Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart

Vextir á Íslandi | 22. júní 2022

Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart

„Vaxtahækkanir voru eitthvað sem við máttum gera ráð fyrir, það er mikið hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki að ná tökum á verðbólgunni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um stýrivaxtahækkanir þær sem peningastefnunefnd Seðlabanka kynnti í dag.

Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart

Vextir á Íslandi | 22. júní 2022

Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra. Kristinn Magnússon

„Vaxtahækkanir voru eitthvað sem við máttum gera ráð fyrir, það er mikið hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki að ná tökum á verðbólgunni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um stýrivaxtahækkanir þær sem peningastefnunefnd Seðlabanka kynnti í dag.

„Vaxtahækkanir voru eitthvað sem við máttum gera ráð fyrir, það er mikið hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki að ná tökum á verðbólgunni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um stýrivaxtahækkanir þær sem peningastefnunefnd Seðlabanka kynnti í dag.

Stýrivextir verða hækkaðir um heilt prósentustig, en hagfræðideild Landsbankans hafði spáð því að þeir yrðu hækkaðir um 0,75 prósent. 

„Því miður eru verðbólguvæntingar á markaði enn talsvert háar. Við höfum verið að auka aðhaldsstig ríkisfjármála.“

Tvíþætt óvissa

Bjarni segir helstu óvissuna framundan vera tvíþætta. Annarsvegar lýtur hún að því hvernig takist að hraða aðgerðaráætlun vegna framboðsskorts á húsnæðismarkaði.

„Þar eru mjög stór áform og við ætlum í samningsgerð við sveitarfélögin, um að fara í átak til að fjölga íbúðum. Ég hef miklar væntingar um að það gangi vel.“

Hinsvegar sé það annar „mjög stór óvissuþáttur“ að kjarasamningarnir verði lausir næsta haust. 

Heimili og fyrirtæki í sterkri stöðu

Bjarni bendir á að kaupmáttaraukningu megi sjá hjá öllum tekjutíundum, bæði fyrir árið 2020, sem hafi verið erfitt ár vegna heimsfaraldursins Covid-19, og sama birtist í tölum fyrir árið 2021. 

„Tölur úr síðustu álagningu opinberra gjalda sýna áframhaldandi kaupmáttaraukningu hjá öllum tekjutíundum 2021.“

Bjarni segir bæði fyrirtæki og heimili vera í sterkri stöðu almennt, til að takast á við þær þrengingar sem framundan eru vegna verðbólgunnar.

„Það gefur tilefni til að nálgast verkefnið af sannfæringu um að við komumst í gegnum þetta.“

Höfum búið í haginn

Ríkisstjórnin hefur þú þegar beint sérstökum aðgerðum til allra tekjulægstu hópanna, að sögn Bjarna.

Tekur hann sem dæmi hækkun bóta almannatrygginga, nýjan barnabótaauka og  átak út af húsnæðismarkaðnum.

„Skattar á síðastliðnum árum hafa þróast þannig að skattbyrði tekjulægsta fólksins hefur minnkað. Við höfum verið að búa í haginn fyrir þessa tíma og heilt yfir erum við með sterka stöðu.“

Næstminnsta verðbólgan í Evrópu

Sé verðbólgustaðan á Íslandi borin saman við önnur lönd innan Evrópu, er verðbólgan á Íslandi næstlægst, að sögn Bjarna. 

Áhrif stríðsins í Úkraínu smitist til landsins, líkt og til annarra landa, og þar finni matvælaframleiðslan einkum fyrir afleiddum verðhækkunum. 

„Við erum sjálfbærari um eigin orku en aðrar þjóðir. Þetta sýnir mikilvægi orkuskipta.“

Orkuskipti eru meðal annars, að mati Bjarna, efnahagslegt sjálfstæðismál fyrir Íslendinga. Því metur hann það mikilvægt að tefla fram metnaðarfullum áformum á því sviði. 

Innflutt verðbólga í bland við framboðsskort

„Við erum að upplifa blöndu af innfluttri verðbólgu og framboðsskorti á húsnæðismarkaði og erum að bregðast við í samræmi við það.“

Bjarni segir íslenskt samfélag hafa séð svartari stöðu en þessa sem nú er uppi. 

„Það er langt síðan við sáum jafn háa verðbólgu vestanhafs og í Evrópu og við sjáum núna.“ Það geti haft áhrif á viðskiptakjör og því sé ekki bjart framundan í alþjóðahagkerfinu.

„Það er engu að síður mikill þróttur í íslenska hagkerfinu um þessar mundir.“

mbl.is