Þögn Veronicu Berlusconi rofin

Ævisaga Veronicu Lario, eiginkonu Silvio Berlusconi er fyrsta sinnar tegundar á Ítalíu. Bókin ku varpa ljósi á einkalíf eins umtalaðasta leiðtoga okkar tíma en leiðir hans og Veronico lágu saman fyrir 25 árum. Það var þá sem Berlusconi féll kylliflatur fyrir hinn ljóshærðu leikkonu og yfirgaf þáverandi eiginkonu sína í kjölfar þess.

Eftir að Berlusconi hóf að taka virkan þátt í stjórnmálum og varð loks forsætisráðherra hvarf eiginkona hans algjörlega úr sviðsljósinu. Áður fyrr var hlutverk forsætisráðherrafrúar á Ítalíu annað en það sem tíðkast meðal leiðtoga eiginkvenna í öðrum löndum. Forsetafrúrnar Hillary Clinton og Cherie Blair, hafa t.d. látið til sín taka á opinberum vettvangi.

Eiginkonur ítalskra stjórnmálaleiðtoga voru harðlega gagnrýndar fyrir hlutleysi sitt af fjölmiðlum og kollegum eiginmanna sinna sem varð til þess að þær urðu sýnilegar á opinberum vettvangi en höfðu sig lítið í frammi. Veronica Berlusconi ákvað hins vegar að hafa sig hvorki í frammi né sjást. Hún hefur aðeins sést einu sinni við hlið eiginmanns síns í opinberum heimsóknum síðastliðin 10. Þá fór hún með eiginmanni sínum til Moskvu og segir höfundi bókarinnar að hún hafi orðið að fara þar sem fólk var farið að halda að hún væri „mállaus.“

Þögn Veronicu hefur matað slúðurdálka dagblaðanna sem keppast við að greina frá hjónabandsvandræðum Berlusconi hjónanna og að þau hafi þurft að leita sér sér hjálpar til hjónabandsráðgjafa.

Vernonica blæs á þessar sögusagnir í ævisögu sinni en segist hafa kosið að halda sig til hlés þar sem hún deili ekki áhuga eiginmanns síns á stjórnmálum. Hún segist einnig aldrei myndu standa í vegi fyrir því að Berlusconi öðlist þann frama sem hann sækist eftir. „Ég held að ég sé hin fullkomna eiginkona fyrir mann eins og Silvio. Hann getur einbeitt sér algjörlega að sér og sínum störfum vitandi að eiginkona hans muni ekki taka því illa þó hann sé löngum stundum í burtu frá fjölskyldunni,“ segir Veronica.

Fyrir síðust kosningar árið 2001 sendi Silvio Berlusconi út 12 milljónir eintaka af ævisöguriti, myndskreyttu með myndum sem gefa hamingjusama ímynd af fjölskyldunni. Þar segist hann njóta þess að vera í faðmi fjölskyldunnar þegar stund gefst milli stríða en eiginkona hans hefur aðra sögu að segja. „Silvio talar í símann á öllum matmálstímum, jafnvel á jólunum svarar hann í símann alveg sama hver hringir, hann þagnar aldrei, ekki einu sinni í svefni,“ segir hún.

Þó frú Berlusconi þræti fyrir að það hrikti í stoðum hjónabands þeirra virðast þau hjónin þó eiga fá sameiginleg áhugamál. Þau hafa t.d. ólíkar stjórnmálaskoðanir og lýsti Veronica því yfir í viðtali á síðasta ári að hún væri á móti stríði í Írak, sem eiginmaður hennar studdi. Hún viðurkennir einnig í ævisögu sinni að hafa kosið sósíalistaflokkinn og róttækan vinstriflokk, en ekki flokk forsætisráðherrans, Forza Italia.

mbl.is