Hver sigrar í bresku kosningunum?

Dyrnar á Downingstræti 10 í London, skrifstofu og heimili forsætisráðherra ...
Dyrnar á Downingstræti 10 í London, skrifstofu og heimili forsætisráðherra Bretlands. Hver mun ráða þar ríkjum eftir bresku þingkosningarnar á morgun? AFP

Bretar mæta á kjörstað á morgun og velja fulltrúa í neðri deild breska þingsins. Flestir, bæði stjórnmálaskýrendur og kjósendur, gera ráð fyrir því að Íhaldsflokkur Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sigri í kosningunum og haldi meirihluta sínum samkvæmt breskum fjölmiðlum. Skoðanakannanir hafa hins vegar verið mjög misvísandi í þeim efnum.

Flestar skoðanakannanir eru sammála um að dregið hafi saman með Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum, þeim tveimur flokkum sem njóta mests fylgis, á undanfarnar vikur en hins vegar greinir þær talsvert á um hversu mjótt sé orðið á mununum. Sumar kannanir að undanförnu hafa bent til þess að forskot Íhaldsflokksins sé í tveggja stafa tölu á meðan aðrar hafa bent til þess að forskotið geti verið allt niður í einungis eitt prósentustig.

Þetta þykir ekki síst athyglisvert í ljósi þess að þegar May boðaði til kosninga og legði tillögu þess efnis fram í breska þinginu um miðjan apríl sýndu skoðanakannanir Íhaldsflokkinn með um 20% forskot á Verkamannaflokkinn. Síðan hefur síðarnefndi flokkurinn bætt verulega við sig ef marka má kannanir á meðan fylgi íhaldsmanna hefur dalað nokkuð. Fyrir vikið hefur dregið saman með þeim.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, á kosningafundi í ...
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, á kosningafundi í gær. AFP

Tortryggni gætir hins vegar mjög í garð skoðanakannana í Bretlandi í ljósi þess að þeim hefur gengið illa að spá fyrir um niðurstöður kosninga þar í landi á undanförnum árum. Þannig bentu flestar kannanir til þess að Íhaldsflokkurinn myndi ekki fá meirihluta þingsæta í þingkosningunum 2015 og að meirihluti breskra kjósenda myndi samþykkja að vera áfram í Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðinu sem fram fór á síðasta ári. Hvorugt stóðst hins vegar.

Verður hægt að mynda meirihlutastjórn?

Fáir reikna með því að Verkamannaflokkurinn nái hreinum meirihluta í neðri deildinni en verði sú ekki raunin í tilfelli Íhaldsflokksins verða flokkarnir að reyna að mynda samsteypustjórn. Viðraðar hafa verið hugmyndir um að Verkamannaflokkurinn, Skoski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndir demókratar reyni að mynda slíka stjórn nái Íhaldsflokkurinn ekki meirihluta.

Hins vegar er alls óvíst miðað við skoðanakannanir hvort þessir þrír flokkar fái nægan þingstyrk til þess að mynda meirihlutastjórn. Tapi Íhaldsflokkurinn meirihluta sínum mun þar líklega ekki vanta mjög mörg þingsæti. Til þess þarf að lágmarki 326 þingmenn af þeim 650 sem sæti eiga í neðri deildinni en ýmsir aðrir minni flokkar eru líklegir til þess að fá nokkra fulltrúa kjörna.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. Verður hann næsti forsætisráðherra Bretlands?
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. Verður hann næsti forsætisráðherra Bretlands? AFP

Meirihluti Íhaldsflokksins í dag telur aðeins 17 þingmenn en May boðaði meðal annars til kosninganna í þeim tilgangi að styrkja meirihluta sinn vegna fyrirhugaðra viðræðna við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands. Markmið hennar var einnig að fá lengri tíma til þess að takast á við það mál en síðast var kosið til þings í Bretlandi fyrir tveimur árum.

Fyrir vikið er talið mikilvægt fyrir forsætisráðherrann að halda ekki aðeins meirihluta í neðri deild breska þingsins heldur auka hann talsvert frá því sem nú er. Hvort sú verður raunin kemur í ljós í kosningunum sem fara fram á morgun. Útgönguspá verður birt annað kvöld og síðan fyrstu tölur í kjölfarið. Endanleg niðurstaða verður gerð opinber á föstudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Varstu í bústað, ólykt eftir vetur, viltu eyða
Varstu í bústaðnum, var ólykt / fúkkalykt eftir veturinn, viltu eyða, hér er lau...
LÚGUSTIGAR - SMÍÐUM EFTIR MÁLI
Sérsmíðað, eigum á lager 68x85 og 55x113 Einnig Álstiga í op 45,7x56 eða stærra ...
BÆKUR TIL SÖLU
Bækur til sölu Stjórnartíðindi 1885-2000, 130 bækur, Almanak Þjóðvinafélags-ins ...
 
Breyting á aðalskipulagi
Tilboð - útboð
Breyting á Aðalskipulagi Skorradalshrepp...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og g...
Félagsstarf eldir borgara
Staður og stund
Árbæjarkirkja Kyrrðarstund í kirkjunni k...
Félagsstarf eldri borgara
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...