Dæmt í máli Knox um mánaðamótin

Amanda Knox í réttarsalnum.
Amanda Knox í réttarsalnum.

Dómur verður kveðinn upp að nýju í máli Amöndu Knox 30. janúar, samkvæmt yfirlýsingu fá ítalska dómstólnum þar sem málið er höfðað. Knox er sökuð um að hafa myrt bresku stúlkuna Meredith Kercher árið 2007.

Ítalskir saksóknarar fara fram á 30 ára fangelsi yfir Knox. Hún og kærasti hennar, Raffaele Sollecito, voru á sínum tíma fundin sek um morðið og dæmd í 26 ára fangelsi en höfðu setið af sér 4 ár þegar áfrýjunardómstóll sýknaði þau árið 2011.

Knox hefur verið í Bandaríkjunum síðan, en fyrr á þessu ári ógilti hæstiréttur Ítalíu niðurstöðu áfrýjunardómstólsins og krafðist þess að réttað yrði aftur í málinu. Talið er afar ósennilegt að Knox verði framseld til Ítalíu, jafnvel þótt hún verði fundin sek og dæmd að nýju.

„Ég er vongóð, en hrædd,“ segir Knox sjálf í viðtali við ítalska dagblaðið La Repubblica í dag. „Í hvert sinn sem ég hef haldið að sakleysi mitt verði viðurkennt hef ég verið fundin sek. Nú er búið að rannsaka ný gögn, en ég hef enga trú á því að nein sönnun fyrir sekt minni hafi fundist. Eftir því sem ég best veit voru niðurstöðurnar andstæðan við það sem saksóknarar vonuðust eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert