Innkalla 8,5 milljónir bíla í Evrópu

Vandamál Volkswagen eru hvergi nærri yfirstaðin.
Vandamál Volkswagen eru hvergi nærri yfirstaðin. AFP

Bílaframleiðandinn Volkswagen hefur tilkynnt að hann muni innkalla 8,5 milljónir bifreiða í Evrópu, en ákvörðunin ku vera komin til vegna fyrirmæla frá þýska bifreiðaeftirlitinu. mbl.is sagði frá því fyrr í dag að eftirlitið hefði gert fyrirtækinu að innkalla 2,4 milljónir bifreiða í Þýskalandi.

Fyrirtækið hefur ekki gefið nánari upplýsingar um innköllunina en talsmenn þess segja að haft verði samband við viðkomandi bifreiðaeigendur. Þá segja þeir að unnið sé að lausnum til að koma bílunum í lag eins fljótt og auðið er.

Tilefni innköllunarinnar er útblásturshneykslið sem hefur orði til þess að hlutabréf í Volkswagen hafa lækkað um 20%. Það komst í hámæli eftir að eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum komust að því að sérstökum búnaði hafði verið komið fyrir í sumum dísilbifreiðum fyrirtækisins til að svindla á útblástursprófum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert