Vill ekki vinstriflokka í ríkisstjórn

Anibal Cavaco Silva, forseti Portúgal.
Anibal Cavaco Silva, forseti Portúgal. AFP

Forseti Portúgals hefur hafnað því að veita vinstriflokkunum í landinu umboð til að mynda ríkisstjórn þrátt fyrir að flokkarnir hafi fengið hreinan meirihluta atkvæða í kosningunum sem fram fóru 4. október eða samanlagt 50,7%.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að forsetinn, Anibal Cavaco Silva, hafi rökstutt ákvörðun sína með þeim rökum að það færi gegn þjóðarhagsmunum Portúgala að róttækir vinstriflokkar kæmust til valda. Flokkar sem hefðu þá stefnu að hætta aðhaldsaðgerðum sem gripið var til af fyrri ríkisstjórn landsins að kröfu Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Cavaco Silva sagði of áhættusamt að hleypa stjórnmálaflokknum Vinstrifylkingunni og Kommúnistaflokknum að stjórntaumunum. Þess í stað ættu hægri- og miðjumenn, sem mynduðu síðustu ríkisstjórn Portúgals og töpuðu miklu fylgi í kosningunum, að mynda minnihlutastjórn í því skyni að friða Evrópusambandið og erlenda fjármálamarkaði.

Forsetinn sagði að lýðræðið yrði að víkja fyrir reglum evrusvæðisins og aðildarinnar að því sem vörðuðu mikilvægari hagsmuni. Engin ríkisstjórn í Portúgal hefði í þau 40 ár sem landið hefði verið lýðræðisríki nokkurn tímann stuðst við „andevrópsk öfl“. Þar ætti hann við öfl sem hefðu meðal annars barist gegn Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, væru hlynnt því að Portúgal segði skilið við evrusvæðið og vildu að NATO yrði leyst upp.

Leiðtogi Sósíalistaflokksins, Antonio Costa, hefur fordæmt framgöngu forsetans og sakað hann um að taka sér völd sem hann hafi ekki. Cavaco Silva þyrfti ekki að kenna sósíalistum neitt um lýðræði. Hann hefur lýst því yfir að vantrausti verði lýst á minnihlutastjórn hægri- og miðjuflokkanna við fyrsta tækifæri. Hins vegar geta ekki farið fram nýjar þingkosningar fyrr en um mitt næsta ár samkvæmt portúgölsku stjórnarskránni.

mbl.is