Grafi undan trúverðugleika Bandaríkjanna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði við bandaríska þingmenn í dag að ef þeir greiddu atkvæði gegn samkomulaginu sem stórveldin sex náðu við Íran um kjarnorkuáætlun Írana, þá myndu þeir grafa undan trúverðugleika bandarískra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.

Samkomulagið hefur mætt mikilli andstöðu meðal margra þingmanna á Bandaríkjaþinginu, þá fyrst og fremst meðal repúblikana, sem segjast ekki vilja semja við stjórnvöld í Íran.

Hann sagði að ef Bandaríkjaþingið samþykkti ekki samkomulagið, þá myndi það eyðileggja trúverðugleika landsins sem leiðandi afl í ríkiserindrekstri og sem akkeri heimsmála og alþjóðakerfisins.

Samkomulagið gengur út á að Íranir hægi á kjarnorkuáætlun sinni gegn því að stórveldin sex aflétti viðskiptaþvingunum sínum gagnvart landinu.

Obama viðurkenndi þó í ræðu sinni að Íranir gætu notað peningana, sem þeir munu öðlast eftir að viðskiptaþvinganirnar verða afnumdar, til að fjármagna starfsemi hryðjuverkahópa. Hann sagði að það væri skárra en að þeir kæmu sér upp kjarnorkuvopnum.

„Sannleikurinn er sá að Íranir hafi alltaf fundið leiðir til að fjármagna þessar tilraunir,“ sagði Obama.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert