Þurfa að skila tillögum á morgun

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras.
Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras. AFP

Grikkland hefur tíma til morgundagsins til þess að skila inn tillögum landsins um aðgerðir sem hægt væri að fara í til þess að halda lánalínu til landsins áfram opinni.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna gáfu Grikklandi frest þar til á mánudag til þess að koma með sannfærandi tillögur um hvers vegna Grikkir ættu að fá fjögurra mánaða framlengingu á greiðslu lána sinna til evruríkjanna.

„Við erum að setja saman lista yfir aðgerðir til þess að bæta þjónustu við íbúa Grikklands og koma í veg fyrir skattaundanskot,“ sagði Nikos Pappas, utanríkisráðherra Grikklands, við Mega channel.

Tsipras á erfitt verkefni fyrir höndum

Vinstriflokkurinn Syriza sigraði sögulegar kosningar í Grikklandi nýverið og reynir ríkisstjórn landsins nú að ná samningum við lánadrottna landsins ásamt því að standa við kosningaloforð flokksins. Virðist þetta tvennt ætla að reynast Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, þrautin þyngri.

Takist stjórnvöldum í Grikklandi að sannfæra lánadrottna landsins um að veita landinu fjögurra mánaða greiðslufrest á lánum Grikklands yrði sá tími nýttur til þess að semja um lánasamningana á nýjan leik. Blóðugur niðurskurður hefur verið  í Grikklandi að undanförnu en það var ein af forsendum þess að Grikklandi yrði veitt það neyðarlán sem þeir vilja nú semja aftur um.

Pappas, sem er náinn samstarfsmaður Tsipras forsætisráðherra, segir að viðræðurnar við lánadrottna landsins verði „dagleg barátta... þar sem hver sentímetri vinnist með átökum.“

Á meðan margir halda því fram að Grikkir hafi gefist upp gegn kröfum lánadrottna landsins, evruríkjanna, varðandi samninginn um fjögurra mánaða framlengingu, sagði Tsipras að Grikkland hefði náð „mikilvægum árangri í samningaviðræðunum“ sem muni „binda enda á þessa erfiðu tíma í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert