Reynt að fá dönsk börn heim frá Pakistan

Danska utanríkisráðuneytið vinnur nú að því að fá tvær ungar dætur danskrar konu sem drepin var af mági sínum í Pakistan, til Danmerkur. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

Móðir stúlknanna Tahira Tabassums, var skotin til bana þar sem hún svaf með börnin sér við hlið á heimili mágs síns en þar hafði henni verið haldið nauðugri í þrjú ár. Mágurinn hefur viðurkennt að hafa skotið hana til bana þann 19. júní og segist hafa gert það þar sem honum hafi borist fjöldi kvartana vegna framkomu konunnar.

Eiginmaður konunnar, sem búsettur er í Danmörku var handtekinn eftir morðið en honum var síðan sleppt þar sem dönskum yfirvöldum tókst ekki að fá upplýsingar um málið frá yfirvöldum í Pakistan. Munu dönsk yfirvöld enn ekki hafa fengið neinar upplýsingar um málið frá pakistönskum yfirvöldum.

„Við erum í sambandi við báðar hliðar fjölskyldu barnanna og lögfræðing föður þeirra. Börnin eru danskir ríkisborgarar og því er það okkar fyrsta verkefni að fá þau til Danmerkur á sem friðsamlegastan hátt," segir  Lars Thuesen, fulltrúi ráðuneytisins. Þá segir hann að þegar börnin verði komin til landsins verði málið falið barnaverndaryfirvöldum en að faðir barnanna hafi nú forræði yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert