Sjálfstæði frá Dönum fyrir 2021

Kannski þessi börn eigi eftir að búa á sjálfstæðu Grænlandi.
Kannski þessi börn eigi eftir að búa á sjálfstæðu Grænlandi. Morgunblaðið/ Ómar

Grænland ætti að hafa hlotið sjálfstæði að fullu frá Dönum fyrir 2021, segir Hans Enoksen, forsætisráðherra grænlensku heimastjórnarinnar. Afgerandi niðurstöður fengust í gær er kosið var um aukna sjálfstjórn Grænlendinga, en 75,54% kjósenda studdu tillöguna.

Hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sent Grænlendingum hamingjuóskir í tilefni að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Segir hún Íslendinga sjá fram á aukin tengsl þjóðanna á komandi árum með greiðari samgöngum, auknum viðskiptum og nánara samstarfi um málefni Norðurslóða. Vænta megi mikils af sterkari stöðu Grænlands á alþjóðavettvangi.

„Þetta er raunhæft og ég hef trú á þessari dagsetningu 2021,“ segir Enoksen. „Á þeim tímapunkti höfum við þolað 300 ár af danskri nýlendustjórn og við viljum ekki að þau verði 300 í viðbót.“ Enoksen fullyrti að Grænland geti séð um sig sjálft.

Tillagan er árangur samningalotu á milli Grænlands og Danmerkur, en í henni felst að Grænlendingar öðlast rétt yfir þeim auðlindum sem kunna að finnast á því svæði sem landinu tilheyrir, sem og stjórn yfir dóms- og lögreglumálum og að ákveðnu leiti yfir utanríkisstefnu sinni.  

Breytingarnar á sjálfstjórn Grænlendinga ættu að taka gildi 21. júní á næsta ári og eru þær af mörgum taldar fyrsta skrefið í átt að sjálfstæði. Ekki eru hins vegar allir sammála um að það sé raunhæft. Enoksen blæs á allar slíkar áhyggjur. 1979 efuðust margir um að „við gætum tekið ábyrgð á eigin málum. Nærri 30 árum síðar höfum við sýnt að við getum vel tekist á við það verkefni, jafnvel þó við höfum gert nokkur mistök á leiðinni.“

Meðal fyrstu verkefna stjórnarinnar eftir að breytingarnar taka gildi er að koma höndum yfir þær auðlindir sem landinu tilheyra til að hægt sé að byrja að byggja upp efnahag landsins. En alþjóðasérfræðingar telja Grænland vera ríkt af olíu, gasi, demöntum og jafnvel gulli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert