Tók rútu frá Hollandi til Lyon eftir árásina

12 létu lífið og 48 særðust.
12 létu lífið og 48 særðust. AFP

Lögreglan rannsakar enn hvernig hryðjuverkamaðurinn Anis Amri sem gerði árás á jólamarkað í Berlín 19. desember síðastliðinn komst til Ítalíu. Þar skaut lögreglan hann til bana fjórum dögum eftir árásina. Í árásinni létu 12 manns lífið og 48 slösuðust.

Tveimur dögum eftir að Anis Amri gerði árás á jólamarkað í Berlín á mánudeginum 19. desember ferðaðist hann með rútu frá Hollandi til Frakklands áður en hann hélt til Ítalíu. Amri tók næturrútu frá hollensku borginni Nijmegen, sem er við landamæri Þýskalands, til borgarinnar Lyon sem er í miðju Frakklandi. Þar fór hann úr rútunni og tók lest á lestarstöðinni Lyon-Part-Dieu til frönsku borgarinnar Chambery áður en hann hélt til Mílanó í norður Ítalíu. Amri sást á eftirlitsmyndavélum á lestarstöðinni.

Þegar Amri kom til Ítalíu skaut hann að lögregluþjóni sem var við reglubundið eftirlit og hann var þar skotinn til bana. Á líki hans fannst þessi lestarmiði.

Lögreglan rannsakar enn hvernig hann komst frá Berlín sem er í norðaustur Þýskalandi og til Hollands. Hann er talinn hafa átt samverkamenn. Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið 40 ára gamlan mann frá Túnis sem er grunaður um að tengjast Amri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert