Lýsti grátklökk meintri árás Strauss-Kahn

Herbergisþernan Nafissatou Diallo, kom fram í morgunþætti ABC sjónvarpsstöðvarinnar í morgun þar sem hún lýsti grátklökk því að hún segði sannleikann og Dominique Strauss-Kahn, fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi reynt að nauðga henni.

Í viðtalinu í þættinum Good Morning America segist Diallo vilja sjá Strauss-Kahn í fangelsi. „Ég vil sjá réttlæti. Ég vil að hann fari í fangelsi," sagði Diallo í viðtali við Robin Roberts í morgun. „Ég vil að hann sjái það að á sumum stöðum getur þú ekki notað peninga og völd þegar þú gerir hluti sem þessa."

Strauss-Kahn er ákærður fyrir að hafa reynt að nauðga Diallo og beitt hana öðru kynferðislegu ofbeldi.

Diallo segir að hún hafi ekki viljað koma opinberlega fram en hún hafi neyðst til þess. Hún verði að láta sannleikann koma fram. 

Diallo lék að hluta til meinta árás gegn henni á hótelberginu og lýsti því er Strauss-Kahn reyndi að neyða hana til kynmaka. „Ég sneri höfðinu. Hann kom að mér og greip um brjóst mín," segir hún í viðtalinu. „Ég sagði hættu, hættu. Ég vil ekki missa vinnuna."

Hún segist ekki hafa vitað hver hann væri og þegar það kom í ljós hélt Diallo að hún myndi verða myrt. „Og svo sögðu þau að hann yrði næsti forseti Frakklands. Ég sagði ó Guð minn góður og grét. Ég sagði: þeir munu drepa mig."

Diallo neitaði í þættinum staðfastlega fréttum um að hún starfaði sem vændiskona.  Lögmenn Strauss-Kahn segja viðtalið ekkert annað en fjölmiðlasirkus.

Hér er hægt að horfa á viðtalið

Robin Roberts sést hér ræða við Nafissatou Diallo í New …
Robin Roberts sést hér ræða við Nafissatou Diallo í New York. Reuters
mbl.is