Páfinn kominn til Búrma

Fjölmenni var viðstadd á flugvellinum í Yangon er flugvél Frans …
Fjölmenni var viðstadd á flugvellinum í Yangon er flugvél Frans páfa lenti þar í morgun, m.a. þessar konur Kachin-þjóðarinnar sem klæddu sig í þjóðbúninga sína í tilefni heimsóknarinnar. AFP

Frans páfi er nú kominn til Búrma þar sem hann mun dvelja í fjóra daga í opinberri heimsókn. Sjónir umheimsins hafa beinst að landinu og nágrannaríki þess, Bangladess, síðustu mánuði vegna ásakana um ofsóknir hersins á hendur rohingjum, minnihlutahópi múslima, sem hafa í þúsundavís flúið heimkynni sín. 

Flugvél páfa lenti á flugvellinum í Yangon í morgun þar sem kaþólikkar Búrma og fleiri tóku vel á móti honum. 

Frans páfi hefur hingað til látið sig málefni flóttafólks í heiminum mikið varða og m.a. gefið hópi þeirra skjól í Vatíkaninu. Nú velta fréttaskýrendur því fyrir sér hvort hann muni ræða hið mjög svo viðkvæma mál rohingja við þá leiðtoga Búrma sem hann mun eiga fundi með. Hann hefur áður tjáð sig um rohingja og sagt þá ofsótta bræður sína og systur.

Frans er fyrsti páfinn sem heimsækir Búrma en langflestir íbúar landsins eru búddistar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert