Var með barn og eiginmann með sér

Hér má sjá Amina Ali með dóttur sinni sem er …
Hér má sjá Amina Ali með dóttur sinni sem er 4 mánaða gömul. AFP

Þegar að hryðjuverkamenn Boko Haram rændu Amina Ali Nkeki fyrir rúmlega tveimur árum síðan var hún skólastúlka. Í dag er hún 19 ára gömul, gift móðir.

Svo virðist sem Nkeki hafi ráfað út úr Sambisa-skóginum í norðausturhluta Nígeríu, ásamt barni sínu og eiginmanni eftir að hafa verið í haldi hryðjuverkamanna í tvö ár ásamt fjölmörgum skólasystrum sínum. Vitnum og yfirvöldum ber þó ekki saman um hvernig stúlkan fannst.

Nígeríuher segir að stúlkunni hafi verið bjargað af hermönnum en að sögn vitna ráfaði hún út úr skóginum, sem er yfirráðasvæði hryðjuverkasamtakanna og bað um hjálp. Það hafa lengi verið vangaveltur um það hvort stúlkunum væri haldið í skóginum sem er nálægt landamærum Nígeríu og Kamerún. Allt að 276 stúlkum var rænt af vopnuðum mönnum sem réðust á heimavistarskóla í Chibok 14. apríl 2014. Að minnsta kosti 57 stúlkur náðu að sleppa skömmu síðar en rúmlega 200 eru enn ófundnar.

Aboku Gaji segist hafa séð stúlkuna koma út úr skóginum um klukkan sjö í gærkvöldi en Gaji starfar við eftirlit á svæðinu. Hún kynnti sig og þekkti Gaji stúlkuna sem eina þeirra sem rænt var af Boko Haram. Hún hafði þó breyst og virtist hún ekki vera í góðu líkamlegu ástandi, rétt eins og maðurinn og barnið sem voru með henni. Þá sagi Gaji fólkið jafnframt hafa verið skítugt.

Maðurinn sem var með Nkeki kynnti sig sem eiginmann hennar og faðir barnsins, hinnar fjögurra mánaða gömlu Safiya. Sagði hann sjálfur sér hafa verið rænt af Boko Haram úr bænum Mubi. Nígeríuher sagði þó í dag að maðurinn væri grunaður um að vera liðsmaður Boko Haram.

Farið var með stúlkuna heim til foreldra hennar í Mbalala þar sem móðir hennar tók á móti henni.

Fjarskyldur ættingi stúlkunnar, Yakubu Nkeki, sagði að konan hans hefði rætt við móður stúlkunnar og staðfest að hún væri komin heim.

„Þetta er gleðilegur tími fyrir mig,“ sagði Nkeki en dóttir hans er meðal þeirra sem enn eiga  eftir að koma heim.

Ránið á stúlkunum vakti heimsathygli og úr varð herferðin #BringBackOurGirls sem Michelle Obama, Malala Yousafzai og fleiri þekkt nöfn tóku þátt í. Svo virðist sem það hafi verið erfitt fyrir stjórnvöld að berjast gegn Boko Haram og finna stúlkurnar.

Þær voru flestar kristnar en neyddar til þess að snúast til íslams af hryðjuverkamönnunum.

Umfjöllun CNN.

Mohammed Hayatu segist vera eiginmaður Nkeki.
Mohammed Hayatu segist vera eiginmaður Nkeki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert