Lögðu líf almennings í hættu

AFP

Hluti ástæðunnar fyrir tveimur mannskæðum flugslysum þar sem Boeing 737 Max-farþegaþotur brotlentu er tregða flugvélaframleiðandans við að deila tæknilegum upplýsingum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var af hálfu samgöngunefndar Bandaríkjaþings. 

Í skýrslunni er Boeing-flugvélaframleiðandinn harðlega gagnrýndur sem og eftirlitskerfi bandarískra stjórnvalda. Hjá Boeing sé hefð fyrir leyndarhyggju en jafnframt hafi eftirlitsaðilar brugðist ítrekað.

Í skýrslunni, sem er 239 blaðsíður að lengd, eru tilgreind nokkur atriði sem betur máttu fara. Til að mynda hafi verið mikill þrýstingur innanhúss hjá Boeing við að flýta því að koma MAX-vélunum á markað vegna samkeppni frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airubs. Landlæg leyndarhyggja innan fyrirtækisins þar sem lykilupplýsingum var haldið leyndum fyrir eftirlitsaðilum og óviðeigandi áhrif sem Boeing hefur innan æðstu stjórnenda Flugmálastofnunar Bandaríkjanna, Federal Aviation Administration (FAA).

Skýrslan er niðurstaða 18 mánaða langrar rannsóknar á tveimur flugslysum, Lion Air og Ethiopian Airlines, en alls létust 346 manns í slysunum tveimur. Skýrslan leiðir í ljós alvarlegar upplýsingar um hvernig Boeing, undir þrýstingi vegna samkeppninnar við Airbus og að skila hagnaði á Wall Street, hélt mikilvægum upplýsingum leyndum og fékk að setja flugvélategund í rekstur án athugasemda frá FAA sem kostaði 346 saklaus mannslíf, segir formaður nefndarinnar, Peter DeFazio. 

DeFazio segir það sérstaklega óþolandi hvernig bæði Boeing og FAA lögðu öryggi almennings í hættu á þeim tíma sem leið á milli flugslysanna tveggja. 

mbl.is