Sjálfstæði ýtt til hliðar

Inés Arrimadas í ræðustól í Katalóníu í vikunni. Hún þykir …
Inés Arrimadas í ræðustól í Katalóníu í vikunni. Hún þykir ástríðufullur ræðumaður, fylgin sér og vel máli farin, AFP

Í hennar huga hefur lítil sem engin stjórnsýsla, í eiginlegum skilningi þess orðs, átt sér stað í Katalóníu undanfarin sjö ár; allt púður hefur farið í sjálfstæðisbaráttuna. Nái hún kjöri sem forseti héraðsstjórnarinnar seinna í mánuðinum lofar Inés Arrimadas, forsetaefni Borgaraflokksins (s. Ciutadans), að vinda hratt ofan af þeirri þróun – sem hafi ekki verið til heilla.

„Fyrstu hundrað dagana í embætti verður það forgangsverkefni að tryggja samstöðu í samfélaginu,“ sagði Arrimadas við fjölmiðla í vikunni. „Við þurfum að virkja áætlun til að hressa upp á viðskiptalífið, því fyrr þeim mun betra eigi það ekki hreinlega að lognast út af. Þið munið hvað gerðist í Quebec. Við þurfum að nota allt fé sem núna fer í sjálfstæðisáróður í heilbrigðiskerfið og aðrar grunnstoðir samfélagsins. Við þurfum að forgangsraða upp á nýtt þegar kemur að því að eyða fjármunum almennings. Fram að þessu hefur höfuðáhersla verið á katalónsk sendiráð, utanlandsferðir og almannasjónvarp – allt í þágu áróðurs.“

Borgaraflokkurinn hefur verið á góðri siglingu í skoðanakönnunum að undanförnu vegna kosninganna, sem boðað var til 21. desember eftir að stjórnvöld á Spáni settu héraðsstjórn Carles Puigdemonts forseta af fyrr í haust, og þykir muna þar mest um vasklega framgöngu Arrimadas, sem aukinheldur er eina konan sem haft hefur sig í frammi.

Munurinn á Borgaraflokknum og hinum þjóðernissinnaða Esquerra Republicana hefur verið innan skekkjumarka í könnunum, hvor flokkur um sig er að mælast með um 25% fylgi, en flokkur Puidgemonts, Sameinuð fyrir Katalóníu, kemur þar býsna langt á eftir. Fyrir vikið er mikil spenna í loftinu.

Stjórnmálaskýrendur hafa átt í nokkru basli með að staðsetja Borgaraflokkinn á hinu pólitíska rófi. Sjálfur notar flokkurinn orðið „póst-þjóðernissinnaður“ til að lýsa sér en að gömlum sið hafa menn fundið sig knúna til að festa hann á ásnum frá hægri til vinstri.

Sumir segja að Borgaraflokkurinn sé hægri sinnaður miðjuflokkur, aðrir vinstrisinnaður miðjuflokkur og þeir sem er mest í nöp við flokkinn kalla hann aðeins viðhengi við hinn hægrisinnaða Flokk fólksins (FF), flokk Marianos Rajoy forsætisráðherra, sem Borgaraflokkurinn hefur stutt á spænska þinginu.

Nánari umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert