Norður-írskur hryðjuverkamaður dæmdur í 20 ára fangelsi

Michael McKevitt.
Michael McKevitt. AP

Michael McKevitt, sem talinn er hafa skipulagt sprengjuárásina á bæinn Omagh á Norður-Írlandi árið 1998, var í dag dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að stýra hryðjuverkastarfsemi. McKevitt, sem var leiðtogi samtakanna The Real IRA, var í gær fundinn sekur en refsing hans var ákveðin í dag.

McKevitt neitaði að mæta í dómssalinn á lokastigum réttarhaldsins í Dublin en kom þangað í dag eftir að dómurinn var kveðinn upp til að óska eftir leyfi til að áfrýja. Þeirri ósk var hafnað.

McKevitt, sem býr í Írska lýðveldinu, var einnig dæmdur í sex ára fangelsi fyrir aðild að ólöglegum samtökum en hann mun afplána fangelsisdómana samtímis.

Saksóknarar reiddu sig á framburð bandaríka njósnarans Davids Ruperts, sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, fékk á sínum tíma til að komast inn í norður-írsk neðanjarðarsamtök í Bandaríkjunum og á Írlandi. Rupert komst þannig inn í The Real IRA með því að þykjast vera að afla fjár fyrir herskáa Norður-Íra í Bandaríkjunum. Rupert, sem býr í Bandaríkjunum undir vernd FBI, fékk greidda rúma 1 milljón dala fyrir að njósnirnar.

Þeir sem þekkja til sögu Írska lýðveldishersins og Sinn Féin, stjórnmálaarms IRA, segja að McKevitt hafi lengi verið félagi í IRA sem í 27 ár hefur barist fyrir því að Norður-Írland fari undan yfirráðum Breta. Bernadette, kona McKevitts, var systir Bobby Sands, félaga í IRA sem kjörinn var á breska þingið árið 1981 meðan hann var í hungurverkfalli. Sands lést síðan eftir 65 daga svelti.

McKevitt er sagður hafa stofnað The Real IRA, eða Hinn raunverulega IRA, árið 1997 vegna óánægju með ákvörðun forustumanna IRA að hætta tímabundið vopnaðri baráttu og styðja friðarferlið sem leiddi til friðarsamkomulags árið 1998. The Real IRA stóð fyrir sprengjuárásum í nokkrum norður-írskum borgum það ár sem síðan náðu hámarki í Omagh þar sem 29 manns létu lífið og yfir 300 særðust.

Hópurinn reyndi að hefja aðgerðir á ný árið 2000 en með litlum árangri þar sem lögregla fylgdist vel með félögum í hópnum og einnig voru vopn þeirra frekar léleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert