Mun segja af sér eftir ósigurinn í Skotlandi

Jim Murphy, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi ætlar að segja af …
Jim Murphy, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi ætlar að segja af sér í næsta mánuði. AFP

Jim Murphy, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi, hefur gefið það út að hann muni segja af sér í næsta mánuði. Þetta þrátt fyrir að flokksþing hafi fellt vantrausttillögu sem lögð var fram gegn honum í dag.

Flokkurinn beið afhroð í Skotlandi og fór svo að hann fékk aðeins einn mann kjörinn á þing, jafnmarga og Frjálslyndir demókratar og Íhaldsflokkurinn. Skoski þjóðarflokkurinn hrifsaði til sín nánast öllum þingsætum landsins í miklum kosningasigri. 

Á flokksþinginu í dag var lögð fram vantrausttillaga gegn Murphy en hún felld með 17 atkvæðum gegn 13. Murphy segir í samtali við The Guardian að svo mikil sundrung sé ekki líkleg til þess að lagast á næstunni og því sé réttast af honum að hætta sem leiðtogi.

Hann beinir í viðtalinu spjótum sínum að Len McClusky, valdamiklum verkalýðsleiðtoga sem hefur gagnrýnt Murphy mikið eftir kosningaósigurinn. „Það góða við að hætta er að nú get ég talað frjálsar og að mínu mati getum við ekki haft það þannig að leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi þurfi að þóknast einum manni. Ég vona að eftirmaður minn verði ekki maður sem Len McClusky handvelur,“ bætti Murphy við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert