Lestarstöðvar rýmdar eftir minni háttar sprengingar

Lögregla og björgunarmenn við Oval lestarstöðina í London.
Lögregla og björgunarmenn við Oval lestarstöðina í London. AP

Litlar sprengingar þar sem einungis kveikibúnaður hefur verið notaður en ekki sprengiefni virðast hafa orðið til þess að þrjár neðanjarðarlestarstöðvar í London voru rýmdar og ferðir um þrjár leiðir stöðvaðar, að því er fram kemur í frétt BBC. Lögregla hefur girt af svæði við lestarstöðvar við Warren Street, Oval og Shepher´s Bush. Staðfest hefur verið að einn hafi særst við Warren Street. Þá hefur einnig verið staðfest að rúður brotnuðu í strætisvagni í austurhluta borgarinnar þegar sprenging varð þar en engan sakaði.

Ekki er ljóst hvort um sé að ræða tilræðismenn sem hafi ætlað að sprengja sprengjur en einungis sprengt kveikibúnað eða menn sem hafi notað platsprengjur til að valda uppnámi en í dag eru tvær vikur frá því gerðar voru sprengjuárásir á London þar sem 56 létu lífið og 700 særðust.

Lögregla segir að hún líti ekki enn á þetta sem „meiriháttar atvik“ eins og árásirnar 7. júlí. Vitni við Oval lestarstöðina sagði að lítill hvellur hefði heyrst inni í lestarvagninum og maður síðan hlaupið út úr vagninum þegar lestin kom inn á stöðina.

Mikil skelfing greip um mig á meðal farþega sem öskruðu að sögn vitnis sem var gert að fara úr lestinni við Warren Street.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka