Fólk frá Asíu oftast yfirheyrt í Bretlandi

Vopnaður lögreglumaður við störf í Lundúnum.
Vopnaður lögreglumaður við störf í Lundúnum. Reuters

Þrisvar sinnum meiri líkur eru á að lögregla í Bretlandi stöðvi fólk af asískum uppruna en öðrum, leiti á því og yfirheyri vegna gruns um aðild að hryðjuverkahópum. Þegar fimm vikur höfðu liðið frá því hryðjuverk voru framin í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn hafði breska lögreglan yfirheyrt 6.747 einstaklinga. Það var í samræmi við lög gegn hryðjuverkum. 35% þeirra voru af asískum uppruna. 32% þeirra sem voru yfirheyrðir voru hvítir, að því er fram kemur á fréttavef Sky í dag.

Meirihluti þeirra sem voru yfirheyrðir bjuggu í Lundúnum.

Einstaklingar af asískum uppruna segja hryðjuverkin í borginni í síðasta mánuði hafa haft slæm áhrif á sig. Sé horft á fólkið öðrum augum og margir taki þeim með fyrirvara.

Þrír af þeim fjórum ódæðismönnum sem frömdu hryðjuverk í Lundúnum voru af asískum uppruna og telja margir sérfræðingar, að því er Sky segir, sjálfsmorðssprengjumenn framtíðarinnar vera frá Asíu. Það sé ástæðan fyrir því að lögreglan yfirheyri oftar unga menn af asískum uppruna.

Blaðamaður Sky kannaði grundvöll þessa viðhorfs sjálfur á nokkrum lestarstöðvum í Lundúnum. Hafði hann dvalið skemur en fimm mínútur á lestarstöðinni við Liverpool Street og Viktoríustöðinni þegar lögregla stöðvaði hann og spurði út í ferðir hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert