ESB-umsókn Sviss verði dregin til baka

Ljósmynd/Yousef Elbes

Svissneska þingið samþykkti í gær með 126 atkvæðum gegn 46 þingsályktunartillögu þess efnis að umsókn Sviss um inngöngu í Evrópusambandið, sem verið hefur á ís frá því að svissneskir kjósendur höfnuðu aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992, verði dregin til baka. Viðræður höfðu þá hafist um inngöngu í sambandið en í kjölfar þjóðaratkvæðisins ákváðu svissnesk stjórnvöld að hætta þeim og setja umsóknina á ís þar sem hún hefur verið síðan.

Greint er frá þessu á vefsíðu Lukas Reimann, þingmanns Svissneska þjóðarflokksins, en hann lagði fram þingsályktunartillöguna sem samþykkt var. Fram kemur í umfjöllun um málið á vefsíðunni að stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið hafi um árabil haldið því fram að hagmunum Sviss væri hætta búin utan sambandsins en þvert á móti standi landið sterkari fótum og búi við meira frelsi vegna verunnar utan þess. Sjálfstæði Sviss og sveigjanleiki í stjórnsýslu landsins hafi reynst mikilvæg forsenda fyrir árangri Svisslendinga á liðnum árum.

Haft er eftir Didier Burkhalter, utanríkisráðherra Sviss, á fréttvef svissnesku sjónvarpsstöðvarinnar SRF að umsóknin hefði raun þegar glatað gildi sínu og Sviss væri ekki á lista Evrópusambandsins yfir umsóknarríki. Þingsályktunin væri fyrir vikið óþörf. Reimann segir hins vegar í fréttinni nauðsynlegt að hafa skýrar línur í þessum efnum. Vegna umsóknarinnar hafi Evrópusambandið ekki litið á Sviss sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Á vefsíðu Reimanns segir að umsóknin hafi staðið Sviss fyrir þrifum í samskiptum og samningaviðræðum við sambandið.

Þingsályktunartillagan fer næst til efri deildar svissneska þingsins og verður tekin fyrir þar í júní en í samtali við mbl.is segist Reimann telja nær engar líkur á öðru en að tillagan verði samþykkt þar líka. Verði sú raunin fellur í hlut ríkisstjórnar Sviss að framkvæma vilja þingsins og draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið formlega til baka. Fram kemur á vefsíðu Reimanns að samkvæmt skoðanakönnunum vilji aðeins 5% Svisslendinga ganga í sambandið.

mbl.is