Fékk milljón nei áður en boltinn fór að rúlla

Áhugavert fólk | 4. júní 2022

Fékk milljón nei áður en boltinn fór að rúlla

Kári Sverriss ljósmyndari vildi verða eins og mamma hans og pabbi þegar hann var lítill strákur. Þau voru áberandi í íslenska tískuheiminum um tíma og lifðu hátt. Áður en hann kom út úr skápnum eignaðist hann tvö börn og elti drauminn til Lundúna. Í dag vinnur hann með þekktum fyrirsætum og myndar fyrir stóru tískublöðin eins og Vogue og Elle. 

Fékk milljón nei áður en boltinn fór að rúlla

Áhugavert fólk | 4. júní 2022

Kári Sverriss ljósmyndari segir að það hafi erfitt að koma …
Kári Sverriss ljósmyndari segir að það hafi erfitt að koma sér á framfæri til að byrja með. Ljósmynd/Kári Sverriss

Kári Sverriss ljósmyndari vildi verða eins og mamma hans og pabbi þegar hann var lítill strákur. Þau voru áberandi í íslenska tískuheiminum um tíma og lifðu hátt. Áður en hann kom út úr skápnum eignaðist hann tvö börn og elti drauminn til Lundúna. Í dag vinnur hann með þekktum fyrirsætum og myndar fyrir stóru tískublöðin eins og Vogue og Elle. 

Kári Sverriss ljósmyndari vildi verða eins og mamma hans og pabbi þegar hann var lítill strákur. Þau voru áberandi í íslenska tískuheiminum um tíma og lifðu hátt. Áður en hann kom út úr skápnum eignaðist hann tvö börn og elti drauminn til Lundúna. Í dag vinnur hann með þekktum fyrirsætum og myndar fyrir stóru tískublöðin eins og Vogue og Elle. 

Kári bjó fyrstu fimm ár ævi sinnar á Álftanesi ásamt foreldrum sínum sem voru þekkt í skemmtanalífi borgarinnar. Þau ráku verslanirnar Blondie og Goldie og segir Kári að það hafi verið sláttur á þeim. Í þá daga héldu verslanir tískusýningar til þess að koma vörunum sínum á framfæri. Diskótímabilið var í hámæli og litla Kára fannst þessi veröld spennandi, jafnvel þótt hún hafi hrunið á augabragði þegar foreldrar hans urðu gjaldþrota þegar hann var sex ára.

„Það má segja að ég hafi verið alinn upp í vinnunni með mömmu og pabba. Þau voru áberandi á þessum tíma,“ segir Kári.

„Við fluttum úr fína húsinu okkar í litla íbúð við Hverfisgötu. Þar bjuggum við í nokkur ár en svo skildu mamma og pabbi þegar ég var tíu ára. Þá fluttum við bræðurnir með mömmu í Grafarvoginn þar sem ég fór í skóla,“ segir Kári.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss


Draumurinn var að reka verslanir

Hann segir að það hafi verið gott að alast upp í Grafarvoginum sem var nýtt hverfi á þeim tíma. Hann varð vinsæll og fann til sín. Úr grunnskóla lá leiðin í Borgarholtsskóla þar sem Kári fór á verslunarbraut. Hann fór í það nám til þess að undirbúa sig fyrir framtíðina því tískuheimurinn var sá heimur sem hann vildi tilheyra.

„Draumurinn var að reka verslanir þegar ég yrði stór og vinna í tískuheiminum. Mér fannst vera glamúr yfir þessu. En svo kláraði ég ekki Borgarholtsskóla því áður en ég varð stúdent var mér boðið fullt starf í versluninni 17 og fór að vinna þar,“ segir hann og fannst það miklu skemmtilegra en að vera í skólanum.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss

Leiddist út í óreglu

Skólagangan í Borgarholtsskóla gekk vel og hann kynntist nýjum og spennandi vinum sem voru eldri og lífsreyndari en hann. Þeir skemmtu sér mikið um helgar og kunnu að njóta lífsins til fulls. Kári játar að þótt það hafi verið fjör með þessum nýju vinum hafi hann sjálfur bara verið lítill týndur strákur sem vissi stundum ekki hvort hann væri að koma eða fara.

„Ég fór bara út í óreglu og fór að nota eiturlyf flestar helgar,“ segir Kári.

Ég spyr hann út í neysluna. Hvernig þetta hafi byrjað.

„Ég var 17 ára þegar ég prófaði efni í fyrsta skipti. Þetta var á balli sem var haldið á Ömmu Lú á gamlárskvöld. Staðurinn var fullur af ungu fólki og mikið fjör. Ég man ekki hvort þetta var kókaín eða spítt sem ég tók. Ég hafði lofað sjálfum mér þegar ég var yngri að ég myndi alltaf láta efni vera en þarna þetta kvöld prófaði ég það samt,“ segir Kári og heldur áfram:

„Það merkilega er að ég fann enga flugeldasýningu. Ég varð ekki eins fullur af þessum örvandi efnum og það var kannski það sem gerði það að verkum að ég hélt áfram að prufa þetta. Fyrst var þetta ein og ein helgi og svo varð þetta meira og meira. Svo hætti ég að drekka þegar ég var 20 ára. Ég varð hræddur. Ég vissi að ef ég myndi halda þessu áfram myndi eitthvað gerast. En svo byrjaði ég aftur að drekka,“ segir hann.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss

Kynntist stelpu og varð pabbi

Þegar Kári var 20 ára tók lífið U-beygju. Hann varð ástfanginn og eftir stutt kynni varð hún ólétt.

„Við vorum bestu vinir og erum enn þá. Við byrjuðum saman og hættum saman og svo hringdi hún í mig nokkru síðar og sagði mér að hún væri ólétt. Ég vildi æxla ábyrgð og við byrjum saman og vorum par í níu mánuði. Þá hættum við endanlega saman því við vorum ekki hamingjusamt par þótt við værum vinir,“ segir Kári.

Ljósmynd/Kári Sverriss

Skilgreinir sig ekki sem homma

Kári á tvö börn með tveimur konum. Síðustu ár hefur hann verið í ástarsambandi með manni en lesendur Smartlands fylgdust með þeim Ragnari Sigurðssyni þegar þeir gerðu upp íbúð saman. Þrátt fyrir að hann hafi búið með manni skilgreinir hann sig ekki sem homma.

„Ég skilgreini mig ekki sem homma. Ég verð ástfanginn af persónum. Þegar ég var yngri var eitthvað að bögga mig. Á unglingsárum prófaði ég nokkrum sinnum að vera með strákum. Svo kynntist ég seinni barnsmóður minni og við vorum saman í átta ár. Á meðan ég var með henni var ég ekkert að horfa á karlmenn. Ég var bara með henni,“ segir Kári en hann og barnsmóðir númer tvö eiga dóttur saman.

Undir lok sambandsins ertu samt farinn að spá meira í strákum, ekki satt?

„Jú,“ segir Kári og heldur áfram:

„Þetta var togstreita. Pabbi minn var gamaldags, amma mín og afi líka. Það var aldrei vesen á mömmu minni. Hún hafði fullan skilning á því að ég væri líka fyrir stráka. Það sem truflaði umhverfi mitt var líklega að þarna var ég búinn að eignast tvö börn og fólki fannst bara að ég ætti að standa mig. Ég fann líka fyrir ótta og hélt að það yrði sjokk ef fólk áttaði sig á því að ég væri fyrir karlmenn,“ segir hann.

Kári segir að tímarnir hafi breyst mikið og í dag sé fólk minna að spá í kynhneigð fólks. Hann var með mynd í kollinum af steríótýpu af homma og hún passaði ekki við lífið sem hann vildi lifa. Auk þess leið honum alltaf eins og hann væri að gera eitthvað sem hann mætti ekki gera þegar hann var með strákum.

„Málið er að ég held að hugmynd mín um að vera samkynhneigður á Íslandi hafi verið það sem var að trufla mig. Ég var bara með ákveðna steríótýpu í huganum af homma og ég vissi að það er ekki ég. Mig langaði ekki að breyta sjálfum mér til þess að vera einhver sem ég er ekki. Ég er fjölskyldumaður sem vill eiga notalegt hús uppi í sveit. Viðhorf mitt breytist mikið þegar ég fór að ferðast meira og dvelja meira erlendis. Þá sá ég hvernig stemningin er öðruvísi. Það eru til milljón tegundir af samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki. Það hjálpaði mér að átta mig betur á sjálfum mér,“ segir hann.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss

Guð blessi Ísland

Árið 2005 flutti Kári til Bretlands ásamt barnsmóður númer tvö. Þau fóru í nám og lífið gekk bara nokkuð vel. Tveimur árum seinna voru þau komin til Alicante á Spáni þar sem planið var að opna kaffihús. Þau voru búin að safna nægum peningum til þess að geta opnað kaffihúsið þegar Geir Haarde bað Guð að blessa Ísland og allt hrundi.

„Við hættum saman í lok 2009 en þá vorum við búin að eignast dóttur sem var eins árs. Við erum bæði miklir sígaunar og vorum full af ævintýraþrá. Við vorum metnaðarfull og langaði að gera einhverja spennandi hluti. Þetta gekk bara ekki alveg upp,“ segir hann og fór í framhaldinu aðvinna í sjálfum sér til að sjá hlutina í öðru ljósi.

„Nokkrum mánuðum eftir skilnaðinn við barnsmóður mína fór ég að vinna í meðvirkninni minni. Ég varð bara að taka til í hausnum á mér og hætta að vera alltaf að þóknast öllum. Eitt af því sem kom út úr þessari vinnu var að hætta að pæla í því hvað öðru fólki fyndist. Stuttu seinna fréttist það í fjölskyldunni minni að ég væri farinn að vera með strákum og þá var það allt í lagi því ég var kominn á annan stað með þetta,“ segir hann.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss

Sneri vörn í sókn

Kári keypti fyrstu myndavélina árið 2005 og var alltaf að taka myndir. Fljótlega eftir að hann byrjaði aftur að vinna í 17 fór hann að taka myndir fyrir fyrirtækið. Hann velti fyrir sér hvort hann ætti að fara í fatahönnun eða læra ljósmyndun.

„Það var samt einhver stoppari. Ég sá ekki fyrir mér að ég gæti unnið við þetta. Það sem þvældist líka fyrir mér er hvað þetta er lítill heimur hérna heima. Ég vissi samt að ef ég myndi fara út í nám myndi heimurinn minn stækka og ég myndi sjá hlutina í öðru ljósi. Úr varð að ég komst inn í London College of Fashion 2012. Ég þurfti að skila inn möppu til þess að komast inn í mastersnámið hjá þeim. Ég setti allt á fullt og bjó til möppu sem kom mér inn í skólann. Þetta var í raun ekki venjuleg mappa heldur tímarit en með því vildi ég sýna þeim hvað ég gæti gert og hver ég væri. Það voru miklar tilfinningar í myndunum en þannig vil ég líka hafa það,“ segir hann.

Hann upplifði mikla gleði þegar hann komst inn í skólann en hann var líka kvíðinn.

„Ég hafði ekki verið í skóla í mörg ár og vissi að þetta yrði erfitt. Ég upplifði kvíða, stress, spennu og allt það helsta. Oft var ég efins um að ég gæti þetta. Svo kom að því að ég útskrifaðist og skrifaði lokaritgerð upp á 80 blaðsíður um það hvort það væri hægt að nota tískuljósmyndun til þess að vekja athygli á viðkvæmum málefnum. Svarið mitt var já,“ segir hann.

Síðan þá hefur hann unnið fyrir Vogue og Elle og mörg vinsælustu tímarit heims. Hann hefur líka skotið auglýsingaherferðir fyrir Eucerin, MAC og Yamaha ásamt því að vinna með heimsfrægum fyrirsætum. Þessi verkefni duttu þó ekki af himnum ofan. Hann þurfti að hafa mikið fyrir því. Hjólin fóru ekki að snúast almennilega fyrr en hann gekk til liðs við umboðsskrifstofu í Þýskalandi og fór að vinna með auglýsingastofu sem kom honum inn í mörg áhugaverð verkefni.

„Fyrir fimm árum gekk ég á milli og fékk endalaus nei en svo á endanum fékk ég umboðsskrifstofu í Þýskalandi og þeir kynntu mig fyrir stórum fyrirtækjum. Þar hitti ég alls konar ritstjóra og þannig byrjaði þetta. Skref fyrir skref. Auðvitað byrjaði ég ekki á bestu tímaritunum en svo þróaðist þetta og varð betra. Á sama tíma varð ég efins um að ég væri að gera rétt,“ segir Kári.

Hvers vegna var það? Bankaði litli strákurinn upp á?

„Já, örugglega. Það getur vel verið. Það er erfitt að vera að reyna að sanna sig og koma sér á framfæri og eiga enga peninga. Fólkið í kringum mig sagði mér að koma bara heim og gefast upp á þessu en ég var ekki tilbúinn til að gefa þetta upp á bátinn. En svo fór ég að fá betri verkefni. Það að mynda fyrir merki eins og Eucerin er eitt það stærsta sem þú getur fengið ef þú ert ljósmyndari. Í dag er ég búinn að skjóta sjö herferðir fyrir Eucerin og það hefur hjálpað mér mikið því það er mikill gæðastimpill.“

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss

Aldrei verið meira að gera

Aðspurður hvort ástandið í heiminum síðustu tvö ár hafi sett strik í reikninginn segir hann svo ekki vera.

„Síðasta ár var besta árið mitt síðan ég byrjaði að vinna sem ljósmyndari. Ég er búinn að taka tvær MAC herferðir og svo hef ég líka myndað fyrir fyrirtæki hérna heima eins og Kringluna og Bláa lónið. Ég er með umboðsskrifstofu í New York og er nýlega búinn að skrifa undir samning við íslenska umboðsskrifstofu sem heitir Móðurskipið. Þótt ég hafi fengið hvert risaverkefnið á fætur öðru þá ætla ég að fara lengra,“ segir Kári og segir að þótt það gangi vel hjá honum þá eigi hann sína drauma.

„Draumurinn er að nota nota ljósmyndun til að vekja athygli á viðkvæmum málefnum. Draumurinn er líka að komast á þann stað að ég geti labbað inn á safn og opnað sýningu á tengslum við þetta. Ég vil geta hjálpað og hreyft við fólki og ég mun ekkert hætta fyrr en ég er búinn að ná því,“ segir Kári.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
mbl.is