma að stofnun samtaka um …
Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir koma að stofnun samtaka um meðferðarúrræði fyrir ungt fólk. mbl.is/Hari

Að sögn Sigurþóru og Sigrúnar er hugmyndin að koma á laggirnar úrræði fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára.

Sigrún segir að þær sjái fyrir sér meðferðarsetur þar sem ungt fólk geti komið og fengið ráðgjöf, ekki ósvipað því sem Virk og starfsendurhæfingar víða um land bjóða upp á og eins verði hægt að leggjast inn fyrir þá sem þess þurfa. „Með stofnun samtakanna vonumst við til þess að hægt verði að safna saman þekkingunni á þessum málaflokki og fara í þá vinnu sem þarf til þess að þetta verði að veruleika.“

Sigurþóra segir að ætlunin sé að halda ráðstefnu um þennan málaflokk í nóvember og eins að kynna sér hvaða úrræði hafi gefist best annars staðar.

„En draumurinn er að setja upp kynskiptar innlagnardeildir auk göngu- eða dagdeilda þar sem hægt er að koma yfir daginn eða hluta úr degi og vera heima um nætur. Nálgunin er einsaklings- og áfallamiðuð, þar sem unnið er heildrænt og þverfaglega með einstaklingnum.  Göngu- eða dagdeildarúrræði er fyrir þá sem þurfa minni stuðning. Þetta gæti bæði verið línulegt, það er að upphafið sé innlögn á meðferðardeild, síðan taki dagdeild við og að lokum göngudeild á meðan ungmennið fikrar sig út í lífið að nýju. Líka verði boðið upp á að nýta sér aðeins hluta starfseminnar svo sem göngudeildina. Að öllum líkindum yrði að stigskipta verkefninu, byrja á göngudeild og svo koll af kolli.“

Sigrún segir að hugmyndin sé sú að horfa til þessa hóps sem ekki hefur fundið úrræði sem virka fyrir hann í dag, hvort sem fólk glímir við fíkn, geðrænan vanda, áföll eða eitthvað slíkt. Greining er ekki skilyrði fyrir því að fá stuðning og aðstoð. „Við erum að horfa til þess hóps sem ekki er með nein úrræði. Í raun að búa til brú á milli barna og fullorðinna án þess að það sé sett skilyrði um að viðkomandi hætti allri neyslu. Þetta er ekki sett til höfuðs einum eða neinum af þeim úrræðum sem eru þegar í boði á Íslandi heldur ný nálgun, má einnig segja nokkurs konar regnhlífarsamtök yfir það sem til er og grípa þá sem detta á milli kerfa,“ segir Sigrún.

Stofnfundur í Iðnó

Samtökin verða eins og áður sagði stofnuð í kvöld í Iðnó og hefur fulltrúum stjórnvalda, fagfólki auk ýmissa hagsmunahópa, verið boðið að taka þátt í stofnun samtakanna og eru allir áhugasamir velkomnir.

„Útgangspunktur okkar er tvíþátta greiningarmódel í meðferðarstarfi fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára. Hugmyndin er að vinna út frá valdeflingu og endurhæfingu og að koma ungu fólki í þessari stöðu til heilsu og virkni. Að öll meðferð miði við einstaklinginn en ekki greiningarnar. Við viljum nota bestu gagnreyndu aðferðirnar í meðferðarstarfi og flétta inn í daglegt starf listir og íþróttir og lífsleikni í breiðasta skilningi. Finna eldinn innra með unga fólkinu okkar og virkja þau til heilsu og virkni. Það liggja mikil verðmæti í þessum hóp sem ég held að við getum virkjað til hagsbóta fyrir unga fólkið okkar og ekki síður samfélagið í heild,” skrifaði Sigurþóra í aðsendri grein á Vísi fyrir nokkrum dögum.

Sigrún segir mikilvægt að koma á laggirnar úrræði þar sem ungt fólk getur fengið meðferð hjá fagfólki hvort sem það er til þess að vinna í áfallasögu viðkomandi ungmennis eða einfaldlega að aðstoða það við að vakna á morgnana og sinna daglegri rútínu sem er kannski löngu horfin úr þeirra lífi. Mikilvægt sé að slík starfsemi sé nálægt höfuðborgarsvæðinu svo hægt sé að nýta þá sérfræðiþekkingu sem þar er og það er minni kostnaður ef aðkeypt þjónusta er ekki langt frá. „Einnig er mikilvægt að vera þó aðeins fyrir utan miðbæinn til þess að hafa gott aðgengi að náttúrunni til þess að stunda útivist og fleira sem á að vera eðlilegur hluti af lífinu og höfum við áhuga á að vera með náttúrutengda endurhæfingu.“

Ekki verði um þvingað meðferðarúrræði að ræða heldur þurfi ungmenni að vera reiðubúin til þess að gera breytingar á sínu lífi og þiggja hjálp. Einnig er mikilvægt að þjónustan verði opin allan sólarhringinn þannig að ungmenni geti haft samband þegar þörfin fyrir hjálp kemur, hvort sem er að degi eða nóttu.

„Það virðist vera einhver vanmáttur þegar kemur að ungu fólk sem á erfitt, er að deyfa sig með neyslu eða öðrum sjálfsskaða og eiga við áföll, kvíða eða annan geðvanda. Ungt fólk sem dettur út úr framhaldsskólum, missir vinnugetu og/​eða flakkar á milli vinna og nær ekki tökum á lífinu. Nær allir sem ég hitti frá degi til dags eiga barn, frænku eða frænda, barnabarn, bróður, systur, barn vina eða einhverja nálægt sér sem þau hafa áhyggjur af og gengur ekki nógu vel að fóta sig í lífinu sem ungar manneskjur. Tölur um vanlíðan ungs fólks, sjálfsvígshugsanir/​tilraunir, brottfall úr skólum og aukning í örorku hjá þessum hóp ríma við þessar sögur.

Það að við náum ekki utan um þessi mál snýst ekki um að það vanti fagfólk eða þekkingu á Íslandi. Við eigum svo mikið af ótrúlega færu og flottu fólki menntuðu í geðheilbrigði, fíkn, áfallavinnu, endurhæfingu, kennslu og öllu hinu. Við þurfum bara að búa til vettvang þar sem við söfnum þessari þekkingu saman og búum til meðferðarúrræði miðað við það sem best gerist.

Þetta er það sem við viljum gera. Virkja allt þetta fólk sem hefur brennandi áhuga á þessum málum og setja á stofn samtök með það að markmiði að koma af stað meðferðarsetri fyrir ungt fólk á Íslandi. Nú þegar er kominn öflugur hópur fólks sem vill fara af stað í verkefnið, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingur, annað fagfólk, kennarar, háskólafólk og foreldrar og aðstandendur eins og ég,” segir Sigurþóra í greininni þar sem hún kynnti hugmyndina að baki stofnun samtakanna.

mbl.is