Leiðtogi UKIP segir af sér

Paul Nuttall er hættur sem leiðtogi UKIP.
Paul Nuttall er hættur sem leiðtogi UKIP. AFP

Paul Nuttall, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), hefur sagt af sér í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru í gær. Flokkurinn hlaut engin þingsæti í neðri deild breska þingsins og tapaði enn fremur miklu fylgi frá síðustu þingkosningum. Fór úr 12,7% í 1,8% nú.

Flokkurinn náði einu þingsæti í þingkosningunum árið 2015 en þingmaðurinn, Douglas Carswell, sagði sig hins vegar úr flokknum í mars. Nuttall segir í yfirlýsingu samkvæmt frétt AFP að afsögnin taki þegar gildi. Þar með fái UKIP tækifæri til þess að velja nýjan leiðtoga.

Nuttall segir enn fremur að UKIP þurfi nýtt upphaf með nýjum leiðtoga. Segist hann hafa þurft að leiða flokkinn í gegnum þrjár aukakosningar og þingkosningar á aðeins sex mánuðum og fyrir vikið ekki hafa fengið ráðrúm til þess að endurmóta flokkinn.

Nuttall tók við sem leiðtogi UKIP í lok nóvember á síðasta ári. Framkvæmdastjóri UKIP, Jonathan Arnott, hefur einnig sagt af sér samkvæmt frétt breska dagblaðsins Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert