Afar og ömmur sækja rétt sinn

Afinn og amman í leikritinu Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur með …
Afinn og amman í leikritinu Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur með tveimur leikhúsgestum. Árvakur/ Skapti

Sífellt  fleiri afar og ömmur í Danmörku leita sér nú aðstoðar við að sækja umgengnisrétt við barnabörn sín í kjölfar skilnaðar barna sinna. Kveðið er á um sjálfstæðan umgengisrétt fólk svið barnabörn sín í lögum sem tóku gildi í Danmörku í október á síðasta ári. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Eva Bendix, talsmaður samtakanna De Nye Bedsteforældre segir í viðtali við blaðið Kristeligt Dagblad að svo mikil eftirspurn sé eftir aðstoð samtakanna að þau þurfi að vísa fjölda fólks frá. Þá segir hún að í 80% tilfella sé um að ræða föðurömmur og afa sem verði fyrir barðinu á reiði fyrrum tengdadætra sinna í kjölfar skilnaðar.

Lars Hansen, talsmaður samtakanna Foreningen Far segir að margir geri sér ekki grein fyrir þeim breytingum sem urðu á jögunum á síðasta ári og því viti ekki allir afar og ömmur af því að þau eigi lagalegan rétt á umgengi við barnabörn sín.

Aðrir haldi sig til hlés af ótta við að aðgerðir af þeirra hálfu leiði til enn erfiðari samskipta við foreldra barnanna og komi því enn frekar niður á sambandi þeirra við þau.

„Þau lenda í diplómatískum dansi á hálum ís, þar sem þau reyna oft að vera eins lítið uppáþrengjandi og þeim frekast er unnt á sama tíma og þau leita leiða til að endurbyggja sambönd sín við  barnabörnin,” segir Margrethe Kähler, ráðgjafi samtakanna Ældre Sagen.

Anja Cordes, formaður samtaka danskra fjölskyldulögfræðinga varar þó við því að ekki megi hefta og flækja líf barna um of með því að leggja á þau umgengnisskyldur við of marga aðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina