Rússnesk fingraför sjást víðar

Rússland | 21. maí 2024

Rússnesk fingraför sjást víðar

Ríki Evrópu sjá nú sífellt fleiri rússnesk fingraför í tengslum við ætluð skemmdarverk á mikilvægum innviðum í álfunni. Erfiðara reynist þeim þó að grípa til viðbragða.

Rússnesk fingraför sjást víðar

Rússland | 21. maí 2024

Forsetinn Vladimír Pútín ávarpar samkomu í heimsókn sinni til Kína …
Forsetinn Vladimír Pútín ávarpar samkomu í heimsókn sinni til Kína fyrir helgi. Ríkjum Evrópu stendur sífellt meiri uggur af þessu stærsta landi heims í austri, sem einmitt hefur notið aðstoðar nágrannaríkis síns enn austar. AFP

Ríki Evrópu sjá nú sífellt fleiri rússnesk fingraför í tengslum við ætluð skemmdarverk á mikilvægum innviðum í álfunni. Erfiðara reynist þeim þó að grípa til viðbragða.

Ríki Evrópu sjá nú sífellt fleiri rússnesk fingraför í tengslum við ætluð skemmdarverk á mikilvægum innviðum í álfunni. Erfiðara reynist þeim þó að grípa til viðbragða.

Frá þessu greindi bandaríska stórblaðið Wall Street Journal í gær. Hefur blaðið eftir evrópskum rannsakendum að það sem helst torveldi viðbrögð séu ófullnægjandi sönnunargögn í mörgum tilvikum. Tekin eru dæmi um truflanir á lestarsamgöngukerfi og slit á neðansjávargasleiðslu og mikilvægri nettengingu.

Á meðal grunaðra spellvirkja í stórum málum eru áhafnir farmflutningaskipa og fiskiskipa, sem reynst hafa verið nærri viðkvæmum mannvirkjum á hafsbotni á sama tíma og þau urðu fyrir skemmdum, en virðast annars hafa átt lögmætt erindi á viðkomandi hafsvæði.

Sjaldan hafa rannsakendur náð að tengja áhafnirnar eða skipin beint við stjórnvöld Rússlands.

Kínverskt skip undir grun

Ríkisstjórnir Evrópu hafa þó ákært einhverja Rússa og málaliða þeirra í tilfellum sem eru minni að umfangi, og láta yfirleitt meira í sér heyra nú en áður. Saka þær stjórnvöld í Kreml um duldar árásir en hafa samt sem áður ekki fært fram ásakanir tengdar einstökum árásum.

Og jafnvel í þeim tilfellum þar sem Rússar virðast nær einskis hafa svifist hefur skortur á haldbærum sönnunargögnum neytt yfirvöld til að halda málunum áfram opnum eða þá lýsa því yfir að rannsóknin verði ekki leidd til lykta.

Í umfjöllun Wall Street Journal er tekið sem dæmi kínverska skipið Newnew Polar Bear, en rannsakendur töldu skipverja hafa skorið á gasleiðsluna Balticconnector síðasta haust þar sem hún liggur frá Finnlandi og suður til Eistlands yfir Kirjálabotn. Skipinu stýrði rússnesk áhöfn.

Vladimír Pútín gengur innan veggja Kremlar. Rússar þykja hafa snúið …
Vladimír Pútín gengur innan veggja Kremlar. Rússar þykja hafa snúið sér í auknum mæli að borgurum og kaupskipum til að njósna um og mögulega ráðast á mikilvæga innviði. AFP

Aðeins fáeinum dögum of seint

Eftir að rannsókn Finna hafði undið fram, og skipið haldið siglingu sinni áfram í vestur og svo norður með Noregi, höfðu finnskir rannsakendur samband við norska kollega sína. Í kjölfarið íhuguðu norsk yfirvöld að skipa fleyinu til hafnar þar sem það sætti svo skoðun, en komust loks að þeirri niðurstöðu að þau skorti sönnunargögn því til stuðnings.

Skip norsku strandgæslunnar fylgdist þó grannt með kínverska gámaskipinu þar sem það sigldi hjá viðkvæmum innviðum á hafi úti.

„Einungis einni eða tveimur vikum síðar höfðum við næg sönnunargögn til að geta stöðvað skipið og gert leit um borð,“ tjáir norskur embættismaður blaðinu.

„En þá var það þegar um seinan.“

Talin leggja á ráðin um árásir

Á þennan hátt þykja Rússar hafa snúið sér í auknum mæli að borgurum og kaupskipum til að njósna um og mögulega ráðast á mikilvæga innviði, á borð við neðansjávarleiðslur og -tengingar, orkumannvirki á hafi úti, samgöngukerfi og herstöðvar, að sögn þeirra sem kunnugir eru umræddum málum.

Fjallað var um það á mbl.is í síðustu viku að rússnesk stjórnvöld væru talin leggja á ráðin um árásir gegn Vesturlöndum.

Við þessu varaði forstjóri bresku leyniþjónustunnar GCHQ, Anne Keast-Butler, sem var skipuð í embættið fyrir ári og notaði fyrstu opinberu ræðu sína til að varpa ljósi á þá vaxandi ógn sem stafar af Kreml.

Sagði hún leyniþjónustuna hafa sífellt meiri áhyggjur af aukinni samvinnu rússneskra leyniþjónusta og sjálfstæðra hópa við að gera netárásir, auk gruns um eftirlitsaðgerðir og spellvirki í raunheimum.

Þá kvað hún yfirvöld í Moskvu leggja rækt við og fóstra hópa tölvuþrjóta, og að í sumum tilfellum virtist sem þau ynnu að því að samræma árásir gegn Vesturlöndum í raunheimum.

mbl.is