Handtekni hlauparinn neitar sök

Lögreglan birti í vikunni myndband af atvikinu.
Lögreglan birti í vikunni myndband af atvikinu. Mynd/Skjáskot

Maðurinn sem var handtekinn grunaður um að hafa ýtt konu þannig að hún varð næstum því fyrir strætisvagni er meðeigandi í fjárfestingafyrirtæki í Mayfair-hverfinu í Lundúnum.

Hann heitir Eric Bellquist og er fimmtugur. Hann var handtekinn af lögreglunni grunaður um að hafa valdið konunni skaða er hann var á hlaupum yfir Putney-brú.

Bellquist hefur neitað því að vera hlauparinn sem um ræðir og kveðst hafa verið í Bandaríkjunum þegar atvikið átti sér stað, að því er The Telegraph greindi frá.

Bellquist starfar hjá fyrirtækinu Hutton Collins Partners sem á veitingahúsakeðjurnar Wagamama og Byron.

Í yfirlýsingu frá lögfræðistofunni Duncan Lewis sem er verjandi Bellquist, sagði: „Þessi yfirlýsing er gefin út vegna handtöku skjólstæðings okkar herra Eric Bellquist sem var handtekinn í gær í tengslum við atvik sem átti sér stað á milli karlkyns hlaupara og konu sem var gangandi vegfarandi 5. maí 2017 á Putney-brú,“ sagði í yfirlýsingunni. 

„Skjólstæðingur okkar hefur verið ranglega bendlaður við þetta mál. Hann neitar því staðfastlega að hann sé maðurinn sem um ræðir og hefur órekjanlega fjarvistasönnun um að hann hafi verið í Bandaríkjunum þegar atvikið varð.“

Lögreglan hefur sleppt Bellquist úr haldi eftir yfirheyrslur án þess að leggja fram kæru og stendur rannsókn á málinu enn yfir.

Óskað hefur verið eftir því að fleiri vitni gefi sig fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert