Fyrrum gísl Ríkis íslams hágrét í norskum sjónvarpsþætti

Murad hágrét í setti NRK.
Murad hágrét í setti NRK.

Nadia Murad, sem er 22 ára, ferðast um heiminn til að segja sögu sína og leita stuðnings við hinar fjölmörgu jasídakonur sem haldið er sem kynlífsþrælum af Ríki íslams. Nú er hún stödd í Noregi og í gær kom hún fram í sjónvarpsþættinum Urix á NRK þar sem hún gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hún sá mynd af konu sem minnti á móður hennar.

Þúsundir í kynlífsþrældómi

Í ágúst á síðasta ári réðis Ríki Íslams á borgina Sinjar í Írak hrakti tugþúsundir á flótta. Jasídarnir sem eru trúarlegur minnihluti í Írak, flúðu upp á Sinjar fjall. Þeir sem ekki náðu í öruggt skjól voru myrtir eða hnepptir í kynlífsþrældóm.

Nadia var tekin föngum og haldið sem kynlífsþræl í þrjá mánuði ásamt yfir 5.000 jasídakonum á meðan Ríki íslams sölsaði undir sig fleiri og fleiri svæði í landinu. Hún reyndi að flýja en var fönguð og nauðgað af sex hermönnum öfgasamtakanna í refsingarskyni. Í nóvember síðastliðnum tókst henni loksins að sleppa og í dag hefur hún sótt um hæli í þýsku borginni Stuttgart.

Þáttastjórnandinn Gry Blekastad Almås og Nadia Murad. Baka til sést …
Þáttastjórnandinn Gry Blekastad Almås og Nadia Murad. Baka til sést konan í hvíta klæðnaðinum.

Myrt fyrir trú og klæðaburð

Eins og áður segir kom Murad fram í sjónvarpsþættinum Urix í gær á NRK. Á einum tímapunkti í þættinum sá hún mynd af eldri jasídakonu í hvítum klæðnaði og brast í grát.

„Hún minnir mig á móður mína,“ sagði Murad, með kökkinn í hálsinum og sneri sér frá skjánum. „Það mátti ekki nauðga eldri konunum svo þær voru drepnar.“

Murad sagðist hafa farið víða en aldrei séð nokkuð svo hræðilegt. Tárin léku niður kinnarnar meðan hún sagði stjórnanda þáttarins að móðir hennar hefði aldrei gert neitt af sér, hún var bara jasídi.

„Það er vegna fatanna sem þú sérð á myndinni að ég ferðast um og segi sögu mína. Þetta er klæðnaður okkar og móðir mín klæddist sömu fötum. Við erum myrt fyrir trú okkar og klæðaburð.“

Myndbandið sem sýnir Murad brotna saman má nálgast hér.

Í desember mánuði kom Murad fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og bað ráðið um að ráða niðurlögum Ríki íslams í eitt skipti fyrir öll.

„Nauðganir eru notaðar til að rústa stúlkum og konum, til að tryggja að þær muni aldrei eiga venjulegt líf. Ríki íslams hefur gert jasídakonur að kjöti sem gengur kaupum og sölum,“ sagði Murad við það tilefni. „Ég bið ykkur. Útrýmið Ríki Íslams.“

Túlkur Murad steig inn í og tók utan um hana …
Túlkur Murad steig inn í og tók utan um hana þegar tilfinningarnar báru hana ofurliði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert