Halldór tekur við sendingunni frá Ásgeiri

Vextir á Íslandi | 5. október 2022

Halldór tekur við sendingunni frá Ásgeiri

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að vaxtahækkun Seðlabankans í dag um 0,25 prósentustig hafi ekki komið á óvart í þrálátri verðbólgu. Hann horfi þó frekar í tón bankans í yfirlýsingu sinni og segir það bera vitni um að hægt verði áfram að ná niður verðbólgunni á næstunni. Hann segist einnig taka við boltasendingu Seðlabankastjóra sem beint var að aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórninni.

Halldór tekur við sendingunni frá Ásgeiri

Vextir á Íslandi | 5. október 2022

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að vaxtahækkun Seðlabankans í dag um 0,25 prósentustig hafi ekki komið á óvart í þrálátri verðbólgu. Hann horfi þó frekar í tón bankans í yfirlýsingu sinni og segir það bera vitni um að hægt verði áfram að ná niður verðbólgunni á næstunni. Hann segist einnig taka við boltasendingu Seðlabankastjóra sem beint var að aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórninni.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að vaxtahækkun Seðlabankans í dag um 0,25 prósentustig hafi ekki komið á óvart í þrálátri verðbólgu. Hann horfi þó frekar í tón bankans í yfirlýsingu sinni og segir það bera vitni um að hægt verði áfram að ná niður verðbólgunni á næstunni. Hann segist einnig taka við boltasendingu Seðlabankastjóra sem beint var að aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórninni.

Leggja meira upp úr tóni yfirlýsingarinnar

„Við leggjum meira út úr tóninum sem birtist í yfirlýsingu peningastefnunefndar og ég tel að hann beri vitni um að Seðlabankinn hafi trú á því að hægt sé að ná niður verðbólgunni. En það er greinilegt út frá þeim orðum að boltinn er hjá vinnumarkaðinum og ríkinu og við tökum við þeirri sendingu og skiljum þann ábyrgðarhluta sem hvílir á aðilum vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga,“ segir Halldór spurður um viðbrögð við vaxtahækkuninni og orð Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra.

Halldór segist kjósa að túlka orð Seðlabankans þannig að ef allir standi sína vakt þá sé hápunkti vaxtahækkunarferils og verðbólgunnar mögulega náð. Ef ekki muni bankinn ekki hika við að halda áfram í vaxtahækkunum.

Allir hljóta að finna til ábyrgðar

„Allir sem sitja við kjarasamningsborðið, sama hvað opinberum yfirlýsingum líður, hljóta að finna til ábyrgðar. Verðbólga er allt of há á Íslandi, rétt ríflega 9%,“ segir Halldór og segir stöðuna ekki bara eiga við hér á landi heldur um allan heim. „Staðan er tvísýn í öllum ríkjum hins vestræna heims. Verðbólga er orðin afskaplega þrálát og þess vegna sjáum við áþekk skilaboð óma sama hvort það er frá Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Svíþjóðar,“ segir hann og vísar til orða sænska seðlabankans sem varaði í morgun við áhrifum verðbólgu á kjaraviðræður og að hún gæti haft mikil langvarandi efnahagsleg áhrif.

En er raunhæft að viðsemjendur hans taki jafn jákvæðir við boltasendingu Seðlabankastjóra? Halldór segir að horfa þurfi á heildarsamhengið. „Við þurfum að spyrja okkur þeirra spurninga um hvað snúast kjarasamningar og í mitt svar er afdráttarlaust. Þeir snúast um að bæta lífskjör fólks.“ Vísar hann til víxlverkana launa og verðlags hér á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. „Það að fara í miklar launahækkanir í mikilli verðbólgu er óskynsamlegt, sér í lagi þar sem Seðlabankinn nýtur mikils trúverðugleika um þessar mundir og mun beita vaxtatækinu ef til þess kemur. Þá er betur heima setið en af stað farið.“

Hillir undir vaxtalækkun ef allir axla ábyrgð

Spurður hvort hann telji aðgerðir Seðlabankans hafa verið trúverðugar í gegnum verðbólgutíma segir Halldór svo vera. „Mér finnst Seðlabankinn hafa stigið fram með trúverðugum hætti í gegnum þetta vaxtarhækkunarferli. En ég tek eftir og hnýt um það að það er allt annar tónn núna. Ég kýs að túlka það þannig að ef allir aðilar axla sína ábyrgð þá þurfum við ekki að fara lengra í vaxtahækkunarferlinu og vonandi hillir undir vaxtalækkun á næstu misserum. Það væri raunveruleg kjarabót fyrir alla landsmenn.“

Vísar Halldór til þess að með lægri verðbólgu og líklegri vaxtalækkun í framtíðinni muni lífskjör landsmanna batna til lengri tíma og að það sé það sem þurfi sérstaklega að horfa til.

Staðan erlendis brothætt

Í yfirlýsingu sinni í morgun varaði Seðlabankinn við verri horfum erlendis og hjá helstu viðskiptalöndum Íslands. Spurður um þetta og hvort hann telji stöðuna erlendis geta komið fast í bakið á okkur segir Halldór að staðan erlendis sé brothætt og að hún muni hafa áhrif hingað. „Þetta mun fyrr en síðar hafa áhrif hér á landi og við þurfum að vera á varðbergi.“

mbl.is