Feður sem greiða ekki meðlag afhjúpaðir

Frá Tallin í Eistlandi
Frá Tallin í Eistlandi INTS KALNINS

Eftir harða gagnrýni þess efnis að þau hafi brugðist við innheimtu meðlags til einstæðra foreldra hafa eistnesk yfirvöld gripið til aðgerða. Sett hefur verið af stað átak á internetinu þar sem feður sem vanrækja að borga meðlag eru opinberaðir, í tilraun til að þvinga þá til að greiða vegna skammar.

„Markmið þess að hafa opna vefsíðu er að hvetja fjarlæga foreldra til að borga skuldir sínar," segir dómsmálaráðherrann Marko Aavik. „Allir, ekki bara vinir þeirra og félagar, geta séð og lesið upplýsingarnar um þá núna."

Síðan var opnuð í dag undir heimasíðu dómsmálaráðuneytis Eistlands og eru þegar 13 nöfn komin á listann, en búast má við því að á næstu vikum verði þau orðin nokkur hundruð. Við hlið nafnanna er kennitala mannanna og skrá yfir bæturnar sem þeir hafa vanrækt að greiða en þær nema allt að tveimur milljónum króna.

Nöfnin verða fjarlægð 10 dögum eftir að viðkomandi hefur gert upp skuld sína, en þau eru ekki birt yfir höfuð nema með samþykki þess foreldris sem elur barnið upp. Að sögn ráðuneytisins er vitað til u.þ.b. 4.700 foreldra sem hafa svikist undan dómsúrskurði um að greiða meðlag. Þeir séu hinsvegar margfalt fleiri en skráin segi til um því hitt foreldrið kjósi oft að kæra ekki.

Málefnið hefur lengi verið til umræðu í fjölmiðlum og meðal almennings en illa hefur gengið að uppræta vandann fram til þessa. „Ég styð þetta algjörlega, þetta gæti þvingað þá sem hegða sér eins og asnar, til dæmis með því að þykjast hafa efni á því að borga fyrir nýjan bíl en ekki með sínu eigin barni, til að borga loksins sinn hlut," hefur AFP eftir embættismanninum Reet Roos sem lengi hefur barist fyrir umbótum í málum einstæðra foreldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert