Saga valdníðslu og meðvirkni

Harvey Weinstein virðist hafa komist upp með fjölda kynferðisbrota um ...
Harvey Weinstein virðist hafa komist upp með fjölda kynferðisbrota um áratuga skeið. AFP

Hann veitti þér athygli á kaffihúsi eða kvikmyndahátíð. Ef til vill varstu þegar komin með hlutverk í mynd sem hann framleiddi. Hann bauðst til að aðstoða þig og þú; ung leikkona, fyrirsæta, einhver sem dreymdi um að „meika“ það í bransanum, þáðir það fegins hendi.

Kannski hafðir þú heyrt einhverju hvíslað um manninn, um hegðun hans í garð ungra kvenna, en þetta var bara fundur og það yrði kona viðstödd; einhver undirmaður framleiðandans valdamikla. Þú ákvaðst að láta slag standa.

Fundurinn átti sér stað á hóteli en þegar þangað var komið varstu beðin um að hitta framleiðandann á herberginu hans. Hann tók á móti þér á baðsloppnum. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hann bað þig um nudd, eða e.t.v. um að horfa á sig í sturtu. Kannski fór hann inn á baðherbergi og kom svo nakinn fram.

Þér leið illa; þú upplifðir að vera á valdi hans. Kannski gafstu undan, bara smá, til að komast í burtu. Ef til vill varstu heppin og ekkert meira gerðist. Kannski ekki.

Angelina Jolie, Mira Sorvino, Gwyneth Paltrow og Rosanna Arquette eru ...
Angelina Jolie, Mira Sorvino, Gwyneth Paltrow og Rosanna Arquette eru meðal þeirra sem hafa stigið fram og sagt frá miðurskemmtilegum samskiptum sínum við Weinstein.

Þannig hljóða frásagnir fjölda kvenna sem segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Rándýrshegðun hans í garð ungra kvenna virðist hafa verið opinbert leyndarmál í Hollywood í áratugi en frásagnir þeirra sem stigið hafa fram eru átakanlega áþekkar og ömurlegt að Weinstein hafi getað stundað glæpsamlega iðju sína óáreittur í fjölda ára.

Margar þekktar konur hafa stigið fram og lýst ógeðfelldum kynnum sínum af framleiðandanum en flestar þögðu á sínum tíma. Weinstein, sem mikilsvirtur framleiðandi og stofnandi Miramax og The Weinstein Company, var gríðarlega valdamikill. Þær konur sem voru síður þekktar óttuðust lögsóknir, hinar atvinnumissi. Nokkrar áttu Weinstein feril sinn að þakka og á yfirborðinu var hann mikill og einarður stuðningsmaður kvenna.

Ótrúleg óskammfeilni

Þegar tilkynnt var um þær leikkonur sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna árið 2013 sagði kynnirinn Seth MacFarlane: „Til hamingju, þið fimm þurfið ekki lengur að þykjast laðast að Harvey Weinstein!“ Þá var ein kvenpersóna sjónvarpsþáttanna 30 Rock, hugarfósturs Tinu Fey, látin segja í einum þættinum: „Ég óttast engan í skemmtanabransanum. Ég sagði nei við kynlífi með Harvey Weinstein.. í þrjú skipti af fimm.“

Saga Harvey Weinstein fjallar um valdníðslu og meðvirkni.

Undanfarna daga hafa tveir erlendir miðlar dregið það fram í dagsljósið sem áður var sveipað skugga; New York Times og The New Yorker. Það var NY Times sem reið á vaðið en höfundur umfjöllunarinnar í New Yorker, Ronan Farrow, greindi frá því í gærkvöldi að hann hefði upphaflega unnið hana fyrir NBC. Að baki lá 10 mánaða vinna. Þar á bæ neituðu menn hins vegar að ráðast í málið og því leið og beið.

Í umfjöllun sinni segir Farrow brotaþola líklega líða betur með að stíga fram nú en áður, þegar viðhorf hafa breyst og í kjölfar fregna af meintum brotum annarra þekktra og valdamikilla manna, s.s. Donald Trump, Bill Cosby, Bill O'Reilly og Roger Ailes. Sjálfur er Ronan sonur Miu Farrow og Woody Allen og hefur lýst yfir stuðningi við systur sína Dylan, sem hefur sagt frá því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu Allen, annars áhrifamikils Hollywood-karls.

Farrow ræddi við Rachel Maddow á MSNBC í gærkvöldi og greindi m.a. frá því að Weinstein hefði persónulega hótað honum lögsókn vegna umfjöllunarinnar. Weinstein er sagður hafa beitt fórnarlömb sín sömu hótunum og ítrekað þaggað mál niður með peningagreiðslum og þagnarákvæðum. Þá hefur hann verið sakaður um að hafa beitt sér fyrir ógeðfelldri fjölmiðlaumfjöllun um þá sem honum þóknast ekki. Allt til að viðhalda þögninni.

Það er erfitt að ná utan um þau áhrif sem Weinstein hefur haft í Hollywood en kvikmyndir hans hafa hlotið meira en 300 Óskarsverðlaunatilnefningar og margar þeirra slegið í gegn bæði í kvikmyndahúsum og á öðrum kvikmyndahátíðum. En þrátt fyrir ítök framleiðandans vekur athygli hversu óskammfeilinn hann hefur verið í hegðun sinni, þar sem nokkur fórnarlamba hans voru þekkt þegar brotin áttu sér stað og/eða vel tengd.

New York Times greindi sagði m.a. frá því í gær að leikkonurnar Gwyneth Paltrow og Angelina Jolie hefðu verið áreittar af Weinstein en báðar eiga þekkta foreldra; Paltrow er dóttir framleiðandans og leikstjórans Bruce Paltrow og leikkonunnar Bylthe Danner, og Jolie dóttir leikaranna Jon Voight og Marcheline Bertrand. Þá var Paltrow í sambandi með Brad Pitt þegar Weinstein lét til skarar skríða gegn henni.

Benedict Cumberbatch, George Clooney, Mark Ruffalo og Colin Firth hafa ...
Benedict Cumberbatch, George Clooney, Mark Ruffalo og Colin Firth hafa stigið fram og fordæmt hegðun Weinstein.

Ærandi þögn

Meðal þeirra sem stigið hafa fram og rætt um hegðun Weinstein eru núverandi og fyrrverandi undir- og samstarfsmenn. Sumir upplifðu áreitnina á eigin skinni en aðrir voru notaðir sem tálbeitur. Kvenkyns yfirmaður hjá Weinstein Company sagði frá því í samtali við Farrow að aðstoðarmenn og aðrir hefðu verið „hunangskrukkur“ og þjónað því hlutverki að láta konunum ungu líða vel með að mæta á fundi með framleiðandanum. Starfsmönnunum hefði hins vegar fljótlega verið vísað af fundum og skilið Weinstein eftir einan með fórnarlambinu.

Með hverjum deginum sem líður fjölgar þeim sem stíga fram og segja frá miðurskemmtilegum kynnum sínum af Weinstein. Ef marka má nýjustu fregnir virðist hann ekki hafa látið sér nægja að biðja um nudd og kynferðisgreiða, heldur ku hann hafa brotið enn gróflegar af sér með því að neyða konur til munnmaka og jafnvel nauðgað þeim.

Margir þekktir einstaklingar hafa tjáð sig og fordæmt hegðun framleiðandans en aðrir segja þögnina ærandi, ekki síst þegar kemur að körlum í Hollywood, og þeirri spurningu er enn ósvarað af hverju áhrifamikið fólk þagði öll þessi ár. Guardian setti sig í samband við 20 karla, leikara og leikstjóra, sem unnið hafa með Weinstein; enginn svaraði fyrirspurnum. Meryl Streep og Judi Dench fordæmdu hegðun framleiðandans en sögðust ekkert hafa vitað.

Samt hlógu allir viðstaddir að brandara MacFarlane árið 2013. 

Svo eru það þeir sem höfðu sannarlega vitneskju og upplýsingar um brot Weinstein og bar að grípa til aðgerða en gerðu það ekki. Ambra Battilana Gutierrez hitti framleiðandann í New York í mars 2015, þá 22 ára gömul. Hún leitaði til lögreglunnar eftir að Weinstein greip í brjóst hennar og reyndi að renna hendinni undir pils hennar. Gutierrez samþykkti að fara hitta Weinstein vopnuð upptökubúnaði og fékk hann m.a. til að viðurkenna brot sitt. Ákæruvaldið ákvað að láta málið niður falla.

Weinstein er búinn að vera; hefur misst vinnuna og eiginkonuna. Hvort hann verður látinn svara til saka fyrir dómstólum verður tíminn að leiða í ljós.

New York Times: Harvey Weinstein Paid Off Sexual Harassment Accusers for Decades

The New Yorker: From Aggressive Overtures to Sexual Assaults: Harvey Weinstein's Accusers Tell Their Stories

New York Times: Gwyneth Paltrow, Angelina Jolie and Others Say Weinstein Harassed Them

mbl.is

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Ræstingavagn
Til sölu 2 Ræstingavagnar fást báðir fyrir kr: 8,900,- Voru keyptir hjá Rekstrar...
STURTUKERRUR _ STURTUKERRUR
Sturtukerrur, rafdrifnar, fjarstýring, sturta aftur og til beggja hliða, hæð sk...
SUMARFRÍ Í SÓL & HITA Í VENTURA FLORIDA
Glæsilegt HÚS til leigu v. 18 holu golfv, 3 svh. 2 bh.,1 wc, stór stofa, eldhús ...
Viðeyjarbiblía 1841
Til sölu Viðeyjarbiblía frá 1841, innbundin í fallegt skinnband, ástand mjög got...
 
Aðalfundur isnic 2018
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur ISNIC 2018 Aðalfundur Inter...
Fundur
Fundir - mannfagnaðir
Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna...
Skattadagurinn
Fundir - mannfagnaðir
SKATTADAGUR FLE Ráðstefna um skattam...
Framboðslisti
Fundir - mannfagnaðir
Framboðslisti Sjál...