Skákar öllum nema Stalín

Rússland | 28. febrúar 2024

Skákar öllum nema Stalín

Vladimír Pútín hefur slegið öllum gömlu sovétleiðtogunum við í kúgun og valdníðslu – nema sjálfum „stálmanninum“, Jósef Stalín. Er þetta niðurstaða rússneska rannsóknarblaðamennskuvefjarins The Project, eða Проект, sem kafar ofan í feril forsetans.

Skákar öllum nema Stalín

Rússland | 28. febrúar 2024

Pútín ávarpar hermenn sína gegnum fjarfundabúnað í gær. Rússneski rannsóknarblaðamennskuvefurinn …
Pútín ávarpar hermenn sína gegnum fjarfundabúnað í gær. Rússneski rannsóknarblaðamennskuvefurinn The Project segir aðeins Jósef Stalín hafa kúgað fleiri andstæðinga ríkjandi stjórnvalda. AFP/Alexander Kazakov

Vladimír Pútín hefur slegið öllum gömlu sovétleiðtogunum við í kúgun og valdníðslu – nema sjálfum „stálmanninum“, Jósef Stalín. Er þetta niðurstaða rússneska rannsóknarblaðamennskuvefjarins The Project, eða Проект, sem kafar ofan í feril forsetans.

Vladimír Pútín hefur slegið öllum gömlu sovétleiðtogunum við í kúgun og valdníðslu – nema sjálfum „stálmanninum“, Jósef Stalín. Er þetta niðurstaða rússneska rannsóknarblaðamennskuvefjarins The Project, eða Проект, sem kafar ofan í feril forsetans.

Telja skrifarar The Project til 116.000 manns sem sættu einhvers konar kúgun af hálfu stjórnvalda Pútíns á hans fjórða kjörtímabili. „Sorglegt, en kemur því miður ekki á óvart,“ segir Petr Vasilev, stjórnarmaður í norsku samtökunum SmåRådina, sem berjast fyrir lýðræði í Rússlandi.

Vasilev ræðir við norska ríkisútvarpið NRK og nefnir dæmi um fólk, ekki þóknanlegt Pútín, sem lýst hafi verið veikt á geði og lokað inni. „Þeirri aðferð er enn fremur beitt gegn pólitískum föngum til að halda þeim bak við lás og slá til eilífðar,“ útskýrir Vasilev.

Hálfur mánuður er nú liðinn síðan stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést …
Hálfur mánuður er nú liðinn síðan stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést í fangelsi þar sem hann hafði mátt dúsa um árabil. Bar dauða hans að skömmu áður en Rússar hugðust hafa fangaskipti á honum og rússneskum leyniþjónustumanni í haldi Þjóðverja. AFPLudovic Marin

600.000 dómsmál um „óhlýðni“

The Project nefnir einnig sín dæmi, til dæmis Oleg Orlov, einn stofnenda mannréttindasamtakanna Memorial, en hann hlaut dóm fyrir að gagnrýna Pútín og veldi hans.

Skoðuðu blaðamenn dóma rússneskra dómstóla árabilið 2018 til 2023 en á þeim tíma komu 600.000 mál til kasta þeirra sem snerust um brot og „óhlýðni“ gegn stjórnvöldum. Sættu rúmlega 50.000 manns kúgun fyrir ummæli sín og skoðanir auk þess sem 4.500 hermenn voru dregnir fyrir dóm í kjölfar gildistöku nýrra reglna vegna stríðsins í Úkraínu.

Innan við einu prósenti málanna lyktaði með sýknudómi var niðurstaða athugunar blaðamanna The Project.

Óttast samfélagið

Inna Sangadsíeva er umdæmisstjóri Evrópu og Mið-Asíu í mannréttindasamtökunum Helsinkinefndinni. Sangadsíeva ólst upp í Kalmykia-lýðveldinu í Norður-Kákasus, syðst í Rússlandi, og segir glöggt mega greina sovéska stjórnarhætti Pútíns.

„Stjórnvöld Pútíns óttast samfélagið og þá sem eru reiðubúnir að láta til sín taka í stjórnmálum. [Alexei] Navalní er dæmi um hve miklu ein manneskja fær áorkað,“ segir hún við The Project en játar engu að síður að dómsmálatölfræðin komi henni á óvart.

„Þetta eru háar tölur. Þær segja meira en mörg orð um mótmælin sem búa í samfélaginu og hve margir berjast fyrir réttindum sínum,“ segir Sangadsíeva, „ef þú ert með heyrnartól í regnbogalitum ertu fyrirvaralaust orðinn öfgasinni.“

Mannréttindafrömuðurinn Oleg Orlov hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir …
Mannréttindafrömuðurinn Oleg Orlov hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir að viðhafa niðrandi ummæli um rússneska herinn. AFP/Alexander Nemenov

„Eitt er þó ljóst,“ skrifar The Project, „þegar litið er til umfangs kúgunar hefur Pútín fyrir löngu slegið öllum sovéskum leiðtogum við nema einum – Jósef Stalín.“ Georgíumaðurinn og aðalritarinn Stalín sendi mörg hundruð þúsund manns í fangelsi eða útrýmingarbúðir árabilið 1937 til '38 eitt og sér auk þess sem þrælkunarbúðir og fanganýlendur á borð við Gúlag-eyjar voru 146 talsins þegar þær voru flestar árið 1953, síðasta árið sem Stalín lifði.

Tölfræðin bak við lás og slá

Síðustu ár hefur margs konar lagasetning á vegum Pútíns lagt hömlur á tjáningarfrelsi í Rússlandi. Sem dæmi má nefna að nú orðið má – í skjóli lagabókstafsins – vísa nemendum úr háskólum og gera þegnana brottræka úr sínu heimalandi. Vilji viðkomandi sleppa við að yfirgefa landið skal hann opinberlega biðjast afsökunar og sverja stjórnvöldum hollustu sína.

Útilokað er að mati blaðamanna The Project að slá því föstu hve margir hafi sætt framangreindu. „Sé slík tölfræði til gæta lögregluyfirvöld hennar vandlega,“ skrifar miðillinn.

Úkraínskir skriðdrekahermenn á ferð í Dónetsk-héraðinu. Mörg þúsund rússneskir hermenn …
Úkraínskir skriðdrekahermenn á ferð í Dónetsk-héraðinu. Mörg þúsund rússneskir hermenn hafa hlotið dóma fyrir að neita að berjast í Úkraínu og 13.000 manns hafa hlotið dóma fyrir það allt í allt. AFP/Anatolii Stepanov

Í kjölfar innrásar Pútíns í Úkraínu gripu stjórnvöld til aðgerða gegn þeim sem neituðu að ganga á vígvöllinn fyrir Rússland.

Hefur fjöldi dómsmála sprottið af þessu gegn samtals 13.000 manns, þar af 4.500 hermönnum eins og fyrr er nefnt. Gerir The Project þann fyrirvara að skuggatölfræðin sé líkast til ríkuleg þar sem ekki fari allir fyrir dóm. Margir fái fésektir, njósnað sé um þá og þeir einfaldlega beittir harðræði.

159.000 refsað fyrir faraldursbrot

Kórónuveirufaraldurinn varð að hálfgerðum refsivendi í höndum Pútíns og kumpána hans. Tímabilið frá apríl 2022 til aprílloka 2023 hlutu um það bil 159.000 manns ýmsar refsingar fyrir brot tengd faraldrinum.

Petr Vasilev er ekki bjartsýnn á jákvæðar breytingar næstu árin en Inna Sangadsíeva leyfir sér meiri bjartsýni en landi hennar.

„Það tekur kannski tíma, en ég held í vonina um að aðstæður breytist og að Rússland nái lýðræði. Önnur [fyrrverandi] Sovétlýðveldi hafa náð þangað – það er kjarni baráttunnar,“ segir Sangadsíeva.

NRK
NRKII (Oleg Orlov dæmdur)
Financial Times (Pútín ofsækir nakta)
El País (Pútín verður refsað)
Sky News (aftökusveit á eftir andstæðingum Pútíns)

mbl.is