Mistök gerð og upplýsingum leynt

346 létust í tveimur flugslysum sem talið er að rekja …
346 létust í tveimur flugslysum sem talið er að rekja megi til galla í Boeing MAX-vélunum. AFP

Flugvélaframleiðandinn Boeing gerði mistök og leyndi upplýsingum um Boeing MAX 737-vélarnar. Þá höfðu yfirvöld ekki nógu góða yfirsýn með þeim reglugerðum sem eru til staðar sem leiddi til framleiðslu á vél sem var í grundvallaratriðum gölluð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu samgöngunefndar Bandaríkjaþings. Þessi mistök kalla á harðari og skýrari reglugerðir. AFP-fréttastofan greinir frá.

Samgöngunefndin og flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum kalla stjórnendur Boeing til ábyrgðar og gera kröfu um úrbætur. Í skýrslunni eru vélarnar sagðar bæði óöruggar og gallaðar. Þá boðar nefndin nýja reglugerð á næstu vikum til að koma í veg fyrir að slík mistök verði aftur.

Talið er að gallar í vélunum hafi valdið tveimur stórum flugslysum en tæpt ár er síðan Boeing MAX 737-vél Ethiopian Airlines hrapaði með 157 innanborðs, farþega og áhöfn. Nokkrum mánuðum áður hrapaði vél sömu gerðar frá Lion Air með 189 innanborðs.

Í skýrslunni kemur fram að stjórnendur Boeing hafi virt að vettugi áhyggjur verkfræðinga og flugmálayfirvöld hafi ekki hlustað á varnarorð sinna eigin sérfræðinga. Rannsókn á málinu er þó ekki lokið en markmið hennar er að draga enn skýrar fram í dagsljósið hvernig það gat gerst að vélarnar voru teknar í notkun þrátt fyrir fjölmarga galla, sem leiddi til þess að 346 manneskjur létu lífið.

Boeing MAX 737-vélarnar hafa verið kyrrsettar frá því í mars á síðasta ári.

mbl.is