Foreldrar leikskólabarna og eldri borgarar mótmæla í Árósum

Foreldrar leikskólabarna og eldri borgarar hafa undanfarna daga staðið fyrir mótmælum í Árósum, næst stærstu borg Danmerkur, vegna væntanlegs niðurskurðar á þjónustu sem borgin hefur veitt.

Foreldrar ungra barna hófu á föstudag setuverkfall í fjölda stofnana á vegum borgarinnar og stendur það enn. Þá hafa leikskólakennarar farið í skæruverkföll.

Um 200 eldri borgarar komu saman á ráðhústorginu í Árósum í gær til að mótmæla því að til stendur að loka frístundaheimilum fyrir aldraða í borginni og draga úr annarri þjónustu.

Uppnám varð í gær þegar fréttist, að borgaryfirvöld hefðu beðið lögreglu að fjarlægja foreldrana úr stofnununum en af því hefur ekki orðið enn.

Leikskólakennarar í Silkeborg hafa einnig boðað verkfall til að mótmæla niðurskurði þar og sömuleiðis kennarar í Faaborg á Fjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert