Öryggisráð SÞ samþykkir ályktun þar sem árásir á Lundúnir eru fordæmdar

Lundúnabúi bíður eftir lest á Euston lestarstöðinni í Lundúnum nú …
Lundúnabúi bíður eftir lest á Euston lestarstöðinni í Lundúnum nú síðdegis og les um árásirnar í síðdegisblaðinu Evening Standard. AP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun þar sem hryðjuverkaárásirnar á Lundúnir í dag eru fordæmdar og því heitið að þeir sem stóðu að þeim skuli svara til saka.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, sagðist harma árásirnar mjög. „Þessi voðaverk hafa djúp áhrif á okkur öll, því þau eru árásir á mannkynið sjálft,“ sagði í yfirlýsingu frá Annan. „Heimurinn stendur þétt við hlið Breta í dag,“ sagði Annan.

Ályktun öryggisráðsins var samþykkt samhljóða, með 15 atkvæðum gegn engu. Í henni er hvatt til samvinnu ríkja í því skyni að finna þá sem stóðu að árásunum og koma þeim í hendur réttvísinnar. Einni er þar lýst eindregnum vilja ráðsins til þess að berjast gegn hryðjuverkum.

Ráðið vottaði fórnarlömbum sprenginganna fjögurra í Lundúnum í morgun samúð sína. Bresk lögregla hefur skýrt frá því að 37 manns, hið minnsta hafi farist í sprengingunum. Mörg hundruð manns hafi slasast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert