Sonur Joes Bidens látinn

Beau Biden.
Beau Biden. AFP

Fyrrverandi ríkissaksóknari Delawareríkis, Joseph R. „Beau“ Biden, sonur varaforseta Bandaríkjanna, Joes Bidens, lést í gær úr krabbameini í heila. Hann var 46 ára gamall.

Beau Biden var álitinn rísandi stjarna innan bandarískra stjórnmála og hugðist bjóða sig fram sem ríkisstjóri Delaware árið 2016. Hann greindist upphaflega með krabbamein í heila í ágúst 2013 og gekkst undir árangursríka meðferð. Meinið gerði hins vegar aftur vart við sig fyrr á þessu ári.

„Það er með brostnu hjarta sem Hallie, Hunter, Ashley, Jill og ég tilkynnum andlát eiginmanns, bróður og sonar okkar, Beaus, eftir baráttu hans við heilakrabbamein af sömu heilindum, hugrekki og styrk og hann sýndi á hverjum degi lífs síns,“ sagði varaforsetinn í tilkynningu. „Öll Biden-fjölskyldan er sorgmæddari en orð fá lýst.“

„Beau persónugerði orðatiltæki föður míns um að foreldri hafi upplifað velgengni í lífinu þegar barn þess verður að betri manni en það sjálft. Við vitum að andi Beaus mun lifa áfram í okkur öllum,“ sagði varaforsetinn.

„Beau Biden var einfaldlega besti maður sem nokkurt okkar hefur nokkurn tíma þekkt.“

Lifði af bílslys sem barn

Beau var sá eldri af tveimur sonum Joes Bidens. Hann gegndi meðal annars herþjónustu í Írak árið 2008. Sem barn, árið 1972, lifði Beau af bílslys sem móðir hans, Neilia, og systir, Naomi, létust í. Hann og Hunter bróðir hans slösuðust og var faðir þeirra, sem hafði þá nýverið verið kjörinn inn á bandaríska þingið, svarinn í embætti við sjúkrarúm sonar síns.

Joe Biden kvæntist Jill Jacobs árið 1977 og eignaðist með henni dótturina Ashley Blazer. Beau Biden lætur eftir sig eiginkonu, Hallie Biden, og börn þeirra tvö, Natalie og Hunter.

Trúrækinn með stórt hjarta

Í yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, segir: „Michelle [Obama] og ég syrgjum í kvöld.

Beau var góður, trúrækinn kaþólikki með stórt hjarta og afar trúr maður sem skipti sköpum í lífi allra sem hann snerti og hann lifir áfram í hjörtum þeirra.“

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, minntist Biden á Twitter. „Hillary og ég hörmum fráfall Beaus Bidens - svo fullur af lífi, ást, heiðri og þjónustulund - og við biðjum fyrir styrk fyrir yndislegu fjölskylduna hans.“

Beau og Joe Biden ræðast við rétt utan við Baghdad …
Beau og Joe Biden ræðast við rétt utan við Baghdad í júlí 2009. AFP
Feðgarnir á flokksþingi Demókrata árið 2009.
Feðgarnir á flokksþingi Demókrata árið 2009. AFP
mbl.is