Cheney segir kjör Kerrys ávísun á hryðjuverk

Dick Cheney á framboðsfundi í Des Moins í gær.
Dick Cheney á framboðsfundi í Des Moins í gær. AP

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í gær að ef John Kerry, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, næði kjöri væri hætta á að annað hryðjuverk yrði unnið í Bandaríkjunum. Varaforsetaefni Kerrys, John Edwards, brást hinn versti við og sagði Cheney hafa „farið yfir strikið“.

Cheney var á kosningaferðalagi í Des Moins í miðvesturríkjunum og sagði þá meðal annars: „Það er höfuðatriði að við veljum rétt“ í kosningunum 2. nóvember. „Ef við veljum rangt er hættan sú, að við verðum fyrir annarri árás,“ hélt hann áfram, og gaf í skyn að Kerry væri ekki eins staðráðinn og George W. Bush forseti í því að berjast gegn öfgasinnum.

Í yfirlýsingu frá Edwards sagði um orð Cheneys: „Hræðsluáróður Dicks Cheneys fór yfir strikið í dag, og hann sýndi rétt eina ferðina að hann og George Bush eru tilbúnir til að gera hvað sem er og segja hvað sem er til að halda vinnunni.“

mbl.is