„Eldur“ í flugstjórnarklefanum

Flugritar þotu EgyptAir sem fórst. Upptaka úr flugstjórnarklefa þotunnar hefur …
Flugritar þotu EgyptAir sem fórst. Upptaka úr flugstjórnarklefa þotunnar hefur leitt í ljós að líklega var eldur um borð í vélinni. AFP

Orðið „eldur“ heyrist á upptöku úr flugstjórnarklefa þotu EgyptAir, sem hrapaði í Miðjarðarhafið í maí síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá egypskri rannsóknarnefnd slyssins.

Þegar hefur verið greint frá því að hinn flugriti vélarinnar, sem geymir ýmsar tæknilegar upplýsingar um ferð vélarinnar, hafi gefið til kynna að reykskynjarar hefðu farið af stað í vélinni, áður en hún fórst. Í tilkynningunni segir að enn sé of snemmt að segja til um staðsetningu eldsupptakanna eða orsök þeirra.

Leit að líkamsleifum farþega lauk í dag, en leitarskipið sem notast var við kom til hafnar í Alexandríu í Egyptalandi í morgun, eftir að leitin hafði verið framlengd í tvígang, til að ganga úr skugga um að allar líkamsleifar á svæðinu væru fundnar.

Egypsk og frönsk yfirvöld rannsaka nú bæði slysið og útiloka ekki að það hafi komið til vegna hryðjuverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert