Villtust og frömdu morð og sjálfsmorð

Rachel Nguyen og Joseph Orbeso virðast hafa villst af leið …
Rachel Nguyen og Joseph Orbeso virðast hafa villst af leið og verið orðin vatnslaus og matarlítil.

Par frá Kaliforníu sem hvarf í Joshua Tree þjóðgarðinum í júlí og fannst dáið um síðustu helgi, er nú talið hafa framið morð og sjálfsmorð.

Þau Rachel Nguyen og Joseph Orbeso, sem bæði voru um tvítugt, fundust síðasta sunnudag af hópi leitarmanna og var faðir Orbesos þeirra á meðal.

Lögregla segir sönnunargögn á vettvangi benda til þess að Orbeso hafi skotið Nguyen fyrst og beint svo byssunni að sjálfum sér. Svo virðist sem þau hafi verið orðin vatnslaus og átt lítinn mat eftir.

Cindy Bachman, talsmaður lögreglunnar í San Bernardino, sagði BBC að parið hafi fundist undir tré og svo virtist sem þau væru í faðmlögum. Hún sagði þau hafa lagt fatnað yfir fætur sér til að verja sig fyrir hitanum.

Lögreglumenn fundu skammbyssu á vettvangi sem var í eigu Orbesos.

„Aðstæðurnar eru ólíkar þeim sem við höfum séð í nokkurri annarri björgunaraðgerð sem við höfum tekið þátt í,“ sagði Bachman. „En það er ekkert sem fær rannsakendur til að telja að hann hafi ætlað að vinna henni mein.“

Tilkynnt var um hvarf parsins í lok júlí, eftir að þau skráðu sig ekki út úr Airbnb gistingu sem þau dvöldu í á Morongo Basin svæðinu.

Þjóðgarðsverðir fundu þá bíl þeirra við gönguslóða sem leiddi til þess að björgunarsveitir voru kallaðar út og leituðu þær parsins í rúmar 2.100 klukkustundir. Þau fundust svo um síðustu helgi í djúpu gili norður af Maze Loop gönguleiðinni.

Rannsókn málsins er ekki lokið, en faðir Obreso sagði í tölvupósti til fréttaveitu Southern California News Group að hann vilji að sonar síns sé „minnst sem vingjarnlegs, ástríks og umhyggjusams manns“.

„Hvernig hann fannst við hlið Rachel og hélt utan um hana eins og þau væru að leita skjóls undir runnanum, það segir manni allt sem maður þarf að vita um hann sem mann og manneskju,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert