Strauss-Kahn greiðir þernu milljónir

Nafissatou Diallo og Dominique Strauss-Kahn hafa náð sáttum.
Nafissatou Diallo og Dominique Strauss-Kahn hafa náð sáttum. AFP

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, greiðir hótelþernunni Nafissatou Diallo sex milljónir Bandaríkjadollara, jafnvirði rúmra 755 milljóna íslenskra króna, sem sáttagreiðslu vegna kæru hennar um að hann hafi beitt sig kynferðisofbeldi.

Þetta staðhæfir franska dagblaðið Le Monde í dag.

Þar með er málinu lokið, sem hófst fyrir 18 mánuðum, en Diallo höfðaði einkamál gegn Strauss-Kahn þegar saksóknari í New York vísaði málinu frá á sínum tíma.

Samkvæmt frétt Le Monde mun banki lána Strauss-Kahn þrjár milljónir dollara í þessu skyni og afganginn fær hann frá fyrrverandi eiginkonu sinni, Anne Sinclair. Dómari í málinu sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að hugsanlega yrði gengið endanlega frá sáttinni fyrir dómstól í næstu viku, en vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Þrátt fyrir að sættir hafi náðst í þessu máli er Strauss-Kahn hvergi nærri sloppinn við afskipti dómstóla. Enn liggur ekki fyrir hvort hann verður ákærður fyrir aðild að vændishring, en hann hefur verið sakaður um að hafa, ásamt öðrum, skipulagt kynlífsveislur með vændiskonum.

Þá voru kærur um að hann hefði átt aðild að hópnauðgun felldar niður fyrir nokkrum vikum.

Frétt mbl.is: Sátt milli Strauss-Kahn og Diallo

Dominique Strauss-Kahn og Anne Sinclair, fyrrverandi eiginkona hans.
Dominique Strauss-Kahn og Anne Sinclair, fyrrverandi eiginkona hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert