Tillögur ESB kynntar í dag

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB. Reuters

Framkvæmdastjórn ESB mun í dag kynna tillögur að aðgerðum um að taka á skuldavanda evruríkjanna. Nái tillögurnar fram að ganga fær ESB heimild til að fylgjast með fjárlagagerð einstakra ESB-ríkja. Þjóðverjar eru ósáttir við hugmyndir um upptöku evruskuldabréfa.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB mun skýra frá tillögunum síðar í dag, ásamt Olli Rehn sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórninni.

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar fela m.a. í sér upptöku evruskuldabréfa, en það eru ríkisskuldabréf sem öll evruríkin eru ábyrg fyrir, óháð því hvort þau eiga í skuldavanda eða ekki.

Að auki mun ESB hafa heimild til að fylgjast með fjárlagagerð einstakra ríkja sambandsins og hefur einnig heimild til að krefjast breytinga á þeim. Þjóðverjar eru afar andsnúnir þessum tillögum og eru hræddir um að þurfa að borga brúsann, en hagkerfi Þýskalands er það stærsta í Evrópu og þar er lánskostnaður lægstur.

„Ef umræða af þessu tagi á að fara fram, þá er meira viðeigandi að það gerist þegar kreppan fer að líða undir lok. Þess vegna tel ég ekki rétt að við ræðum þessi málefni núna, í miðpunkti erfiðleikanna,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands í gær.

Auk Grikklands, Írlands og Portúgal, sem þurftu á víðtækri aðstoð ESB að halda hafa Frakkland, Ítalía og Spánn einnig átt í miklum erfiðleikum. Nú eru blikur á lofti í Belgíu, en þar hefur verið stjórnarkreppa í eitt og hálft ár.

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar verða síðan að öllum líkindum ræddar á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna sem fyrirhugaður er þann 9. desember.

mbl.is