Fox reynir að svæla Obama út úr greninu

Barack Obama.
Barack Obama. AP

Bandaríska sjónvarpsstöðin Fox News hleypti í dag af stokkunum sérstökum dagskrárlið, Obamavaktinni, þar sem taldir eru þeir dagar sem liðið hafa frá því Barack Obama, forsetaframbjóðandi, lofaði að mæta í sunnudagsfréttaþátt stöðvarinnar. Það loforð hefur Obama ekki efnt enn.

Chris Wallace, sem stýrir Fox News Sunday, segir að Obama hafi lofað sér því í mars 2006 að koma í þáttinn en við það loforð hafi hann ekki staðið.

Hillary Rodham Clinton, sem keppir við Obama um forsetaefnisútnefningu demókrata, hefur komið í þáttinn að minnsta kosti tvisvar á þessu tímabili og John McCain, forsetaefni repúblikana, að minnsta kosti sex sinnum.

„Margir hafa sent okkur tölvupóst og spurt hvers vegna öldungadeildarþingmaðurinn vill ekki koma í Fox News Sunday og svara erfiðum spurningum," sagði Wallace. „Nú eru liðnir 730 dagar, 13 stundir, 53 mínútur og 9, nei 10 sekúndur, frá því Obama féllst á að mæta í Fox News Sunday. Fylgist með nýjustu fréttum í næstu viku." 

Tommy Vietor, talsmaður framboðs Obama, vildi ekki segja hvers vegna þingmaðurinn hefði ekki mætt í þáttinn en benti á, að Obama hefði mætt í annan þátt á Fox stöðinni sl. föstudag. 

Fox News Channel, sem er í eigu New Corp., fyrirtækis Ruperts Murdochs, segir fréttaumfjöllun sína vera réttláta og ekki draga taum neins. Frjálslyndir telja stöðina hins vegar halla undir Repúblikanaflokkinn.

mbl.is