Lærðu mikið af hryðjuverkunum

Danska lögreglan hafði mikinn viðbúnað í kjölfar árásanna.
Danska lögreglan hafði mikinn viðbúnað í kjölfar árásanna. AFP

Góður undirbúningur viðbragðsaðila skiptir sköpum þegar hryðjuverk verða. Þetta segir Peter Anthony Berlac, yfirmaður bráðaþjónustu í Kaupmannahöfn. Hann rakti atburðarás hryðjuverkanna í Kaupmannahöfn fyrir ráðstefnugesti á Bráðadeginum í dag.

Berlac er yfirsérfræðingur í svæfingarlækningum og yfirmaður bráðaþjónustu í Kaupmannahöfn og nágrenni, sem er eitt þeirra fimm svæða sem bráðaþjónusta Danmerkur skiptist í. Í fyrirlestri sínum fór Berlac yfir þá atburðarás sem hófst í kjölfar fyrstu árásarinnar frá sjónarhorni heilbrigðisstarfsfólks, þar sem læknar og bráðaliðar voru mitt í hringiðunni.

Tíminn flýgur hratt á vettvangi

„Allt hófst þetta á Valentínusardag fyrir rúmu ári, þegar tilkynnt var um skotárás þar sem maður hefði verið skotinn í bringuna úti á götu. Á vettvang fóru bráðaliðar ásamt lækni og þegar þeir komu á staðinn hófu þeir um leið að sinna honum,“ sagði Berlac og benti á að stærsta sjúkrahús Kaupmannahafnar hefði einungis verið 800 metrum frá staðnum.

„Svo, hvað gerir maður í þessum aðstæðum? Flytjum við hinn slasaða á sjúkrahús eða sinnum við honum á staðnum?“ spurði Berlac salinn. Fagfólkið sem þar var viðstatt virtist sammála um að flytja ætti hinn slasaða á sjúkrahús.

„Nákvæmlega. Við skrifum öll um þetta, okkur er kennt þetta og við kennum þetta sjálf. En þetta teymi, sem er eitt okkar allra hæfasta og það besta sem völ er á, byrjar samt að sinna honum á vettvangi. Það liðu tólf mínútur þar til hann var loks kominn um borð í sjúkrabílinn. Átta hundruð metrum frá fullbúnu áverkateymi sem beið aðgerðalaust.“

Sagði Berlac þetta atvik hafa vakið allt starfsfólkið til vitundar um hversu hratt tíminn flýgur.

Danska lögreglan var víða sýnileg í Kaupmannahöfn.
Danska lögreglan var víða sýnileg í Kaupmannahöfn. AFP

Fjórir slasaðir til viðbótar

„Það næsta sem gerist er, að einmitt þegar bráðaliðarnir og læknarnir eru að búa sig undir brottför með sjúkrabílnum bankar lögreglan á öxl læknisins og segir að fleiri séu slasaðir. Núna þarf teymið að taka ákvörðun í flýti. Er afráðið að læknirinn fer ásamt hinum slasaða á sjúkrahúsið en bráðaliðarnir verða eftir og fara inn í nærliggjandi byggingu,“ sagði Berlac og bætti við að þessari skjótu ákvörðunartöku bæri að hrósa.

„Þá reynast vera fjórir slasaðir til viðbótar inni í byggingunni. Á þessum tímapunkti höfðum við enga hugmynd um hvort hryðjuverk væri að ræða. Við héldum það, við gerðum ráð fyrir því, en opinberlega var þetta aðeins enn annar dagur í vinnunni.“

Skotum er hleypt af í Kaupmannahöfn að meðaltali nokkrum sinnum í hverjum mánuði að sögn Berlac.

„Þetta var í raun ekkert óvenjulegt á þessum tíma, fyrir utan það að árásin virtist í fljótu bragði hafa beinst að Lars Vilks.“

Frétt mbl.is: Ekki fyrsta tilræðið við Lars Vilks

Fjölmenni var á minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna hryðjuverkanna í febrúar.
Fjölmenni var á minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna hryðjuverkanna í febrúar. EPA

Fjölmiðlar sáu um upplýsingagjöf

„En mikið gekk á að tjaldabaki. Ég var starfandi yfirmaður í útkallsmiðstöð bráðahjálpar og við sendum fulltrúa okkar þaðan í samhæfingarstöð aðgerða. Við fylgdumst með fréttunum sem gáfu okkur miklu fljótar upplýsingar en við gátum nokkurn tímann fengið frá lögreglu. Jafnvel CNN var fyrr með fréttirnar en lögreglan á staðnum.“

Tæpum tíu tímum síðar átti sér stað önnur skotárás, að þessu sinni í bænahúsi gyðinga, skömmu eftir miðnætti aðfaranótt laugardags.

„Við fengum viðvörunina, ekki frá lögreglu, heldur frá aðstandanda eins fórnarlambsins. Þarna var Bar Mitzvah í gangi með áttatíu gestum og fyrir utan stóðu tveir verðir. Báðir voru skotnir, annar þeirra í höfuðið.

Þegar okkar teymi fékk tilkynninguna þá var það á ferð aðeins tuttugu sekúndum frá staðnum. Meðlimit teymisins keyra umsvifalaust á staðinn og mæta þar við enda götunnar lögreglumanni vopnuðum hríðskotabyssu.

Þeir spyrja hann hvort það sé öruggt að keyra áfram og hann kveður já við. Svo keyra þeir niður götuna og byrja að sinna slösuðum. Þá gengur fullvopnuð sérsveit fram á teymið og segir því að koma sér í burtu þar sem skotbardagi sé enn í gangi.

Læknirinn og bráðaliðarnir leggja auðvitað af stað hið snarasta og skilja allan sinn búnað eftir. Það var mikið um samskiptaörðugleika eins og þessa.“

Danska lögreglan að störfum í febrúar á síðasta ári.
Danska lögreglan að störfum í febrúar á síðasta ári. EPA

Hröð viðbrögð valda vandræðum

Berlac tók að lokum fram þrjú helstu atriðin sem læra mætti af árásunum.

Ofurhraðir viðbragðstímar ásamt töfum á upplýsingagjöf frá útkallsmiðstöðinni, þó litlar séu, geti komið viðbragðsteymum í hættulegar aðstæður. Þá skipti sköpum að koma á sambandi milli yfirmanna á vettvangi til að samhæfa aðgerðir.

„Í Kaupmannahöfn getum við jafnan brugðist ótrúlega fljótt við og það getur valdið miklum vandamálum, líkt og raunin varð við bænahúsið. Bráðateymin okkar eru svo skilvirk að þau geta verið komin á staðinn áður en allar nauðsynlegar upplýsingar frá útkallsmiðstöðinni hafa komist til skila.“

Þá geti reynst erfitt að ákvarða öruggt svæði fyrir viðbragðsteymi án þess að stefna því í voða þegar ástand á vettvangi breytist hratt, til dæmis þegar byssumaður gengur laus. Tók Berlac sem dæmi árásina í Bataclan-höllinni í París í nóvember síðastliðnum.

„Ég var að horfa á sjónvarpið þar sem lögregla er í miðjum skotbardaga við hryðjuverkamennina og fimmtán eða tuttugu metrum aftar standa fimm sjúkrabílar í viðbragðsstöðu. Þeir eiga algjörlega ekkert erindi þar.“

Lögreglan skaut árásarmanninn að lokum við Nørrebro lestarstöðina.
Lögreglan skaut árásarmanninn að lokum við Nørrebro lestarstöðina. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert