Rússar buðu Waters að ávarpa ráðið

Rússland | 10. febrúar 2023

Rússar buðu Waters að ávarpa ráðið

„Innrás Rússa í Úkraínu var ólögleg. Hana fordæmi ég af öllum mætti. Hún var hins vegar ekki gerð án ögrunar og þá sem ögruðu fordæmi ég einnig af öllum mætti.“

Rússar buðu Waters að ávarpa ráðið

Rússland | 10. febrúar 2023

Roger Waters ávarpar ráðið á miðvikudaginn. Fögnuðu Rússar máli hans …
Roger Waters ávarpar ráðið á miðvikudaginn. Fögnuðu Rússar máli hans en öðrum fulltrúum leist síður á. AFP/Ed Jones

„Innrás Rússa í Úkraínu var ólögleg. Hana fordæmi ég af öllum mætti. Hún var hins vegar ekki gerð án ögrunar og þá sem ögruðu fordæmi ég einnig af öllum mætti.“

„Innrás Rússa í Úkraínu var ólögleg. Hana fordæmi ég af öllum mætti. Hún var hins vegar ekki gerð án ögrunar og þá sem ögruðu fordæmi ég einnig af öllum mætti.“

Þetta sagði Roger Waters, fyrrverandi bassaleikari, söngvari og helsti laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar Pink Floyd, þegar hann ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í fyrradag í boði rússneskra stjórnvalda.

Ávarpið flutti Waters, sem verður áttræður í haust, gegnum fjarfundabúnað og hafði hund sinn með sér í mynd.  Krafðist tónlistarmaðurinn vopnahlés en lá ekki á þeirri skoðun sinni að ögrun stjórnvalda á Vesturlöndum í garð Rússa hefði legið að baki innrásinni. Þau bæru því ábyrgðina.

Múrsteinn í vegg afvegaleiðingar

Þennan málflutning tónlistarmannsins kallaði Sergí Kyslytsía, sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum, „annan múrstein í vegg rússneskrar afvegaleiðingar“ og vísaði þar í eitt höfuðverka Pink Floyd, lagið Another Brick in the Wall.

Það var í kjölfar viðtals þýska dagblaðsins Berliner, þar sem Waters bar lof á Vladimír Pútín Rússlandsforseta fyrir leiðtogahæfileika hans, að rússnesk stjórnvöld leituðu til söngvarans og buðu honum að ávarpa öryggisráðið.

Hundur Waters fékk einnig að koma fyrir öryggisráðið en eigandi …
Hundur Waters fékk einnig að koma fyrir öryggisráðið en eigandi hans flutti ávarp sitt gegnum fjarfundabúnað frá Sviss. AFP/Ed Jones

Kvaðst Waters þar ekki vera fulltrúi rússneskra sjónarmiða, hann talaði hins vegar fyrir munn „fjögurra milljarða, eða þar um bil, bræðra og systra“ og sagði enn fremur:

„Hvað hafa hinar þöglu milljónir þá fram að færa? Þær segja þökk fyrir að veita okkur áheyrn í dag. Við erum mörg sem ekki njótum gróða hergagnaiðnaðarins. Við ölum ekki syni okkar og dætur upp til að gerast fallbyssufóður. Við teljum einu skynsamlegu gjörðina í dag að krefjast tafarlauss vopnahlés. Köstum ekki einu einasta úkraínsku eða rússnesku lífi meir á glæ, þau eru okkur öll verðmæt.“

Aðdáunarverður sem tónlistarmaður, en...

Vasilí Nebensía, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, gerði lítið úr ummælum Waters hvað ólögmæti innrásarinnar varðaði en hrósaði þess í stað „hárnákvæmri greiningu atburða“ og fór ekki í grafgötur með þá skoðun sína að það væru vesturveldin sem veittust að Rússlandi.

Richard Mills, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, tók enn fremur til máls og lofaði Waters sem tónlistarmann, til annars þótti honum síður koma. „Sannarlega viðurkenni ég aðdáunarverðan orðstír hans sem tónlistarmanns. Síður eygi ég hins vegar hæfileika hans sem sérfróðs greinanda á sviði vopnaskaks og öryggismála í Evrópu.“

BBC

Politico

Al Jazeera

mbl.is