Palestínsk fjölskylda kvartar til umboðsmanns

Flóttafólk á Íslandi | 26. febrúar 2024

Palestínsk fjölskylda kvartar til umboðsmanns Alþingis

Palestínsk fjölskylda hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess sem þau segja vera athafnaleysi íslenskra stjórnvalda vegna fjölskyldusameiningar.

Palestínsk fjölskylda kvartar til umboðsmanns Alþingis

Flóttafólk á Íslandi | 26. febrúar 2024

Frá mótmælum við Alþingishúsið þar sem m.a. var krafist þess …
Frá mótmælum við Alþingishúsið þar sem m.a. var krafist þess að stjórnvöld myndu aðstoða við komu fólks frá Gasa á grundvelli fjölskyldusameiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Palestínsk fjölskylda hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess sem þau segja vera athafnaleysi íslenskra stjórnvalda vegna fjölskyldusameiningar.

Palestínsk fjölskylda hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess sem þau segja vera athafnaleysi íslenskra stjórnvalda vegna fjölskyldusameiningar.

Í kvörtuninni, sem mbl.is hefur undir höndum, og er undirrituð af Jónu Þórey Pétursdóttur, lögmanni á lögmannsstofunni Rétti, er vísað til ástandsins á Gasa þar sem tugir þúsunda hafa látist eftir innrás Ísrael sem kom í kjölfar árásar Hamas-samtakanna 7. október.

Fengu dvalarleyfi í desember

Fjölskyldan fékk dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar í desember, en maðurinn er staddur hér á landi. Eru eiginkona hans og þrjú börn enn föst á Gasa. Maðurinn óskaði þann 9. janúar eftir fundi með fjórum ráðherrum; utanríkisráðherra, forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra.

Fékkst fundur með félags- og vinnumálaráðherra, en í kvörtuninni kemur fram að hann hafi upplýst að það væri ekki á færi ráðuneytisins eða Vinnumálastofnunar að taka á móti fólki. Það þyrfti diplómatískt samskipti til að fá einhvern til að taka á móti fólkinu í Egyptalandi. Aðrir ráðherrar svöruðu ekki fundarboði.

Þá er vísað til ummæla dómsmálaráðherra um að önnur Norðurlönd hafi ekki sótt einstaklinga sem hefðu dvalarleyfi heldur hafi fólk þurft að koma sér sjálft af svæðinu. Segir í kvörtuninni að þetta sé rangt, en dómsmálaráðherra sagði stuttu fyrir áramót að önnur Norðurlönd framkvæmdu ekki fjölskyldusameiningar, en stuttu síðar leiðrétti ráðherra ummæli sín og sagði að önnur Norðurlönd væru ekki að sækja fjölskyldur á stríðshrjáð svæði á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Íslensk stjórnvöld hafa síðan sent diplómata til Egyptalands til að aðstoða við að gera dvalarleyfishöfum kleift að yfirgefa Gasa, en það hefur einnig hópur á vegum Solaris hjálparsamtakanna gert síðustu vikur.

Knúin til að bera fram kvörtun í ljósi verulegra tafa

Þrátt fyrir för diplómatanna segir fjölskyldan í kvörtun sinni að hún sjái sig knúna til að bera fram kvörtun í ljósi verulegra tafa á úrlausn sinna mála hingað til og þeirra hagsmuna sem séu undir.

Segist fjölskyldan ekki vita til að íslensk stjórnvöld hafi gefið landamærayfirvöldum í Egyptalandi upplýsingar um fjölskylduna, meðal annars vegabréfsnúmer og símanúmer, eða að íslensk stjórnvöld taki ábyrgð á þeim eftir för yfir landamærin.

Segir í kvörtuninni að sú skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að koma því áleiðis til landamærayfirvalda í Egyptalandi að fjölskyldan hafi dvalarleyfi hér á landi og að yfirvöld beri ábyrgð á þeim.

Byggt á því að fjölskyldunni steðji bráð hætta á þjáningum og dauða

Byggt er á því að eiginkonunni og börnum steðji bráð hætta á þjáningum og dauða á Gasa. Þá sé um börn að ræða og því hvíli sérstaklega ríkar skyldur til athafna. Þá er vísað til óskráðra meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða og að tafir á afgreiðslu mála sem geri fólk útsett fyrir ómannúðlegri meðferð og brotum gegn réttinum til lífs sé óheimil.

Þá er einnig vísað til úrskuð alþjóðadómstólsins í Haag frá 26. janúar í tengslum við innrás Ísrael. Segir í kvörtuninni að þar hafi íslenskum stjórnvöldum orðið ljóst að raunveruleg hætta væri til staðar á Gasa. Einnig er vísað til þess að fordæmi séu fyrir því að einstaklingar séu beinlínis sóttir úr lífshættulegum aðstæðum af íslenskum stjórnvöldum. Að lokum er vísað til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is