Jólasveinar valda usla víða um heim

Tónelskir jólasveinar frá Kóreu slógu á létta strengi í sædýrasafni …
Tónelskir jólasveinar frá Kóreu slógu á létta strengi í sædýrasafni í Seúl í síðustu viku. Reuters

Skaðræðissveinar væri eflaust réttnefni yfir þá jólasveina sem valdið hafa miklum usla víða um heim undanfarna daga. Ölvaðir jólasveinar gengu m.a. berserksgang á Nýja-Sjálandi og aðrir frömdu vopnað rán í Þýskalandi. Þá var eftirlýstur jólasveinn handtekinn í síðustu viku fyrir að bera sig fyrir konum.

Þýski jólasveinninn olli eflaust nokkurri skelfingu þegar hann tók tvær konur í gíslingu í húsgagnaverslun í bænum Ludwigshafen á laugardag og neyddi þær til að opna peningageymslu búðarinnar. Þegar Sveinki hafði lokið við að hreinsa úr hirslum geymslunnar ofan í poka sinn læsti hann konurnar inni í henni og flúði af vettvangi. En þótt einn jólasveinn sé á flótta þá greindi lögreglan í þýska bænum Tübingen frá því um helgina að tekist hafi að klófesta Sveinka, sem eftirlýstur var fyrir aðild að fjórum bankaránum. Þyrla með innrauðri myndavél var notuð við leitina en Sveinki fannst í skurði við borgina í fullum jólaskrúða með sólgleraugu og leikfangavélbyssu.

Þá tilkynnti lögreglan í norðurhluta Þýskalands frá því um helgina, að hún hefði stöðvað jólasvein í bíl á 150 kílómetra hraða þar sem 100 kílómetra hraði er leyfður hámarkshraði. „Hann sagðist vera að flýta sér að koma jólapökkum til skila,“ sagði talsmaður lögreglunnar. Vart þarf að taka fram að jólasveinninn hlaut sekt fyrir hraðaksturinn auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum.

Strípisveinar?

Svo virðist sem nokkrir jólasveinar hafi tekið upp þann leiða sið að svipta sig klæðum en lögregla í nokkrum löndum hefur þurft að hafa afskipti af þessháttar strípalingum. Þá hafa aðrir hellt ótæpilega í sig af áfengi. Í síðustu viku olli ölvaður og hálfnakinn strípasveinki nokkurri truflun á jólamarkaði í þýska bænum Dabringhausen. Það er þó ekkert í samanburði við þann óskunda sem 40 drukknir jólasveinar ollu í Auckland á Nýja-Sjálandi á laugardag. Sveinarnir gengu berserksgang í miðborginni, stálu úr hillum verslana og réðust á öryggisverði. Ástæða þess að jólasveinarnir létu svo illa var að þeirra sögn sú, að þeir voru að mótmæla því að búið væri að gera jólin að verslunarhátíð.

Þá var jólasveinn handtekinn í bænum Swanage í Bretlandi í síðustu viku en hann er grunaður um að hafa berað sig fyrir konum. Jólasveinsins hefur verið leitað síðan 6. desember síðastliðins og hefur hann nokkrum sinnum látið til skarar skríða.

Skrifstofa nokkur í Lundúnum, sem kallast Skemmtiráðuneytið (e. Ministry of Fun) hefur nú hafið sókn gegn subbusveinunum og gefið út hegðunarreglur fyrir jólasveina. „Jólasveinninn er töfrandi og krúttlegur maður en ekki feitur og illa lyktandi sóði,“ sagði starfsmaður skrifstofunnar. „Hann á hvorki að lykta af áfengi né líkamslykt,“ sagði hann.

ABC News

mbl.is